04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (1880)

39. mál, Atómvísindastofnun Norðurlanda

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Kjarnorkuvísindum fleygir fram um allan heim, bæði til góðs og ills. Fregnir berast af því, að stöðugt séu framleidd meiri og ægilegri kjarnorkuvopn, og til skamms tíma hafa verið gerðar með þau miklar tilraunir. Jafnframt fréttist, að kjarnorku til friðsamlegra nota fleygi einnig fram. Það er verið að framleiða minni og ódýrari kjarnorkuhreyfla, það er verið að nota kjarnorku til nýrra hluta í læknisfræði, hún veldur stórum breytingum innan landbúnaðar, og mætti svo lengi telja. Öll þessi þróun gengur í eina átt. Það kemur að því, áður en langt líður, að allt mannkynið, smæstu þjóðir jafnt sem þær stærri, hagnýtir sér kjarnorkuna á einn eða annan hátt.

Íslendingar verða að fylgjast með þessum málum, vita, hvað er að gerast, og geta áttað sig á því, hvenær að því kemur, að þeir geti tekið þátt í notkun kjarnorkunnar á einn eða annan hátt. Í sambandi við kjarnorku til hernaðarþarfa verðum við að geta mælt geislavirkni í lofti hér og vita þannig, hvort þær tilraunir og sprengingar, sem gerðar eru úti í löndum, hafa meiri eða minni áhrif á það loft, sem við hrærumst f, hvort þær valda á okkar landi vaxandi hættu á geislavirkni eða ekki. Það er lífsnauðsyn fyrir þjóðina að vita þessa hluti. Það er einnig lífsnauðsyn fyrir okkur að vita, hvað er að gerast í sambandi við friðsamlega hagnýtingu kjarnorkunnar. En þó að við séum stórtækir á ýmsum sviðum, mun okkur reynast erfitt að fylgjast með öllu slíku, bæði vestur í Bandaríkjum og austur í Sovétríkjum og allt þar sí, milli. Þess vegna er mjög hagstætt fyrir Íslendinga að geta orðið þátttakendur í samstarfi Norðurlandanna, sem miðar eingöngu að því að fylgjast með því, sem gerist í friðsamlegri notkun kjarnorkunnar, og gera á því sviði nokkrar tilraunir, sem viðráðanlegar eru fyrir smáþjóðir.

Ég hygg, að með slíku samstarfi getum við Íslendingar eignazt aðgang að þeim upplýsingum, sem hverju sinni liggja fyrir, getum fylgzt með því, sem er að gerast, getum fengið tækifæri til að þjálfa menn í notkun kjarnorkunnar í framtíðinni á þann hátt, sem okkur væri einum tæpast mögulegt. Þess vegna sýnist mér augljóst mál, að við Íslendingar eigum að taka þátt í því samstarfi, sem nú er að skapast með stofnun Atómvísindastofnunar Norðurlanda.

Á síðasta þingi var samþykkt, að Íslendingar skyldu taka þátt í þessu samstarfi, og er sú þátttaka á þeim grundvelli þegar hafin. Nú liggur fyrir með þáltill. að fullgilda af Íslands hálfu sáttmála um þessa stofnun, og hefur allshn. fjallað um þessa till. með þeim árangri, að hún mælir með því, að Alþ. samþykki till. og fullgildi þannig sáttmálann. Þessu fylgir nokkur kostnaður, en þó ekki mikill. Hann er þegar kominn inn á það fjárlagafrv., sem liggur fyrir þinginu, á 16. gr., 24 þús. kr. Þetta hygg ég að sé ekki mikill kostnaður, miðað við það, sem hugsanlegt er að hafa upp úr þessari stofnun, þótt ekki sé í öðru, en þjálfun á sérfræðingum. Við þennan kostnað mun að sjálfsögðu bætast einhver ferðakostnaður, en að öðru leyti hef ég ekki séð, að meiri kostnaður stafi af þessu, nema við verðum um það spurðir hverju sinni í sambandi við vaxandi starfsemi stofnunarinnar.

Allshn. leggur til, að þessi þáltill. um fullgildingu á sáttmála um stofnun Atómvísindastofnunar Norðurlanda verði samþykkt.