04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (2284)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þær fsp., sem ég hef lagt fram á þskj. 283 undir 1. lið, eru fram komnar vegna þess, að allmargir bændur og bændastofnanir hafa nú þegar pantað hjá hlutaðeigandi innflytjendum ýmiss konar vélar og tæki, sem nauðsynlegt er að komi til notkunar fyrir næsta vor, áður en hefst bjargræðistími þeirra, er í sveitunum búa. En ýmsar raddir hafa verið uppi um það, hversu mikill þessi innflutningur mundi verða, og til að fyrirbyggja allan misskilning í þessum efnum og fá greinagóð svör, sem hægt er að treysta, hef ég leyft mér að spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvað hún ætli að beita sér fyrir miklum innflutningi á þessu ári, í fyrsta lagi á hjóladráttarvélum og jarðyrkjutækjum, í öðru lagi heyvinnutækjum og í þriðja lagi beltadráttarvélum, og vænti ég þess, að hæstv. ríkisstj. gefi greinagóð svör við framangreindum fyrirspurnum.