04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2299)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því áðan, þegar hv. 2. þm. S-M. var að tala hér, að hann var í miklum vafa um það, hvað væru hátollavörur, og mig undrar það ekki. Hann sagði, að það væru margar nauðsynjavörur hátollaðar, því væri ekki að neita. Og þetta er alveg rétt hjá hv. þm., að menn eru í vafa um það, hvað eru hátollavörur og hvað eru ekki hátollavörur. Á ekki að kalla hátollavörur þær brýnustu nauðsynjar, sem verður að borga af 60–80% ? Og hverjar eru þær vörur, sem ekki eru hátollaðar? Er það annað en kaffi, sykur og kornvörur? Og ég verð nú að segja það, að það varð talsverð stefnubreyting í tíð fyrrv. ríkisstj. frá því, sem hafði verið áður, en hún tók við. Þá var stefnan sú að tolla lítið þær vörur, sem fátækur almenningur gat ekkí neitað sér um, tolla aftur hærra þær vörur, sem hægt var að komast af án, en hinir efnaðri vildu veita sér.

Þegar stjórn hinna vinnandi stétta kom til valda, var sú stefnubreyting uppi að tolla allar nauðsynjar það hátt, að jafnvel þeir, sem ekki gátu án varanna verið og ekki höfðu kaupgetu fyrir hendi, voru sligaðir að þessu leyti. Og þetta var öllum augljóst, þegar 55% yfirfærslugjaldið var lagt á s.l. ár á brýnustu nauðsynjar, sem ekki var hægt að vera án.

Um skuldasöfnunina er það að segja, sem augljóst er líka, að fyrrv. hæstv. ríkisstj. er fræg fyrir skuldasöfnun. Hver var að tala um það, að ekki sé eðlilegt að taka erlend lán til þess að virkja Sogið, til þess að ráðast í framkvæmdir, sem gefa af sér gjaldeyri og ekki er hægt að vera án? En ég vil nú spyrja hv. 2. þm. S-M. og hv. 1. þm. S-M. einnig, því að báðir eru þeir (EystJ: Fæ ég þá tíma til að svara?) kunnugir þessum málum. (Gripið fram í.) Það er á valdi hæstv. forseta. Ég geri ráð fyrir, að hann sé það sanngjarn, að hann leyfi hv. þm. að tala. En ég vil segja það, og tækifærið kemur þá seinna, til þess að svara: Voru allar þær erlendu lántökur, sem teknar voru í tíð fyrrv. ríkisstj., notaðar til þess að byggja hér upp atvinnulífið? Fór ekki allt of mikill hluti til þess að borga venjulegan innflutning, sem áður hafði verið greiddur með framleiðslu þjóðarbúsins? Fór ekki verulegur hluti til þess að greiða ríkissjóði tolla, til þess að hv. 1. þm. S-M, gæti sýnt sæmilega afkomu ríkissjóðsins um áramótin? Það eru þessar lántökur erlendis, sem ekki er leyfilegt að taka. Og það er þannig, sem ekki má búa að þjóðarbúskap Íslendinga, ef þessi þjóð á að verða efnalega og pólitískt sjálfstæð.

Það tekur því ekki — enda er tími minn búinn — að svara fullyrðingum hv. 1. þm. S-M. hér áðan um það, að nú væri stefnan sú að draga úr innflutningi landbúnaðarvéla, þannig að það yrði skortur á þeim. Stefnan er sú að flytja nú inn landbúnaðarvélar fyrir 26-27 millj. kr. á þessu ári í staðinn fyrir rúmlega 23 millj. á s.l. ári. Ég þarf ekki að endurtaka þær tölur, sem hér voru lesnar upp áðan; en þar sem þessi yfirlýsing er um, að það skuli ekki verða varahlutaskortur á þessu ári, má reikna með því, að gjaldeyrissala til landbúnaðarvéla og varahluta verði 26–27 millj. kr., eða 3 millj. kr. hærri, en í fyrra. En það var þá, sem hv. 1. þm. S-M.. gleymdi því að flytja varahluta til landsins.