19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (2252)

18. mál, smíði 15 togara

Ásgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú svarað flestum þeim spurningum, sem ég lagði fyrir hann sérstaklega, og ég vil þakka fyrir svörin.

Hann upplýsir það, að n. sé enn þá starfandi. Það þykir mér vænt um að heyra, því að þá gæti hún skipt um skoðun, eftir að hún hefði komizt að raun um, að þarna væri nýtt atriði, sem bæri að taka til athugunar, því þegar ákvörðunin var tekin um þessa gerð skipa, munu þessir skuttogarar hafa verið lítt þekktir eða lítt verið komin reynsla á þá. En það er einmitt það, sem ég vil undirstrika, að það er íslenzkur maður búinn að vera á einum þessara brezku skuttogara, og félag það, sem hann hefur siglt hjá, er nú að láta smíða tvo í viðbót, og það er félag, sem hefur langa reynslu í smíði skipa með opinn skut, sem sé hvalveiðiskipanna, Salvesensfélagið í Leith og Glasgow, og þeir mundu ekki fara að smíða fleiri slíka nýja togara, ef ekki væri góð reynsla af því.

Ég vil leyfa mér að undirstrika það og benda á það alveg sérstaklega, að það væri æskilegt, jafnvel þótt ekki væru smíðaðir skuttogarar, að byggt væri yfir sum skipin alveg á þilfarinu, þannig að mennirnir gætu unnið þar að sínum verkum án þess að standa á bersvæði fyrir veðri og vindi, því að ég hef sjálfur verið á botnvörpungum, þegar ég var ungur piltur, og ég hef séð fingurna fara af mönnum við það að vera að krafsa inn netið með fingrunum og krókum. En það kæmi ekki til greina t.d. á skuttogurunum, og þeir mundu ekki vera eins loppnir eða þeim eins kalt, ef hægt væri að taka netin inn undir þiljum, eins og gert er ráð fyrir að gert sé á þessum skuttogurum.

Að öðru leyti vil ég ekki fara neitt í meting um það, hversu merkir þeir menn eru, sem í þessari n. eru. Þeir eru ágætir og hafa rækt sín störf vel á sjónum. En það er nú einu sinni svo, að þegar menn eiga að fara að dæma um eitthvað, sem er nýtt, sem þeir hafa ekki mikla reynslu fyrir, þá eru margir hræddir við það. Ég minnist þess, þegar var verið að smíða nýsköpunartogarana, að þá voru menn mjög hræddir við að hafa ekki gufuvindur á þeim, sem menn eru að hverfa sem óðast frá nú að hafa á nokkrum togara eða nokkru skipi, og taka upp rafmagnsvindur í staðinn.

Þannig mætti benda á ýmislegt, sem reynslan leiðir í ljós að er hagkvæmt og sjálfsagt, þótt menn séu hræddir við það í upphafi.

Ég vil svo enn þakka fyrir það, að áhugi er fyrir því, að þetta fiskileitarskip verði smíðað, í hverju formi sem það verður. Hvort það verður einn af þessum 15 eða sérstakt skip, það skiptir ekki máli. Það, sem máli skiptir í þessu efni, er það, að skipið verði smíðað.