29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (1892)

14. mál, votheysverkun

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Það er nú ljóst af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, og ekki sízt af ræðu síðasta ræðumanns, að þau atriði, sem þáltill. fjallar um, eru í raun og veru að miklu leyti í gangi og hefur verið unnið að þeim og er enda enn, svo að, að því leyti sýnist þáltill. ekki hafa raunverulegt að segja. En þó er það eitt atriði í þessu, sem er enn þá órannsakað og er að mínu viti það atriði, sem till. hefði, þó að það sé ekki nefnt í till., í raun og veru átt að snúast um. Þegar rætt er um, hve æskilegt það er og nauðsynlegt, að bændur leggi meiri stund á súrheysverkun en nú er, er það, sem þar er í vegi, ekki kostnaðurinn og ekki heldur þau ýmsu atriði, sem frsm. taldi upp. Það er að langmestu leyti það, að bændur, sem þessa heyverkunarðferð nota og fóðra sauðfé sitt á votheyi, verða mjög margir fyrir stórkostlegum skakkaföllum. Þeir menn, sem árlega gera þetta og fóðra þannig allt sitt fé, eins og frsm. sagði, sem er alveg rétt, verða árlega fyrir skakkaföllum og hafa misst samkv. því, er hann hefur sjálfur sagt mér, jafnvel full 10% af fé sínu, eins og hann nefndi mér dæmi, þegar við ræddum þetta mál fyrir nokkru, svo sem ég veit að hann kannast við. Út af fyrir sig eru 10% ekki lítil afföll. En þegar það verður enn þá meira, menn missa kannske helminginn af fé sínu, eins og sumir hafa orðið fyrir, þá er eðlilegt, að bæði þessir menn og nágrannarnir, sem vita um þetta, kveinki sér. Þess vegna lít ég svo á, að frumskilyrði fyrir því, að við getum fengið votheysgerðina viðurkennda og bændur fáist almennt til að taka hana upp, sé, að breyting verði á þessu, því að það verðum við að játa, að bændur eru ekki seinir á sér að taka upp þær aðferðir, sem líklegar eru til að gefast vel, þvert á móti. En að votheysgerðin hefur átt svona erfitt uppdráttar, er ekki sízt og ég vil segja fyrst og fremst af þessum sökum, a.m.k. hvað sauðfé snertir. Og þess vegna vil ég leggja áherzlu á, að tilraunastöðinni á Keldum og öðrum, sem að þessu geta starfað, ekki aðeins tilraunabúunum, sem gera núna tilraunir með fóðrun á votheyi, heldur einmitt sérstaklega tilraunastöðinni á Keldum sé falið að leita að einhverjum ráðum til þess fyrirbyggja þetta. Ef það tækist á sama hátt og tilraunastöðin hefur fundið upp meðul til úrbóta á ýmsu, t.d. veiki eins og fjöruskjögri, sem var hreinasta plága á mörgum beitarjörðum við sjó, — ef hún fyndi upp slíkt meðal, þá er málinu borgið. Þá er allur þorri manna reiðubúinn til að taka upp verkunaraðferðina, en fyrr verður það tæplega.