03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1411)

68. mál, fræðsla barna

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef litið yfir nál. 290, og ég hef einnig hlýtt á ræðu hv. frsm. menntmn. Það, sem hann sagði, var að miklu leyti tekið upp úr nál. og þeim skjölum, sem því fylgja, með skýringum frá honum, og ég hef ekki mikla ástæðu til þess að minnast sérstaklega á mörg atriði úr ræðu hans. Þó er það held ég tvennt, sem ég vil sérstaklega minnast á. Hann viðurkennir það, eins og auðvitað verður að viðurkenna, að réttindi hinna próflausu kennara skorti það til að vera fullkomin, miðað við réttindi prófkennara, að hvenær sem maður með fullum réttindum kemur og vill fá stöðu, sem hinn próflausi situr í, þá verður hann að standa upp.

Þetta taldi hv. frsm. ekki mjög tilfinnanlegt, fyrst og fremst af því, að nú væri þannig ástatt í landinu, að það vantaði mjög marga menn með fullum réttindum til að geta skipað nauðsynleg barnakennarasæti, svo að líkurnar væru ekki miklar til, að þeir hrintu öðrum úr stólum. Og svo var hin útskýringin, að af því að svona væri rúmt um í kennarastéttinni, þá mundi hinn próflausi maður sjálfsagt geta fengið kennarastöðu annars staðar, þó að hann yrði hrakinn úr starfi af réttindamanni. Þetta fannst mér nokkuð köld skýring gagnvart mönnum, sem lengi hafa unnið fyrir þjóðfélagið og ekki tekið rétt frá neinum í því sambandi. Hugsum okkur t.d., að fyrir þessu verði maður, sem búinn er að kenna á sama stað í 20 ár, og hann getur alveg eins orðið fyrir því, maðurinn, sem svo lengi er búinn að kenna. Eftir útskýringu hv. frsm. er þetta ekki svo tilfinnanlegt fyrir hann, vegna þess að hann getur farið í annan stað. Nú er það svo, að maður, sem búinn er að kenna svona lengi, er búinn að rótfestast eftir öllum venjum á þeim stað og búa þar um sig og sína. Það er því mjög líklegt, að það sé allmikið hnjask á honum að hrekja hann þarna úr sæti og það bara vegna þess, að hann hafði ekki prófréttindi, en var búinn að standa vel í stöðu sinni eigi að síður svona lengi. Þetta finnst mér ekki nægileg skýring til að réttlæta ástandið, eins og það er.

Hitt, sem ég vildi gera athugasemd við hjá hv. frsm. sérstaklega, var það, að hann ver að snúa út úr setningu í grg. okkar flm., sem ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp. Það voru þessi orð:

„Kennaramenntun, staðfest með prófi að loknu námi, er vitanlega mikilsverð og æskileg. En kennarahæfni eftir 10 ára reynslu í starfl, staðfest af skólanefnd, námsstjóra og fræðslumálastjóra, vegur líka mikið. Hver vili telja minna öryggi í henni fyrir nemendurna?“

Ég hygg, að hér sé sanngjarnlega að orði komizt, líka gagnvart þeim, sem útskrifast úr kennaraskóla, hafa lokið þar sínu prófi, en ekki fengið æfingu í starfi og ekki er komið í ljós, hversu vel eru hæfir til að vera kennarar, vegna þess að það er langt frá því, að allir, sem ljúka prófi í kennaraskóla, séu sérstaklega vel hæfir kennarar. En hinn maðurinn aftur á móti, sem þarna er miðað við, hann er sá, sem búinn er að vinna í 10 ár og reynsla er komin af að veldur sínu verkefni. Það getur vitanlega komið fyrir, að maður, sem kemur frá prófborði, reynslulaus að öðru, en því að standast próf, láti rýma fyrir sér manninn, sem búinn er að vinna í 10 ár og hefur sannað það, að hann er sérstaklega vel til þess fallinn að vera kennari, og það eru slík fyrirbæri, sem við flm. viljum koma í veg fyrir að geti átt sér stað.

Stephan G. Stephansson segir:

„Þitt er menntað afl og önd,

eigirðu fram að bjóða hvassan skilning,

haga hönd,

hjartað sanna og góða.“

Það er ekki víst, að maður, sem kemur frá prófborðinu, hafi öðlazt þessa mennt. En það á að vera hægt fyrir þá, sem eru eftirlitsmenn með störfum kennara, að víta það, hvort maðurinn, sem búinn er að vinna í 10 ár, hefur þessa menntun, og ef hann hefur hana, þá er harkalegt að láta hann rísa upp fyrir hinum.

Ég hef, eins og ég sagði áðan, rennt augum yfir álit hv. menntmn. og sérstaklega líka þau skjöl, sem því fylgja. Af þessum fskj. og einnig upptalningu annarra skjala, sem ekki eru birt, en nefndinni hafa borizt, er augljóst, að nefndin hefur sannarlega fengið leiðbeiningar. Þar hefur enginn kennaraskortur bagað, ekki aðeins tilkvaddir menn komið til kennslu, heldur líka margir, jafnvel óteljandi sjálfboðaliðar — a.m.k. get ég ekki gizkað á, hve margir eru í félögunum, sem þarna láta til sín taka og eru samstilltir, að því er virðist. Maður gæti jafnvel látið sér detta í hug, að einn hefði þar hnippt í annan og funi glæðzt af funa. Kannske félagsstjórnir hafi gripið til víðtækustu umboða sinna til þess að koma á framfæri við hv. nefnd skoðun umbjóðenda sinna?

Í þeim fskj., sem prentuð eru með nál., kennir margra grasa. Sumt er þar að sjálfsögðu viturlega mælt og lærifeðrum fullkomlega samboðið. Sumt er aftur á móti næsta skrýtið og furðulegt, sem tínt er þarna til gegn frv., og það bendir til þess, að treysta megi því, að ekkert hafi verið látið eftir liggja, sem hinir vísu menn gátu hugsað sér sem mótmæli gegn frv. Ég vil nefna dæmi um þetta og lesa, með leyfi hæstv. forseta, málslið úr bréfi kennarafélags kennaraskólans. Þessi málsliður er svona:

„Ef frv. þetta verður að lögum, mun það ýta undir gersamlega óreynda og óþjálfaða menn að taka að sér kennslu. Verður það að teljast ábyrgðarlítið að stuðla að því með lögum, að börn á skólaskyldualdri séu notuð til þess að prófa hæfni kennara, sem ráðnir eru án þess, að nokkrar sönnur hafi verið færðar á kennsluhæfni þeirra og menntun, og starfa oft án teljandi aðhalds eða eftirlits.“

Hér virðist mér vera skotið langt yfir markið. Það er undarlegt að halda, að ef frv. þetta yrði að lögum og kennaraprófslausir kennarar fengju full réttindi eftir 10 ára þjónustu og reyndust svo vel í starfi, að skólanefnd staðarins vildi, að þeir yrðu skipaðir, námsstjórinn mælti með því og fræðslumálastjóri einnig, þá yrði það til þess, að inn í kennarastarfið hópuðust menn alveg óviðráðanlega og vönduðu sig svo við starfið til þess að fá áskilin meðmæli, að það yrði blessuðum börnunum hættulegt. Svona rök eru vægast sagt ekki frambærileg, en þau minna á það, sem ekki hefur verið fram tekið af okkur flm., að frv. hefur það auk annars til gildis, ef að lögum yrði, að það mundi ýta undir kennaraprófslausa kennara að standa vel í stöðum sinum til þess að standast hið langa 10 ára próf reynslunnar. Það er sannarlega ekki þýðingarlaust fyrir manndóm kennaranna sjálfra, en þó fyrst og fremst mikilsvert börnunum, sem þeir eiga að kenna.

Annað vil ég líka benda á, sem sýnir glögglega, með hvílíku óraunsæi og öfgum er af sumum lítið á þetta frv. Stjórn Sambands ísl. barnakennara segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðsókn að kennaraskólanum minnkaði enn,“ þ.e.a.s. ef frv. yrði að lögum, „og mætti svo fara, að hann legðist með öllu niður.“ — Hann legðist með öllu niður ! Takið eftir!

Þarna er því slegið fram, að ef frv. yrði að lögum, þá mundi vel geta svo farið, að kennaraskólinn legðist með öllu niður. Fyrr má nú rota, en dauðrota sjálfan sig, eins og hin hv. stjórn hinna virðulegu kennarasamtaka gerir. Tíu ára óvissuna, með dómi skólanefndar, námsstjóra og fræðslumálastjóra við lok þessa áfanga, kalla þessir menn „greiðan veg.” Hér er áreiðanlega sjónaukanum snúið öfugt.

Vitanlega eru það stéttarsjónarmiðin, sem hér ráða aðallega, réttindasjónarmið stéttar, sem hefur aflað þeirra með ákveðinni skólagöngu og skólaprófi. Það er líka sjónarmið, og ég viðurkenni það fúslega. Hins vegar er frv. byggt á því, að til sé sanngirnisréttur og þann rétt hafi þeir menn, sem lengi hafa leyst af hendi verk fyrir þjóðfélagið, sem því bar skylda til að láta vinna og stéttarréttindamenn ekki fengizt til að vinna. Jafnframt er áskilið, að þeir, sem um verkin hafa átt að dæma, skólanefndin, námsstjórinn og fræðslumálastjórinn, telji þau hafa verið svo vel af hendi leyst, að sá, er þau vann, verðskuldi að fá fullan rétt til að vinna þau áfram.

Það er eftirtektarvert, að í álitum andstæðinga frv. er forðazt að minnast á dómendur verkanna sem nokkurs virði í málinu, rétt eins og tímalengdin ein eigi úr að skera. Þannig búa þeir sér allir í hendur skotmark til að skjóta niður. Ég leyfi mér að vekja athygli á þessu.

Fræðslumálastjórinn bendir á, að svonefnd öldungadeild hafi tvisvar starfað við kennaraskólann, sinn veturinn í hvort sinn, 1933–34 og 1939–40, og hafi þeir, sem fengizt höfðu við kennslu án sérmenntunar til þess, fengið þar tækifæri til að ljúka kennaraprófi. Á þetta benti hv. frsm. líka. Víst hefur þetta verið spor í rétta átt. En hvers vegna hefur þetta fallið niður í nálega 20 ár og þó fjölgað hinum próflausu, sem orðið hafa að sinna störfum fyrir þjóðfélagið við kennslu?

Enn fremur talar fræðslumálastjórinn um að leyfa starfandi próflausum kennurum að ljúka prófi í áföngum. Stjórn barnakennarafélagsins víkur líka vinsamlega að þessari leið. Má vera, að þetta væri sumum ekki óhentugt, a.m.k. er dálítil tillitssemi í því. En hvers vegna hefur það ekki verið gert?

Það er þetta tómlæti þeirra, sem með kennslumálin fara, gagnvart hinum próflausu starfandi kennurum og fullnaðarréttindum þeirra, sem veldur því, að ég flyt þetta frv. Ég skal viðurkenna, að ég tel, að þótt frv. geri ráð fyrir fullum réttindum eftir 10 ára góða þjónustu, þá gætu líka verið til bóta staðbundin réttindi og sömuleiðis til bóta, að þeir, sem hlut eiga að máli nú, fengju réttindi, þó að það yrði ekki gildandi regla eftirleiðis. Þyrfti þá ekki að óttast, að sæti fylltust af hinum ólærðu, svo að hinir lærðu kæmust ekki að og þeir, sem hugsa sér að gerast kennarar, hættu við að fara í kennaraskólann.

Ég drep á þetta af því, að ég þykist sjá, að frv. muni ekki verða samþykkt í þessari deild, en þó vísað til áframhaldandi athugunar.

Þegar ég lít til þeirra mótmæla við frv., sem dunið hafa á hv. menntmn., finnst mér ástæða til að þakka henni fyrir það, hvað hún hefur þó eftir atvikum staðizt þau vel. Dagskrártill. hennar er þannig, að ég tel hana jákvæða. Hún er um, að stjórnskipuð nefnd, sem nú vinnur að endurskoðun skólalöggjafarinnar, athugi efni frv., og af því að hún segist bera traust til þessarar nefndar, vill hún, að yfir sé lýst, að deildin telji ekki rétt að samþykkja þetta frv.

Þetta er það, sem ég tel jákvætt, því að út úr orðalaginu má lesa: Ef endurskoðunarnefnd skólalöggjafarinnar hefði ekki verið starfandi nú og hv. menntmn, ekki treyst henni, þá hefði hún lagt til, að frv. yrði samþykkt. (Gripið fram í: Nei.) Þannig er hljóðan orðanna, hvernig sem hv. frsm. vill lesa þau, og þannig hljóta menn að lesa þau; þannig vona ég að endurskoðunarnefnd skólalöggjafarinnar lesi þau. Og að öllu þessu athuguðu, þá finnst mér alls ekki vonlaust um, að frv. nái tilgangi sínum að verulegu leyti, og þess vegna hugsa ég mér helzt að greiða atkvæði með dagskránni og þakka nefndinni í alvöru fyrir.