21.04.1959
Neðri deild: 113. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (1498)

149. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. nr. 27 5. marz 1951, um meðferð opinberra mála, fjallar um ákæruvaldið og meðferð þess, þannig að gert er ráð fyrir, að sérstakur embættismaður, saksóknari ríkisins, fari með vald þetta að verulegu leyti, í stað þess fyrirkomulags, sem nú er, að dómsmrh. fer með þetta vald.

Aldarfjórðungur er nú liðinn, frá því að máli þessu var fyrst hreyft hér á Alþ. Árið 1934 flutti núverandi hv. 6. þm. Reykv. (GTh), þáverandi hv. 11. landsk., frv. til l. um opinberan ákæranda, en það náði ekki fram að ganga. Síðan hefur málinu nokkrum sinnum verið hreyft á Alþ., en jafnan farið á sömu lund.

Í hinu upphaflega frv. til l. um meðferð opinberra mála, sem lagt var fyrir Alþ. 1948, var gert ráð fyrir, að ný skipan yrði upp tekin um meðferð ákæruvaldsins, þannig að það væri í aðalatriðum í höndum sérstaks embættismanns, saksóknara ríkisins. Ákvæði þessi voru síðar numin burt úr frv., þannig að enn í dag búum við við skipulag í þessum efnum, sem hægt er að færa gild rök fyrir að er óheppilegt og óæskilegt, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið.

Ákæruvaldið er réttur ríkisvaldsins til þess að kæra mann til refsingar fyrir afbrot, fyrirskipa sakadómsrannsókn og ákveða málshöfðun á hendur þeim, sem álita má að hafi gerzt sekur um refsiverðan verknað, enn fremur að kveða á um áfrýjun sakadómsmála. Hér er um að ræða þýðingarmikið vald, sem miklu máli skiptir að beitt sé réttlátlega og skynsamlega. Þó að dómstólarnir segi að sjálfsögðu síðasta orðið um sekt eða sýknu sakaðs manns, getur sakadómsrannsókn með málshöfðun, þó að hinn sakaði maður sé að lokum sýknaður, haft hinar alvarlegustu afleiðingar. Þá skiptir það einnig meginmáli, að ekki sé látið hjá líða að fyrirskipa rannsókn og höfðun sakadómsmáls, þar sem nægjanleg rök eru fyrir hendi til slíks. Dómsmálaráðherra fer nú með þetta vald, en því hefur oft verið haldið fram — með réttu eða röngu, — að þessu valdi hafi verið misbeitt af pólitískum hvötum. Hvað sem því líður, verður því engan veginn neitað, að almenningi sé skapað meira réttaröryggi um meðferð þessa valds, ef ópólitískur embættismaður fer með það, í stað þess, eins og nú er, að sá, er gegnir embætti dómsmálaráðherra langan tíma eða skamman, löglærður eða ekki, hafi með höndum meðferð þessa mikilvæga valds. Einnig eru meiri líkur fyrir fullnægjandi málsókn í opinberum málum fyrir hæstarétti, ef sami sérfróður maður, saksóknari, sem fylgzt hefur með málum frá upphafi, sækir mál þessi þar.

Þetta mál var rætt á fundi Lögfræðingafélags Íslands nú í vetur, og það er mikill áhugi um það hjá því félagi, og stjórn þess hefur látið frá sér fara áskorun um, að hafizt yrði handa um breytingar í þessum efnum.

Hingað til mun mál þetta jafnan hafa strandað hér á Alþ. á því, að kostnaður ríkissjóðs við breytinguna yrði of mikill. Vafalaust mundi af þessu verða nokkur kostnaðarauki. Hins vegar mun hann ekki verða svo mikill sem ýmsir munu ætla. Kemur þar hvort tveggja til, að starfsmenn, sem nú vinna að þessum málum í dómsmrn., mundu væntanlega verða starfsmenn saksóknara ríkisins og að saksóknari ríkisins mundi án sérstaks endurgjalds sækja öll opinber mál fyrir hæstarétti, og sparast þá greiðslur til sækjenda, sem nú eru inntar af hendi. Sakfelldir menn verða hér eftir sem hingað til dæmdir til að greiða kostnað af málsókn, og renna þær fjárhæðir þá í ríkissjóð. Miðað við undanfarin ár er hér um að ræða um 100 þús. kr. á ári.

Þegar máli þessu hefur verið hreyft hér á Alþ., hefur jafnan verið lögð á það áherzla, að saksóknari ríkisins yrði algerlega sjálfstæður og óháður handhafi ákæruvaldsins. Í því efni verður þó að athuga, að ekki verður komið á í formi venjulegra laga stofnun slíks nýs algerlega óháðs stjórnvalds. Slíkt mundi ekki vera í samræmi við þá skipun um skiptingu ríkisvalds, sem stjskr. byggir á, heldur mundi vera um að ræða stofnun nýs stjórnvalds, sem ekki yrði stofnað til nema með breyt. á stjskr.

Hjá sumum þjóðum, svo sem Finnum og Svíum, er saksóknari ríkisins óháður ráðherravaldi, en slíkt fyrirkomulag er ákveðið í stjskr. þeirra. Aftur á móti hafa Danir og Norðmenn ekki gengið jafnlangt í þessu efni. Þeir hafa eftir fyrirmyndum úr frönskum og þýzkum rétti sérstaka embættisstofnun, sem fer með ákæruvald, þar sem dómsmrh. er þó stjórnskipulega æðsti aðili. Með þessari skipan er vafalaust tryggð samræmdari og öruggari meðferð ákæruvalds, heldur en við eigum nú við að búa, og á það er bent í þessu sambandi, að nokkur hætta geti verið í því fólgin að hafa meðferð þessa mikilvæga valds í höndum eins manns án nokkurra takmarkana.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir stofnun nýs embættis saksóknara ríkisins, sem fer með ákæruvald í öllum myndum þess. Þó er gert ráð fyrir, að enn haldist í lögum ákæruvald héraðsdómara í ýmsum minni háttar málum og nokkur sérákvæði í 10. og 11. kafla almennra hegningarlaga um afskipti dómsmálaráðh. af tilteknum mikilvægum og viðkvæmum málum, er sum geta snert erlend ríki og eðlilegt þykir að hann einn hafi ákvörðunarvald um. Stjórnskipulega séð verður dómsmrh. þó enn æðsti handhafi ákæruvaldsins. En ætla má, að hér fari eins og annars staðar, að reynslan verði sú, að ráðh. skipti sér ekki af þessum málum, nema sérstaklega standi á, enda er það æskilegast. Til þess að tryggja enn betur, að ráðherra misnoti ekki ákæruvaldið, er í frv. ákvæði um, að hann þurfi að bera upp í ríkisráði almenn eða sérstök fyrirmæli, er hann kann að gefa saksóknara um framkvæmd starfa hans. Slíkar aðgerðir mundu þá teljast „mikilvægar stjórnarráðstafanir“ í skilningi 16. gr. stjskr., og fyrirmynd að slíku fyrirkomulagi er í norskum lagaákvæðum.

Ætlazt er til, að saksóknari njóti sömu lögkjara og dómendur hæstaréttar, að því leyti sem unnt er að ákveða slíkt með almennum lögum. Ákvæði 61. gr. stjskr. um aldurshámark hæstaréttardómara og ákvæði 2. málsgr. 34. gr. stjskr. um bann við kjörgengi þeirra munu þó ekki taka til saksóknara. Æskilegt væri hins vegar, að saksóknari væri ekki kjörgengur til Alþ., en slíku verður ekki við komið án breytinga á stjórnarskrárákvæðum.

Um efni frv. að öðru leyti vísa ég til þess sjálfs og grg. þeirrar, er ég hef látið fylgja því. Þó er rétt að geta þess, að í frv. er ekki gert ráð fyrir að breyta þeirri skipan, sem nú er, að framkvæmd refsinga er í höndum dómsmrn.

Þegar lög nr. 27 frá 1951, um meðferð opinberra mála, tóku gildi, leiddi af því mikla réttarbót á því sviði. Ég vildi mega vænta þess, að þetta frv. verði einnig skref í þá átt að tryggja réttlæti í meðferð sakamála.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.