29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (1893)

14. mál, votheysverkun

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Það gleður mig að finna það, að hv. 2. þm. Eyf. (MJ) er till. okkar flm. sammála og vill styðja hana um athugun á votheysverkun. Hann taldi þó, að hér væri í raun og veru um svipaða eða sömu till. að ræða og flutt var hér 1955 og þá var samþykkt hér af Alþ. En ég held, að þetta sé misskilningur að einhverju leyti hjá honum. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa hér þá till. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja fyrir verkfæranefnd og tilraunaráð búfjárræktar að afla upplýsinga um nýjar heyverkunaraðferðir hér á landi og erlendis og að koma því til leiðar í samráði við Búnaðarfélag Íslands, að gerðar verði tilraunir með þær nýjungar á þessu sviði, sem líklegastar þykja til þess að létta störfin við heyöflunina og tryggja gæði fóðursins. Búnaðarfélag Íslands lætur bændum í té hverju sinni, svo fljótt sem verða má, niðurstöður þær, sem rannsóknir þessar og tilraunir leiða í ljós og eru þess eðlis að dómi þess og fyrrnefndra aðila, að þær geti orðið bændum til hagsbóta.“

Þessi till. fjallar eingöngu um nýjar heyverkunaraðferðir. Till. sú, sem ég mælti hér fyrir áðan, er um ráðstafanir til að greiða fyrir votheysverkun og öðrum heyverkunaraðferðum, sem að gagni mega koma í óþurrkum. Þetta getur verið nokkuð óskylt mál, þó að hvort tveggja varði nú hið sama.

Við vitum það, sem eitthvað erum kunnugir landbúnaði, að votheysverkun getur tryggt menn algerlega gegn óþurrkunum. Það er reynsla fyrir því hér á landi, orðin allgömul reynsla fyrir því. En við vitum hins vegar, að ýmislegt í sambandi við votheysgerðina er enn þá á tilraunastigi, má segja, ekki fullkannað. Það er ekki fyllilega vitað, af hverju sauðfé drepst af votheyi, og það þarf enn fremur að koma í veg fyrir ýmsa vankanta á votheysverkuninni, t.d. ólyktina, sem fylgir votheyi víða hjá bændum. Það þarf enn fremur að rannsaka, hvernig hagkvæmast er að byggja votheysgeymslur þannig, að þær verði sem endingarbeztar og ódýrastar. Öll þessi atriði eru enn þá ekki fullrannsökuð.

Ég veit ekki um það, hvað þeir aðilar hafa rannsakað, sem hafa fengið þessa till. til meðferðar, sem ég var að lesa upp og samþykkt var hér 1955. Mér er ókunnugt um það. Ég var þá ekki hér á þingi og hef ekki kynnt mér þetta. Æskilegt væri, að sú n., sem fær nú þetta mál til meðferðar, liti eftir því um leið, hvað gerzt hefur í því máli. En fyrst og fremst er með þeirri till., sem við flytjum hér á þskj. 26, ætlazt til, að ríkisstj. skipi n. til þess að athuga ráðstafanir, sem greitt gætu fyrir votheysverkun sérstaklega og ýmsum rannsóknum í sambandi við hana.