01.04.1959
Sameinað þing: 34. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

Landhelgismál

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. S-M. hefur gert hér að umræðuefni það nýja ofbeldisverk, sem unnið var af hálfu Breta s.l. miðvikudag, þegar erlent herskip hindraði varðskipið Þór í að taka brezkan togara, sem var að ólöglegum veiðum innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu. Óskaði þessi hv. þm. eftir því, að ríkisstj. gæfi hér skýrslu um það, hvað gerzt hefði í málinu.

Út af þessu vil ég taka það fram, að strax og utanrrn. barst skýrsla um það, sem gerzt hafði s.l. miðvikudag, þá var undireins gengið í það að mótmæla þessum atburði við sendiherra Breta hér og sú krafa borin fram, að hinn brezki togari sneri strax til íslenzkrar hafnar, svo að hægt væri að koma yfir hann réttum íslenzkum lögum. Samdægurs var gefin út til almennings skýrsla um málið. Landhelgisgæzlan birti ýtarlega frásögn af þeim atburðum, sem gerzt höfðu þarna á hafinu s.l. miðvikudag, og utanrrn. gaf jafnframt út skýrslu um það, sem það hafði aðhafzt í málinu, þannig að öllum almenningi var samdægurs gefin um það opinber skýrsla, sem gerzt hafði.

Síðan þetta gerðist hefur ekkert gerzt í málinu annað en það, að beðið er eftir svari frá Bretastjórn við þeirri orðsendingu, sem afhent var s.l. miðvikudag. Það gefur að sjálfsögðu auga leið, að hér hafa Bretar gerzt enn á ný sekir um mjög alvarlegt brot á sjálfstæði landsins, þar sem réttri löggæzlu er með ofbeldi varnað að framkvæma íslenzk lög innan þeirra marka, sem ekki ætti að vera neinn ágreiningur um að teljast til íslenzks yfirráðasvæðis. Mótmælum þeim, sem við höfum þegar afhent Bretum, verður að sjálfsögðu að fylgja eftir með þeirri festu, sem frekast eru tök á.

Ég hefði kosið að geta haft samráð við utanrmn. þegar t.d. miðvikudag, er þessir atburðir gerðust. En þannig stóð á, eins og mönnum er kunnugt, að þá var helgidagur, þingmenn voru farnir heim í páskaleyfi, og mér virtist, að ekki mætti dragast stundinni lengur að koma fram mótmælum og kröfum okkar við brezku stjórnina og það alveg sérstaklega vegna þess, að íslenzkt varðskip var þá enn að veita hinum brezka togara eftirför. Ég vildi, að kröfur okkar kæmu fram svo snemma, að þær gætu náð til Bretastjórnar, á meðan sú eftirför ætti sér stað.

Það hefur að sjálfsögðu tafið svar frá brezku stjórninni við þessari kröfu okkar, að páskahelgin hefur staðið þar yfir og þess vegna verið erfitt um svar. En nú er hún liðin, og verður gengið eftir því, að svar við okkar kröfu komi viðstöðulaust til baka. Ég mun að sjálfsögðu hafa fullt samráð um þetta við utanrmn. og hafa samráð við hana um það, hvaða aðgerðir hægt verður að hafa uppi í málinu, ef þeirri kröfu, sem þegar hefur verið borin fram, verður ekki mætt með því, að látið verði að okkar skýlausa rétti í málinu.

Ég vil undirstrika það, að strax sama daginn og þessir atburðir gerðust, var þjóðinni gefin skýrsla um málið í heild og það ekki látið dragast hið allra minnsta.