28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, sem hér var að ljúka máli sínu, vék að því, að þm. Alþb. hefðu nýlega lagt hér fram þáltill. á Alþ. um það, að staðið yrði við samþykkt Alþ. frá 28. marz 1956 um brottför hersins úr landinu. Þessi hv. þm. viðhafði þau orð í þessu efni, að við ráðherrar Alþb. hefðum þó ekki minnzt á þetta mál í ríkisstj. þann tíma, sem við sátum þar. Þetta segir þessi hv. þm. sýnilega gegn betri vitund, vegna þess að einmitt í því þskj., sem hann vitnar í, er gerð glögg grein fyrir því, að við höfðum margsinnis tekið málið upp við samstarfsflokka okkar í ríkisstj. og gengið eftir efndum í málinu. Það hafa farið mörg bréf á milli flokkanna. Þetta hefur þessi hv. þm. án efa séð, fyrst hann þekkti þskj., en hann hirti ekki um að skýra þar rétt frá.

Það er svo önnur saga, að flokkur þessa hv. þm. og hann bera öðrum meiri ábyrgð á því, að við sitjum enn þá uppi með herinn í landinu.

Þessi hv. þm. spurði um, hvernig á því stæði, að við ráðherrar Alþb. hefðum ekki beitt okkur fyrir því þann tíma, sem við vorum í ríkisstj., að tekið yrði nokkuð af gróða olíufélaganna og af gróða verzlunarinnar í landinu. Þetta var vissulega gert. Það var gert í það ríkum mæli árið 1957, að blöð Sjálfstfl. kvörtuðu dag eftir dag yfir því, að of hart væri gengið að þessum félögum. Þau kvörtuðu dag eftir dag undan því, að það ætti sýnilega að leggja verzlunina að velli í landinu. Hins vegar var það svo, að við höfðum gert fulla grein fyrir því, að það var hægt að taka meira af þessum auðfélögum en gert var og þau hafa unnið verulega á nú upp á síðkastið með því að fá sín kjör enn þá bætt.

Þessi hv. þm. gerði hér mikið úr því, sem fyrrv. ríkisstj. hefði lofað og ekki staðið við. Í þeim efnum minntist hann á það, að hún hefði lofað að breyta löggjöfinni um afurðasöluna. Það er furðulegt, að þessi hv. þm. skuli leyfa sér að minnast á þetta mál á þá lund, svo sem hans flokkur skildi við afurðasölumál landsins, þegar svo stóð, að það varð að setja reglur um það að banna framleiðendum í landinu að frysta fisk, vegna þess að ráðherra Sjálfstfl. hafði ekki dug í sér til þess að geta selt hann. Eftir að hið nýja skipulag var tekið upp, hefur slíkt aldrei komið fyrir.

Þessi hv. þm. minntist á það, að lofað hefði verið nýjum fiskiskipum og við það hefði ekki verið staðið. Reynslan sýnir þó, að í tíð fyrrv. ríkisstj. var fiskiskipastóll landsmanna stórlega aukinn, en á þeim tíma, sem Sjálfstfl. fór með stjórn landsins, rýrnaði fiskiskipafloti landsmanna ár frá ári. (JóhH: Ég talaði um togara.) Það hefur ekki tekizt að kaupa hina nýju togara til landsins, sem ráðgert var að kaupa. Það er rétt. Það hefur ekki staðið á okkur Alþb.-mönnum. Þar hafa pólitískir fordómar ráðið, að lán voru ekki tekin á þeim stað til kaupanna, þar sem hægt var að fá lánin. — En í þessum efnum væri kannske fróðlegt að minnast nokkuð á loforð íhaldsins. Hverju er íhaldið að lofa landsmönnum núna þessa dagana? Það er að lofa verðlækkun. Hvernig skyldi íhaldið ætla að framkvæma þessa verðlækkun? Hefur ekki bæjarstjórnaríhaldið í Reykjavík lofað Reykvíkingum því að hækka útsvörin um 35 millj. kr. á næsta ári eða um 15%? Skyldi nokkur trúa því, að útsvörin í Reykjavík muni lækka á þessu ári? Hefur ekki bæjarstjórnaríhaldið í Reykjavík þegar tilkynnt mönnum stórkostlegar hækkanir á margs konar bæjargjöldum? Vatnsskattur á að hækka um 100%, fasteignaskattur á að stórhækka, lóðarskatturinn á að þrefaldast, húsaskatturinn á að hækka til mikilla muna, daggjöld á barnaheimilum á að hækka, sundlaugagjöld eiga að hækka o. s. frv. Þannig efnir Sjálfstfl. loforð sín um verðlækkanir.

Eitt af því, sem Sjálfstfl. hefur sérstaklega talið sér til gildis og lofað öllum landsmönnum, er það að vernda persónufrelsið í landinu, vernda einstaklingsfrelsið. Hvernig stendur Sjálfstfl. við þetta loforð sitt nú gagnvart launamönnum í landinu, þeim sem hafa gert samkv. réttum lögum samninga um kaup sín og kjör? Nú kemur Sjálfstfl. og sviptir þessa menn alla samningaréttinum, ógildir þá samninga, sem atvinnurekendur hafa undirskrifað með sinni hendi, en ætlar að halda launþegum bundnum við þessa samninga þann tíma, sem samningarnir áttu að standa, þó að búið sé að breyta gildi þeirra. Þannig er það, sem Sjálfstfl. stendur við loforð sín.

Hæstv. menntmrh. minntist á það hér í umr., að till. Alþb. í efnahagsmálunum væru óraunhæfar. Það, sem hann færði sérstaklega fram, var það, að Alþb. hefði lagt til, að vísitalan yrði greidd niður um 15 stig, en ekki bent á fé til þess að standa undir þessum niðurgreiðslum.

En hvað hefur Alþfl. gert nú, þá daga sem hann hefur setið í ríkisstj.? Hann hefur greitt niður verðlagið um 13 stig og segist ætla að gera það í ríkara mæli. Ætli þetta verði ekki talin nokkuð léttvæg rök hjá hæstv. menntmrh.?

Það eina, sem Alþfl. hefur fengið fram af sínum till. og fær samþ. hér á Alþ. í efnahagsmálatill. sínum, er kauplækkunarákvæðið. Ekkert annað fær flokkurinn samþ. Hann hefur fengið neitun frá Sjálfstfl. um það, að sparað verði í ríkisrekstrinum. Hann hefur fengið neitun hjá Sjálfstfl, um það, að tekið verði nokkuð af tekjuafganginum. Hann fær aðeins eitt samþ. hér, það er kauplækkun. Um það atriði gat aldrei tekizt neitt samkomulag við okkur Alþb.-menn. Við léðum aldrei máls á því, að efnahagsmálin yrðu einhliða leyst á kostnað launastéttanna í landinu.

1. þm. S-M. vék hér nokkuð að till. okkar Alþb.-manna um sparnað í ríkisrekstrinum. Hann bregzt sjaldan reiðari við, en ef till. koma fram um sparnað hjá ríkinu og afsökunin er alltaf hin sama. Hann getur ekki ímyndað sér neinn sparnað hjá ríkinu, án þess að slíkt verði látið bitna á íbúunum úti á landi, rétt eins og öll útgjöld ríkissjóðs gangi til fólksins úti á landi. Hann ætti að athuga sín fjárlög betur, þá mundi hann sennilega komast að raun um það, að yfirgnæfandi meiri hluti útgjaldanna gengur hér til stofnana og manna og aðila í Reykjavík og nágrenni.

Vissulega er hægt að spara í ríkisútgjöldunum. Vissulega er hægt að spara þar stórar fjárfúlgur í sambandi við óþarfa útgjöld. Við Alþb.-menn höfum bent á, að það er vitanlega engin þörf á því að eyða til lögreglukostnaðar á Keflavíkurflugvelli 3.7 millj. kr. á hverju ári. Það er engin þörf á því að hafa 3 sendiráð á Norðurlöndum. Það er engin þörf á því að hafa 2 sendiráð — mjög kostnaðarsöm — í einni borg, í París og það er hægt að telja upp fjölmarga útgjaldaliði á fjárl. og hefur verið gert æ ofan í æ, sem hægt væri að spara, en þessi hv. fyrrv. ráðh. hefur alltaf staðið gegn.

Það er eðlilegt, þegar efnahagsmálin eru rædd, að það spyrji margir um það nú: Hvernig stendur á því, að einmitt nú þurfti krafan um kauplækkun að koma fram? Nú er hagur ríkissjóðs þó góður og hið sama er að segja um hag útflutningssjóðs, sem staðið hefur í skilum með allar sínar skuldbindingar. Rekstrarafkoma atvinnuveganna var góð á s. l. ári. Gjaldeyrisstaðan fór batnandi og birgðir útflutningsvöru, sem öll er þó seld, hafa safnazt í landinu. Það er annað, en var á árinu 1956, þegar íhalds- og framsóknarstjórnin var að hrökklast frá völdum. Annað aðalmálgagn þeirrar ríkisstj., Tíminn, hefur fyrir nokkru lýst á skilmerkilegan hátt, hvernig ástandið var, þegar sú stjórn fór frá. Lýsing Tímans er orðrétt þannig:

„Undirbygging atvinnulífsins var öll í ólestri. Fiskiskipastóllinn gekk saman ár frá ári undir stjórn sjútvmrh. íhaldsins. Langvarandi og tíðar vinnutruflanir riðu yfir hver af annarri. Stöðvanir fiskiskipaflotans hjuggu skörð í þjóðartekjurnar, svo að hundruðum millj. kr. nam á hverju ári. Fiskvinnslustöðvar stóðu aðgerðarlausar. Fólkið flutti í stríðum straumum utan af landsbyggðinni og til Faxaflóasvæðisins. Í kauptúnum og sjávarþorpum úti um land grúfði atvinnuleysið yfir eins og viðvarandi sjúkdómur: Allir, sem við gátu komið, hurfu að mannskemmandi setuliðsvinnu suður á Reykjanesskaga: Allt var í vitleysu með markaðsmálin. Þau frystihús, sem einhvern fisk fengu, voru við lokun, því að fiskurinn seldist ekki. Allir sjóðir atvinnuveganna voru tómir. Engin lán fengust til stærri framkvæmda. Bröskurum og fjárplógsmönnum leið vel og íhaldið sá ekkert nema sólskin.“

Þannig var ástandið að sögn Framsóknar, sem þó var beinn aðili að því stjórnarsamstarfi, sem þannig skildi við árið 1956.

En á þessu öllu hefur orðið stórkostleg breyting í tíð vinstri stjórnarinnar. Þátttakan í útgerð og framleiðslu hefur stóraukizt. Þannig stunduðu á fyrsta ári vinstri stjórnarinnar 20% fleiri bátar vetrarvertíð, en árið áður og 25% fleiri sumarsíldveiðar. Þessi aukna þátttaka í útgerð átti sér stað án þess, að nokkur teljandi aukning væri orðin í fiskiskipaflota landsmanna.

Árið, sem var að líða, var mesta framleiðsluár í sögu landsmanna. Ársaflinn mun vera rúmum 200 millj. meiri að verðmæti, en árið áður og þó hefur aflinn á hvern einstakan bát og í hverjum einstökum róðri ekki verið meiri á s. l. ári, en oft áður. Árið 1958 voru hraðfryst um 75 þús. tonn af fiskflökum, en áður hafði ársframleiðslan aldrei farið yfir 55 þús. tonn. Kjör sjómanna hafa verið bætt frá ári til árs og er nú aftur að nást jafnvægi og nægilega margir íslenzkir sjómenn á fiskibátaflotann. Áður flúði sjómannastéttin í land, svo að til stórvandræða horfði. Nú hafa samningar tekizt við framleiðsluna í tæka tíð og engar framleiðslustöðvanir orðið. Markaðsmálin hafa verið tekin nýjum tökum, samið til nokkurra ára í senn og megnið af framleiðslunni selt fyrir fram. Tekin hefur verið upp skipuleg leit fiskimiða með góðum árangri. Fiskiskipastóllinn hefur verið stóraukinn og lagður grundvöllur að enn þá meiri aukningu hans. Og það, sem þó skiptir mestu máli er, að landhelgin hefur verið stækkuð í 12 mílur og með því er enn lagður grundvöllur að aukinni framleiðslu og bættri afkomu sjávarútvegsins.

Þannig hefur tímabili siðspillandi hernámsvinnu verið snúið í stóraukna framleiðslu. Þannig hefur tíma viðvarandi atvinnuleysis úti á landi verið snúið í meiri atvinnu og betri lífsafkomu, en nokkru sinni áður hefur þekkzt þar. Þannig var örugglega stefnt út úr öngþveiti efnahagsmálanna til hinnar einu varanlegu lausnar á efnahagsvandamálum þjóðarinnar, sem er aukin framleiðsla.

Sú krafa Framsfl. að krefjast einmitt nú kauplækkunar, þegar slíkir stórsigrar höfðu unnizt í efnahags- og framfaramálum þjóðarinnar, er ekki auðskilin. En forustumenn Framsóknar verða að svara til saka. Þeir verða að gefa fullnægjandi skýringu á því, hvers vegna þeir gerðu þá kórvillu að rjúfa stjórnarsamstarfið og krefjast skilyrðislaust kauplækkunar undir þessum kringumstæðum?

Það er þýðingarlaust með öllu að skrökva upp skýringum og segja, að Einar Olgeirsson hafi alltaf viljað sprengja stjórnarsamstarfið. Slíkt er hreinn tilbúningur.

Alþb. hefur lagt á það höfuðáherzlu, að eina varanlega lausnin á vandamálum efnahagslífsins er aukin framleiðsla. Möguleikar til aukinnar framleiðslu eru stórkostlegir hjá okkur. Með skipulegri leit að nýjum fiskimiðum eigum við eftir að finna nýjar fiskislóðir og ausa úr þeim ógrynni verðmæta. Með nýjum veiðiaðferðum munum við stórauka það síldarmagn, sem veitt er árlega. Við vitum, að innan 12 mílna landhelginnar eigum við nær ósnert mikil auðæfi í þeim fisktegundum, sem dýrastar eru og veiddar eru hér við land. Við vitum, að við getum tvöfaldað útflutningsverðmæti síldarafurðanna með því að fullvinna þá vöru í landinu í stað þess að flytja meginið út sem hálfunna vöru.

Hið sama er að segja um saltfiskinn, sem er enn að mestu fluttur út hálfunninn.

Þannig eru möguleikar okkar til aukinnar framleiðslu til öflunar meiri þjóðartekna stórkostlegir. Ráðstafanir í efnahagsmálunum þurfa því allar að miða að því marki, að þessir möguleikar megi nýtast. Deilur ríkisvaldsins við vinnustéttirnar í landinu leiða jafnan af sér framleiðslustöðvanir og minnkun þjóðartekna.

Kauplækkunarleiðin nú er því röng og hlýtur að leiða af sér minnkandi þjóðartekjur. Sú stefna stefnir í þveröfuga átt við þá uppbyggingar- og framfarastefnu, sem verið hefur nú um skeið. Sú hrunstefna íhalds og Framsóknar, sem beið skipbrot á árinu 1956 og einkennzt hafði af framleiðslustöðvunum, illa nýttum framleiðslutækjum, hrörnun fiskiskipaflotans, atvinnuleysi úti um land, markaðsvandræðum, flótta sjómanna af fiskiflotanum, af hernámsvinnu í stað framleiðslustarfa, hún hefði haldið áfram að afloknum kosningum 1956 með tilheyrandi kauplækkunum og árásum á kjör almennings, ef Alþb. hefði ekki þá unnið sinn kosningasigur og sannfært menn um, að heilladrýgra mundi vera að hafa samráð og samstarf við verkalýð landsins um stjórn þjóðarbúsins, en ætla að leggjast í nýjan hernað gegn vinnandi fólki í landinu.

Nú skýtur hrunstefnan aftur upp kollinum. Nú á aftur að reyna fyrir sér með kauplækkunarárás. Þessu þarf fólkið í landinu að svara á eftirminnilegan hátt. Svarið, sem dugir, þekkja allir. Það er aðeins eitt: Að efla Alþb. í komandi kosningum enn meira en áður. — Góða nótt.