18.11.1958
Efri deild: 22. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

46. mál, atvinnuleysistryggingar

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér er tjáð, að málið hafi verið tekið hér á dagskrá í gær. Um það var mér ekki kunnugt. Ég hef þá einu afsökun fyrir því, að mér berst hvorki í rn. tilkynning um dagskrá né á mitt heimili og síðan skólar byrjuðu, er víst mjög misbrestasamt, að blöðin komi sem morgunblöð á heimili víða í borginni.

Ég frétti það fyrst í morgun með því að snúa mér til skrifstofunnar, þegar ég var að spyrjast fyrir um, hvort málið væri á dagskrá í dag, að það hefði verið það í gær og væri því nú aftur til 1. umr. Ég bið hv. d. auðvitað afsökunar á því, að ég var hér ekki viðstaddur í gær, því að auðvitað hefði mér borið að fylgjast með því þrátt fyrir það, sem ég nú hef sagt.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta frv. Þar er um að ræða smávægilegar lagfæringar þriggja atriða eða raunar þó aðeins kveðið nánar á um tvö eða þrjú framkvæmdaatriði l. um atvinnuleysistryggingar.

Frv. er samið í fullu samráði við stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs og hefur stjórnin lýst sig samþykka þeim breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar, sem í frv. felast. Það ætti að tryggja, að hér séu aðeins sjálfsagðar breyt. á ferðinni eða breyt. til bóta að dómi þeirra manna, sem málinu eru kunnugastir og auk þess er það nokkur trygging, að í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðsins eiga sæti fulltrúar atvinnurekenda, verkalýðssamtaka og ríkisvaldsins, en þetta er tekið fram af því, að e.t.v. gætu breyt. á þessum l. verið viðkvæmari en breyt. á ýmsum öðrum l., af því að þessi lagasetning var á sínum tíma samkomulagsmál milli þessara þriggja aðila.

Breyt. á 1. gr. er aðeins sú, að inni í 5. gr. l. komi orðin „um næstu áramót“, og svo í framhaldi af því, að miða skuli ákvörðun iðgjalds við meðaltalsgrunnkaup Dagsbrúnarverkamanns í almennri dagvinnu á liðnu ári. Iðgjaldið skal síðan greiðast með vísitöluálagi samkvæmt meðalvísitölu þeirri, sem umrætt kaup hefur verið greitt eftir á árinu á undan. Í gildandi l. segir aðeins, að verði breyt. á grunnkaupi Dagsbrúnarverkamanns í almennri dagvinnu, skuli iðgjaldið breytast í samræmi við það. En nú hefur það gerzt á þessu ári, að grunnkaupið hefur hækkað tvisvar, þ.e.a.s. í júní um 5% og svo aftur 22. sept. um 9½%. Til þess nú að framkvæma l., eins og þau eru, þyrfti þá við álagningu iðgjalda á næsta ári að liggja fyrir uppgjöf á launagreiðslum atvinnurekenda í þrennu lagi: í fyrsta lagi fyrir tímabilið frá 1. jan. til 31. maí, í öðru lagi fyrir tímabilið frá 1. júní til 22. sept. og síðast frá 23. sept. til 31. des. Slík aðgreining verður, eins og menn sjá, að teljast nálega óframkvæmanleg fyrir atvinnurekendur og skattayfirvöld. Það er því einungis til þess að tryggja eðlilega framkvæmd, að þegar kaupbreytingar hafa átt sér stað, þá skuli iðgjaldabreyting verða við næstu áramót og ákvörðun iðgjaldsins þá miður við meðaltalsgrunnkaup ársins á undan að viðbættu vísitöluálagi meðalvísitölu þeirrar, sem kaupið var greitt eftir á árinu á undan. Útreikningur er sýndur á því í grg. frv., hvernig meðaltalsgrunnkaup skuli fundið. — Um þessa breyt. er sem sé fullt samkomulag í stjórn atvinnuleysistrygginganna.

Í 2. gr. frv. er svo lagt til, að við 18. gr. l. bætist svo hljóðandi málsgrein: „Nú breytist grunnkaup Dagsbrúnarverkamanns í almennri dagvinnu og er þá ráðh. heimilt, að fengnum till. stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs, að breyta upphæðum bóta samkvæmt lögum þessum í samræmi við það.“

Um þessa breyt. vil ég aðeins segja þetta: Það verður í alla staði að teljast eðlilegt, að hlutfall bóta og vinnulauna haldist óbreytt og þurfi ekki að raskast, þótt breyt. verði á vinnulaunum. En nú eru bæturnar ákveðnar í reglugerðum úthlutunarnefndanna í hinum einstöku verkalýðsfélögum, og þarf því, svo að hlutfallið haldist óbreytt, að breyta öllum þessum reglugerðum. Með þessu eina móti væri hægt að samræma bæturnar breyttum vinnulaunum, nema lagabreyt. komi til. Þetta er of þunglamalegt í framkvæmd og er því hér lagt til, að ráðh. veitist heimild, þó aðeins að fengnum till. stjórnar atvinnuleysistrygginganna, til þess að breyta bótunum í samræmi við breyt. á grunnkaupi Dagsbrúnarverkamanns í almennri dagvinnu.

3. gr. frv. er einungis um það, að fresturinn til endurskoðunar lögunum, sem settur er í 22. gr. gildandi l. um atvinnuleysistryggingar, skuli framlengjast um tvö ár, en í l. var ákveðið, að l. skyldi endurskoða að 2 árum liðnum. Stjórn atvinnuleysistrygginganna er sammála um, að enn sé tæpast fengin næg reynsla af l. um atvinnuleysistryggingar, til þess að heppilegt geti talizt eða nauðsynlegt að hefja nú gagngera endurskoðun á þeim.

Við höfum verið svo heppnir, að enn þá hefur sáralítið komið til þeirra framkvæmda að greiða bætur vegna atvinnuleysis og því nálega engin reynsla komin á þann þátt l., sem er meginhluti þeirra, sem um það snýst. Hér er því lagt til, að frestur til endurskoðunarinnar verði lengdur um tvö ár, þ.e.a.s. til ársins 1960.

Ég held, að með þessu, sem ég nú hef sagt, hafi ég gert grein fyrir efni þessa litla frv., eins og ástæða er til. En e.t.v. væri viðeigandi, að ég skýrði hv. d. í örfáum orðum aðeins frá nokkrum einstökum atriðum viðvíkjandi atvinnuleysistryggingunum.

Það er öllum kunnugt, að l. eru nú rúmlega 2½ árs gömul, voru sett á árinu 1956 og tekjur atvinnuleysistrygginganna eru, — það er að vísu ekki með nákvæmri tölu, — en eitthvað í kringum 44–45 millj. kr. á ári, og ættu því brúttótekjur þeirra gjaldfallnar nú að vera um 110, kannske 115 millj. kr. Þetta eru þó ekki alveg nákvæmlega tilgreindar tölur. En eitthvað hér um bil er þetta.

Eins og kunnugt er, greiðir ríkissjóður helminginn af framlaginu til trygginganna, 2% af greiddum vinnulaunum, en 1% kemur svo frá hvorum, atvinnurekendum og bæjarfélögum, á móti. Ríkissjóðsframlagið kemur auðvitað alveg reglubundið inn. Framlög atvinnurekendanna koma örugglega líka inn, en nokkru á eftir. En svo er bezt að segja það eins og það er, að nokkur vanskil hafa orðið á greiðslum frá sumum bæjarfélögunum. Reynt hefur þó verið af hendi atvinnuleysistryggingastjórnarinnar að örva skilvísi gagnvart tryggingunum með því að slá þeirri reglu fastri, að ekkert sveitarfélag geti átt rétt til lána úr atvinnuleysistryggingunum, þegar lánastarfsemi þar hefst að ráði, nema því aðeins að viðkomandi sveitarfélag sé skuldlaust við tryggingarnar. Mörg bæjarfélög hafa einmitt, síðan þessi regla var sett, kostað kapps um að koma sínum greiðslum í lag gagnvart þeim og eru það því tiltölulega fá, en þó nokkur meðal hinna stærri bæjarfélaga, sem standa í nokkrum vanskilum við tryggingarnar enn þá.

Það munu vera eitthvað nálægt því um 60 millj. kr., sem nú eru í handbæru fé hjá atvinnuleysistryggingasjóði og þykir nauðsynlegt, að sú upphæð hækki enn nokkuð, til þess að tryggingarnar séu við því búnar að taka við stærri áföllum, sem þær kynnu að verða fyrir af atvinnuskorti. Hefur verið talað um, að þessi stofnsjóður þurfi að komast upp í svona 80–100 millj. kr., svo að tryggingarnar væru nokkurn veginn öruggar að geta staðið við skuldbindingar sínar, ef til atvinnuleysis kæmi í hinum stærri kaupstöðum landsins.

Búið er að lána eitthvað á milli 20 og 30 millj. kr. samtals á tveimur síðustu árum til þess að treysta atvinnugrundvöllinn á nokkrum stöðum og þannig koma í veg fyrir skort á atvinnu. Það verður að teljast nokkuð jákvætt hlutverk trygginganna að verja sínum sjóðum einmitt til þess að gera ráðstafanir, sem fyrirbyggi, að atvinnuleysi skelli yfir.

Menn sjá, að þessar 60 millj. kr. að viðbættum 20–30 millj., sem lánaðar hafa verið, fylla þó ekki alveg töluna 110–115 millj., sem ég gaf upp að mundu vera gjaldfallnar til trygginganna. En það skýrist af því, að nokkrar greiðslur frá atvinnurekendum og frá bæjarfélögum koma allverulega eftir á.

Það er aftur skemmtilega hliðin á þessu máli, að bótagreiðslur hafa verið mjög litlar fram að þessu, aðeins á fáum stöðum og það fámennum stöðum, svo að upphæðirnar, sem greiddar hafa verið í bætur, hafa verið bæði fáar og smáar. Þetta hafa verið nokkrir staðir á Norðausturlandi, einstöku fámennir staðir í öðrum landshlutum, en engin skakkaföll, sem borið hefur að tryggingunum fram að þessu, — það er óhætt að segja, — og þær hafa því fengið hin ákjósanlegustu skilyrði fram að þessu til þess að vaxa sig sterkar, til þess að geta orðið því hlutverki vaxnar, sem þeim var ætlað.

Þetta eru að vísu upplýsingar um tryggingarnar utan við efni þessa frv., sem ég gerði grein fyrir í upphafi míns máls.