05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2017)

165. mál, útgáfa á blaðagreinum Jóns Sigurðssonar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Till. þessi er flutt af formönnum þingfl. öllum, og er hæstv. forsrh., Emil Jónsson, 1. flm., ég 2. flm., Eysteinn Jónsson 3. og Einar Olgeirsson 4. flm. Hæstv. forsrh. er fjarstaddur sökum lasleika, eins og kunnugt er, og leyfi ég mér því að segja örfá orð till. til stuðnings.

Eins og kunnugt er, verður okkar mikla þjóðhetja, Jón Sigurðsson, 150 ára nú eftir 2 ár, 1961, og hefur verið til athugunar, með hverjum hætti þessa merka afmælis yrði helzt minnzt með því að sýna verkum hans sérstakan sóma. Komið hafði til greina að gefa út öll hans ritverk, heildarútgáfu. Að athuguðu máli var frá því fallið, og skal ekki frekar gerð grein fyrir því. En nú hefur komið upp sú hugmynd að gefa út blaðagreinar Jóns Sigurðssonar og ekki einungis þær, sem hann ritaði í íslenzk blöð, heldur einnig þær, sem hann ritaði í erlend blöð. Er vitað, að almenningur hefur ekki neinn aðgang að þessum greinum, fáir að þeim, sem ritaðar voru í íslenzk blöð, og nær engir að þeim, sem hann ritaði erlendis, en þar ritaði hann mikið, bæði um íslenzk mál og raunar einnig um stjórnmál álfunnar í heild. Er enginn vafi á því, að það verður stórmikill vinningur að því, ekki aðeins varðandi sögu þessa mikla merkismanns, heldur sögu Íslands yfirleitt, og til betri skilnings á atburðanna rás á þessum tíma, ef þetta ritverk verður gefið út, þannig að Íslendingar geti kynnzt þessari hlið á verkum ofurmennisins Jóns Sigurðssonar betur, en menn almennt hafa getað hingað til.

Ætlunin samkv. þessari till. er sú, að Alþ. feli ríkisstj. að leita samninga við menntamálaráð Íslands um, að bókaútgáfa menningarsjóðs standi fyrir útgáfunni gegn ríkisstyrk, er nemi 100 þús. kr. á ári í 3 ár, og hagnaður, sem verða kann af útgáfu þessari, renni óskiptur í sjóðinn Gjöf Jóns Sigurðssonar. Ég hygg, að það sé þegar víst, að menntamálaráð og bókaútgáfa menningarsjóðs muni taka að sér þessa útgáfu, ef samþykki á þessari till. fæst, og vonast ég til þess, að svo verði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Ég leyfi mér að mæla með, að till. verði vísað til 2. umr. og fjvn., sem af formlegum ástæðum er rétt að um málið fjalli.