11.05.1959
Neðri deild: 124. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (1481)

164. mál, Siglufjarðarvegur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í því skyni að reyna að flýta fyrir því, að komið verði á varanlegu vegarsambandi milli Siglufjarðarkaupstaðar og annarra byggðarlaga. Það er eðlilegt, að slíkar till. komi fram, því að Siglfirðingar eru illa settir í þessu efni. Venjulegast er það svo, að þjóðvegurinn yfir Siglufjarðarskarð er aðeins fær um hásumarið og engir vegir á landi færir til Siglufjarðar á öðrum tímum árs. Það hefur verið ákveðið að leggja veg á öðrum stað, fyrir svo nefnda Stráka, og hefur undanfarið verið veitt nokkurt fé til þess nýja vegar. En þetta er kostnaðarsöm framkvæmd.

Frv. þessu fylgir bréf frá vegamálastjóra, þar sem gerð er ýtarleg grein fyrir þessu viðfangsefni, og þar er áætlun um kostnað við vegagerðina. Kemur þar fram, að kostnaðurinn við að ljúka þessu verki er áætlaður um 121/2 millj. kr. Aðalkostnaðurinn er við það að gera jarðgöng gegnum fjall, 900 metra löng, og áætlar vegamálastjóri, að það muni kosta 8.6 millj. Það gefur að skilja, að það viðfangsefni er þannig, að það þarf helzt að vinnast á sem skemmstum tíma. Og verður ekki séð, að það verði gert, áður en langt líður, öðruvísi en ef takast mætti að útvega lánsfé til framkvæmdanna, eins og stefnt er að með þessu frv.

Vegamálastjóri hefur í bréfi sínu sett upp áætlun um það, að þessari vegagerð yrði lokið á þremur árum. Fyrsta árið yrði vegur að Mánárskriðum undirbyggður, og er áætlað, að það kosti um 750 þús. kr. Má geta þess í þessu sambandi, að nú er í fjárlögum fjárveiting til þessa Strákavegar og Siglufjarðarvegar samtals, sem nemur nokkru hærri upphæð, en hér er um að ræða, og væri því hægt að vinna þetta verk skv. áætlun vegamálastjóra á þessu ári, án þess að til lántöku þyrfti að koma. Á öðru ári áætlar vegamálastjóri að haldið yrði áfram við vegagerðina og varið til þess einni milljón. Auk þess þyrfti þá að brúa nokkur gil, sem hann áætlar að kosti 750 þús. kr. Og á þriðja ári gerir hann síðan ráð fyrir að lokið yrði vegargerðinni og jarðgöngin fullgerð. Og þá er vitanlega þörf fyrir mikið fjármagn til þess að ljúka því verki.

Í frv. er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að taka lán allt að 12 millj. kr. til þessara framkvæmda. Og það er gert ráð fyrir því, að þetta fé verði endurgreitt smám saman af framlögum til þessara vega, þ.e.a.s. Siglufjarðarvegar ytri og Siglufjarðarvegar. Þá er gert ráð fyrir því, að Siglufjarðarkaupstaður og Skagafjarðarsýsla ásamt Sauðárkróki taki að sér að annast allar vaxtagreiðslur af þessu væntanlega láni.

Í 3. gr. frv. er svo ákvæði um, að til þess að standa undir vaxtagreiðslunum skuli heimilt að leggja gjald á allar bifreiðar og önnur vélknúin farartæki, sem fara um hin væntanlegu bílgöng í Strákafjalli, og verði gjöld þessi ákveðin með sérstakri gjaldskrá, sem viðkomandi aðilar setja, en ráðh. samgöngumála staðfesti. Það er sem sagt gert ráð fyrir því, að þessi gjöld af farartækjunum mæti vaxtagreiðslum af láninu, meðan það stendur.

Fjhn. fékk þetta frv. til athugunar, og hefur hún skilað áliti á þskj. 493. Eins og þar er bent á, er nú liðið að þinglokum og því ekki hægt að gera ráð fyrir því, að frv. gæti fengið fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi, þar sem það er hér í fyrri þd. Fjhn. fær ekki heldur séð, að það sé aðkallandi að setja löggjöf um þetta nú á þessu þingi. Eins og ég gat um áður, þá er ekki þörf fyrir neitt lánsfé í ár, þó að menn vildu hverfa að því ráði að haga framkvæmdinni á þann hátt, sem vegamálastjóri hér gerir áætlun um. En það er vitanlega þörf á því að undirbúa málið fyrir næsta reglulegt þing, og það yrði bezt gert með því, að leitað yrði að möguleikum til að fá lán til þessarar framkvæmdar, þegar á því þarf að halda, sem yrði þá, ef farið væri eftir áætlun vegamálastjóra, aðallega á árinu 1961. Í raun og veru er það, sem hér veltur á, hvort tekst að fá þetta lánsfé, og fjhn. lítur svo á, að það væri æskilegt, að hæstv. ríkisstj. tæki til athugunar hið fyrsta möguleika til að útvega lán í þessu skyni ásamt bæjarstjórunum á Siglufirði og Sauðárkróki og sýslunefnd Skagafjarðarsýslu, sem hér eiga hlut að máli. Þarna er um mikið hagsmunamál að ræða, ekki aðeins fyrir íbúa Siglufjarðarkaupstaðar, heldur einnig fleiri landsmenn og þá einkum íbúa þeirra byggðarlaga, sem næst liggja þessum kaupstað.

Í nál. leggur fjhn. einróma til, að frv. verði vísað til ríkisstj. í því trausti, að þannig verði unnið að málinu áfram, að athugaðir verði möguleikar til lánsútvegunar fyrir næsta reglulegt þing.

Ég skal að lokum geta þess, að áður en n. afgreiddi málið frá sér, hafði hún samráð við flm. frv., og lýstu þeir yfir, að þeir gætu fyrir sitt leyti samþ. þessa afgreiðslu á frv.