26.11.1958
Sameinað þing: 11. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (1905)

29. mál, skipulagning hagrannsókna

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þótt hagrannsóknir í eiginlegri merkingu þess orðs séu enn á frumstigi hér á landi, hefur þó undanfarin ár verið varið talsverðu fé í þessu skyni, bæði frá hinu opinbera og einkaaðilum. Söfnun hagskýrslna á sér að vísu alllangan aldur hér á landi, en slíkt getur ekki talizt til hagrannsókna út af fyrir sig, þótt slík skýrslusöfnun sé auðvitað undirstaða þeirra. Hagstofa Íslands getur þannig ekki talizt hagrannsóknastofnun, þótt henni hafi stundum verið falin framkvæmd slíkra rannsókna.

En þótt skýrslusöfnun og hagrannsóknir séu þannig í rauninni sitt hvað, verður þetta tvennt þó í framkvæmd gjarnan svo samtvinnað, að vart er unnt að gera till. um annað þessara atriða án hliðsjónar af hinu, enda hafa flestar þær stofnanir hér á landi, er eitthvað sinna hagrannsóknum, einnig með höndum söfnun hagskýrslna.

Ég hef ekki gert tilraun til þess að áætla, hve miklu nemi kostnaður við hagskýrslugerð og hagrannsóknir á vegum opinberra aðila hér á landi, og því síður að greina sundur kostnaðinn við þetta tvennt, sem varla munu tök á. En fullyrða má, að kostnaður við þetta tvennt nemi aldrei undir 10 millj. kr. og sennilega meiru. Það getur því engan veginn talizt lítilfjörlegt fjárhagslegt atriði, að tryggt sé, að þeim fjármunum, sem varið er í þessu skyni, sé skynsamlega ráðstafað, þannig að sem mests árangurs megi af vænta.

Til þess að gefið sé nokkurt yfirlit yfir skipan þessara málefna, eins og hún er nú, skulu hér nefndar nokkrar hinar helztu opinberu stofnanir, sem hafa með höndum hagskýrslusöfnun og að einhverju leyti hagrannsóknir. Er það í fyrsta lagi Hagstofa Íslands, sem er, eins og kunnugt er, ríkisstofnun. Þá starfrækja þrír ríkisbankanna, Landsbankinn, Framkvæmdabankinn og Útvegshankinn, sína hagdeildina hver. Tilgangurinn með stofnun hagdeildar Framkvæmdabankans mun hafa verið sá, að hún annaðist einkum eiginleg hagrannsóknastörf. Hins vegar munu hagdeildir hinna bankanna að mestu vinna að hagskýrslugerð. En auk þess hafa Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands með höndum víðtæka skýrslusöfnun og að einhverju leyti hagrannsóknir, hvort í þágu síns atvinnuvegar, og mun Iðnaðarmálastofnun Íslands ætla að gegna sama hlutverki í þágu iðnaðarins. Reykjavíkurbær hefur einnig um alllangt skeið rekið hagstofu, svo sem kunnugt er.

Milli þeirra stofnana, sem nú hafa verið nefndar og aðallega hafa með höndum hagskýrslugerð, mun í meginatriðum hafa tekizt eðlileg verkaskipting, þannig að meiri háttar umbætur verða sennilega ekki gerðar í því efni. En þar sem hagskýrslugerð er hins vegar grundvöllur hagrannsókna, verður ekki hjá því komizt, ef skipuleggja á hagrannsóknir, að hafa hliðsjón af fyrirkomulagi hagskýrslugerðar og athuga, hverjar breyt. kynnu að vera æskilegar á því sviði, m.a. með tilliti til hagrannsókna, er æskilegt þykir að framkvæma. Yrði slíkt eitt af verkefnum n. þeirrar, er hér er lagt til að skipuð verði.

Aðalverkefnið yrði þá skipulagning sjálfra hagrannsóknanna og yrði það tvíþætt: Í fyrsta lagi að athuga, hvernig komið verði á hagkvæmari verkaskiptingu með þeim stofnunum, er þegar hafa slíka starfsemi með höndum, og í öðru lagi, hvernig bezt verði sinnt nýjum verkefnum á þessu sviði, er aðkallandi mega teljast. Það fé, sem hið opinbera hefur lagt fram til hagrannsókna á ýmsum sviðum, hefur líka að minnstu leyti runnið til þessara stofnana. Slíkar rannsóknir hafa að mestu verið framkvæmdar á vegum nefnda, sem skipaðar hafa verið til athugunar á sérstökum verkefnum af þessu tagi. Þótt sumar þessara n. hafi að vísu safnað ýmsum gagnlegum upplýsingum, fer því að mínu áliti fjarri, ef litið er á árangur slíkra nefndarstarfa í heild, að hann svari þeim verulega kostnaði, er slíkar rannsóknir hafa haft í för með sér fyrir hið opinbera. N. þessum hafa oft verið falin viðamikil verkefni á sviði efnahagsmála, án þess að nokkur fyrirhyggja væri um það, hvort nokkur grundvöllur væri fyrir því, að þessi verkefni væri hægt að leysa vegna skorts á möguleikum á því að afla þeirra upplýsinga, er til slíks væru nauðsynlegar. Árangur nefndastarfanna hefur því, þrátt fyrir það að í mikinn kostnað hefur verið lagt við nefndarstörfin, oft í meginatriðum orðið neikvæður. En auk þeirra hagrannsókna, sem þannig hafa farið fram á vegum nefnda, er ætlað hefur verið að leysa tiltekin verkefni á þessu sviði, hefur vaxandi áhugi á hagrannsóknum leitt til þess á síðustu árum, að myndazt hefur vísir til sérstakra stofnana, er ætlazt er til að annist slík störf, og hefur slíkt verið gert bæði á vegum hins opinbera og einkaaðila. Mjög hefur þó á það skort, að slíkt væri fyrir fram skipulagt, svo sem æskilegt er, ef árangur á að svara kostnaði. Ég ætla mér þó að láta nægja að nefna eitt dæmi máli mínu til sönnunar.

Þar sem kaupgjaldsmálin eru svo mikilvægur þáttur efnahagsmálanna sem raun er á, hefur vaknað áhugi á því, að framkvæmdar yrðu rannsóknir á því, hve hátt kaupgjald atvinnuvegirnir þyldu, án þess að hætta væri á því, að slíkt leiddi til verðbólgu. Í samræmi við þál., er samþ. var á hæstv. Alþ. 1955, var svo komið á fót samvinnunefnd atvinnurekenda og launþega, sem síðan hefur starfað og unnið mun hafa að rannsóknum á þessu sviði. Á síðasta sumri var svo komið á fót vísi að hagstofnun, er 4 launþegasamtök standa að og ætlað er að vinna að sama verkefni í meginatriðum. Þessi launþegasambönd eru Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Landssamband verzlunarmanna, bankamannasambandið og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Alþýðusamband Íslands var þó ekki aðili að þessum samtökum, en hefur stofnað til sams konar athugana upp á eigin spýtur. Hér virðast því þegar vera komnar á legg þrjár stofnanir eða vísir að þrem stofnunum, sem í rauninni vinna að sama verkefni á sviði hagrannsókna. En með því er þó ekki öll sagan sögð. Samkvæmt ályktun Alþ. snemma árs 1956 var skipuð n. til þess að undirbúa fræðslustarfsemi um efnahagsmál, og mun ekki vafi á því, að launamálin hafa verið ofarlega í huga þeirra, er að samþykkt þessarar þáltill. stóðu, hver sem niðurstaðan verður af starfi n. þeirrar, er skipuð var skv. till. Þá hafa fyrir síðustu þingum legið tvö frv. um fræðslustarfsemi fyrir launþega, annað um skólastofnun, en hitt um fræðslustofnun í annarri mynd. Hér virðast því auk þeirra þriggja stofnana, sem þegar eru komnar á fót til þess að sinna þessu verkefni, vera í uppsiglingu 2–3 stofnanir í viðbót, sem a.m.k. er ætlað að sinna mjög skyldu verkefni.

Ég er sízt að lasta þann áhuga, sem fram hefur komið fyrir því, að launamálin eru þannig rannsökuð og rædd á meira málefnalegum grundvelli, en því miður hefur verið gert til þessa. En af því, sem sagt hefur verið, ætti að vera ljóst, að allur undirbúningur slíks virðist í meira lagi fálmkenndur. Ætti það að vera öllum aðilum í hag, að verkefni það, sem hér er um að ræða, væri fengið í hendur einni stofnun, sem þeir aðilar, sem hér eiga hagsmuna að gæta, nefnilega launþegar, vinnuveitendur og ríki, kæmu sér saman um að standa að. Af slíku ætti í senn að mega vænta meiri jákvæðs árangurs og þó með minni tilkostnaði. Hér hefur aðeins verið nefnt sem dæmi undirbúningur hagrannsókna á þessu tiltekna sviði. En er ekki hætt við, að sama kunni að gerast á ýmsum öðrum sviðum, þar sem hagrannsókna er talin þörf, ef ekkert verður aðhafzt til þess að skipuleggja slíka starfsemi?

Ég hafði hugsað mér, að starf n. þeirrar, er hér um ræðir, ef skipuð yrði, yrði tvíþætt: Í fyrsta lagi að athuga, hvort ekki verði komið á hagkvæmri verkaskiptingu meðal þeirra stofnana, sem nú hafa hagrannsóknir með höndum, þannig að meiri árangur gæti á þann hátt orðið af því starfi án aukins tilkostnaðar. En í öðru lagi væri eðlilegt, að n. athugaði, með hverju móti væri bezt sinnt nýjum verkefnum á þessu sviði, sem æskilegt má telja að tekin yrðu til meðferðar.

Ég ætla mér ekki hér að flytja neinn áróður fyrir því, að aukin verði fjárframlög í þessu skyni, og ég dreg ekki neina dul á það álit mitt, að enda þótt hagrannsóknum sé skemmra komið áleiðis hér á landi, en æskilegt væri, þá eru mistök þau, er átt hafa sér stað í þessu efni, í ríkara mæli fólgin í því, hve lítill árangur hefur orðið af slíkum störfum, vegna þess að ráðizt hefur verið í verkefni, sem grundvöll hefur vantað fyrir að leyst yrðu, heldur en hinu, að ekki hafi nægilegu fé verið varið í þessu skyni.

Á hinn bóginn er það nú einu sinni svo, að efnahagsleg velmegun, bæði innan einstakra atvinnugreina og þjóðarbúskaparins í heild, er ekki einvörðungu háð tæknilegum atriðum, heldur líka hinum fjárhagslegu. Það er að vísu svo, að mannleg þekking á sviði tækninnar hefur þróazt örar, en samsvarandi þekking á sviði efnahagsmála. Af þessu hefur svo leitt það, að sá stakkur, sem skipan efnahagsmálanna hefur sniðið hinni tæknilegu þróun, hefur ekki svarað vexti, og er hin geigvænlega kreppa, sem reið yfir heiminn á árunum 1929–39, e.t.v. bezta sönnun þess. En fram til 1930 voru hagfræðivísindi varla tekin alvarlega, sem m.a. átti rót sína að rekja til þess, að þá var það útbreidd trúarjátning, að öll fjárhagsleg vandamál gætu leystst af sjálfu sér, þannig að enga þýðingu hefði að gera fyrir fram hugsaðar ráðstafanir til úrbóta.

En efnahagsöngþveiti kreppuáranna breytti viðhorfinu í þessu efni, og síðan hafa orðið mjög miklar framfarir á þessu sviði vísindanna, þó að þær séu almenningi ekki eins kunnar og samsvarandi framfarir t.d,. á sviði læknisfræðinnar. Þessum framförum má það m.a. þakka, að miklu betur tókst í flestum löndum að halda verðbólgu í skefjum á seinni heimsstyrjaldarárunum, heldur en á þeim fyrri, og það, sem ekki er minna um vert, að kreppa sú hin mikla, sem almennt var spáð með tilliti til fyrri reynslu að skella mundi á eftir styrjöldina síðari, er ókomin enn.

Svo að nefnd séu ákveðin dæmi um þá gagnsemi, sem hagrannsóknir gætu haft í för með sér, þá hygg ég t.d., að ekki sé ágreiningur um það, að kröftum sé illa varið til þess á vettvangi stjórnmálanna að deila um staðreyndir. En þannig er það oft og tíðum, að átökin snúast e.t.v. í ríkara mæli um það, hvað séu staðreyndir, heldur en sjálf stefnumálin. Allt frá því að Íslendingar öðluðust sjálfstæði, hefur, svo að dæmi sé nefnt, jafnvel árlega verið deilt um það, hvort halli hafi verið á fjárl. eða ekki. Ég man, að ég hef lesið það í gömlum skjölum, eitthvað 30 eða 40 ára gömlum, — það var eitthvað kringum 1920 eða 1922, — að þá hélt þáv. fjmrh. því fram, að það væri ekki neinn greiðsluhalli á fjárl., andstæðingar aftur á móti, að þessi halli næmi 11/2–2 millj. kr., sem ekki var lítil fjárhæð á þeim tíma. Nokkrum árum síðar bar það við, að um þetta atriði var deilt, og þá var það, sem þingmálafundur á Egilsstöðum, eins og frægt er orðið, skar úr þeim ágreiningi með því að samþykkja, að fjárl. hefðu verið án greiðsluhalla. Ég man eftir því meira að segja við fjármálaumr. síðast, að þá var ágreiningur um það, hvað greiðsluhalli á fjárl. hefði verið mikill á síðasta ári, án þess að ég geri það að nánara umtalsefni, sem hér er ekki vettvangur fyrir. En þó að þetta dæmi sé látið nægja, þá ætti það að gefa nokkuð til kynna um það, að æskilegt er að spara krafta, sem varið er til þess eins að deila um staðreyndir, og beita þeim að einhverju öðru. Og í því efni gæti það verið spor í rétta átt, ef hægt væri að koma á fót einhverjum dómstól í slíkum efnum, sem allir gætu treyst til að skera úr slíkum deiluatriðum um staðreyndir. Að vísu getur það oft verið þannig, að deilumálin séu þannig vaxin, að ekki sé hægt að úrskurða neina ákveðna niðurstöðu sem þá einu réttu, en þá getur líka verið gagnlegt, að það komi fram.

Frá hagsmunasjónarmiði atvinnuveganna má og á það benda, að afkoma bænda, iðnaðarmanna o.s.frv. er ekki eingöngu undir því komin, að notuð sé hin hagkvæmasta tækni, heldur líka undir skynsamlegri verðlagningu framleiðslunnar. Engin ástæða er til að ætla annað, en hagrannsóknir í þágu atvinnuveganna, framkvæmdar á skynsamlegan hátt, gætu komið að gagni í þessu efni á sama hátt og í nágrannalöndum okkar, þar sem miklu fé er varið í þessu skyni, bæði af hálfu hins opinbera og atvinnuveganna sjálfra. Á Norðurlöndunum hinum eru t.d. starfandi sérstök rannsóknaráð á sviði þjóðfélagsvísinda, sem gegna svipuðu hlutverki á því sviði og rannsóknaráð á sviði tæknivísinda. Hér á landi hefur, sem kunnugt er, fyrir löngu verið hafizt handa um skipulagningu rannsókna á sviði tæknivísinda, og er þó að því leyti minni ástæða til þess, að hvað snertir rannsóknir á hinu tæknilega sviði, þá eru verkefnin meira afmörkuð í eðli sínu, þannig að þar verður minni hætta á, að mismunandi aðilar, er slíkar rannsóknir kunna að hafa með höndum, gripi hver inn á annarra svið.

Ég býst ekki við öðru, en allir hv. þm. séu því sammála, að það verk, sem hér er um að ræða, verði að vinna. Hitt getur auðvitað verið álitamál, hvort tímabært sé að hefjast handa um það nú þegar eða því beri að fresta. Ég hef leitazt við að færa rök að því, að dráttur á slíku sé líklegur til að valda tjóni og sóun fjármuna, en auðvitað verður það hlutverk þeirrar hv. n., er mál þetta fær til meðferðar, og síðar hæstv. Alþ. í heild að meta gildi þeirra röksemda.

Um það má svo auðvitað deila, sem í þessu sambandi er meira aukaatriði, hvort n. eigi að vera skipuð á þann hátt, sem hér er lagt til. Ég hef talið eðlilegt að tryggja fyrst og fremst fulltrúum þeirra stofnana, sem hafa eða ætlað er að hafa hagrannsóknir með höndum, aðild að nefndinni. Um Hagstofu Íslands, Landsbankann og Framkvæmdabankann ætti ekki að þurfa að ræða nánar í því sambandi. En ástæðan til þess, að gert er hér ráð fyrir því, að laga og viðskiptadeild tilnefni einn nm., er sú, að eins og kunnugt er, hefur frá stofnun Háskóla Íslands verið til þess ætlazt, að hann væri ekki eingöngu embættismannaskóli, heldur einnig vísindastofnun. Á það því að sjálfsögðu við um viðskiptadeildina eins og aðrar deildir háskólans, að starfsmönnum hennar er ætlað að vinna að vísindalegum rannsóknum jafnframt kennslu. Annað mál er svo hitt, að ekki hefur verið unnt að sinna slíkum verkefnum svo sem æskilegt væri sökum skorts á fé og annarri aðstöðu til slíks. Víst er um það, að hvergi í okkar nágrannalöndum mun til sú hagfræði- eða viðskiptadeild við háskóla, að ekki sé starfrækt í sambandi við hana hagrannsóknadeild í einhverri mynd. Þess getur því ekki orðið langt að bíða, að slík stofnun komist á fót við háskólann, og bæri því að fella hana inn í það kerfi, er ætlazt er til að n. hafi forgöngu um að upp yrði byggt.

Ég hafði eiginlega hugsað mér að gera till. um það að vísa þessu máli til hv. allshn. En vera má þó, af því að gera má ráð fyrir einhverjum kostnaði við nefndarstörfin, að eðlilegra mundi vera að vísa málinu til fjvn. Ég legg það því undir úrskurð hæstv. forseta, hvort hann telur eðlilegra, þannig að geri hann till. um að vísa málinu til fjvn., þá mundi ég ekkert hafa við það að athuga, en annars hef ég lagt til að vísa því til háttv. allsherjarnefndar.