13.11.1958
Efri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

40. mál, þingsköp Alþingis

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég hjó eftir því í ræðu þeirri, sem hæstv. utanrrh. hélt hér áðan eða var ýtt til að halda, má segja, að flokkarnir hefðu eitthvað komið sér saman um að ræða ekki mikið um þetta mál, sennilega til þess að tefja ekki framgang þess á þinginu. Ég veit nú ekkert um, hvaða flokkar það geta verið, það eru sjálfsagt stjórnarflokkarnir, a.m.k. veit ég ekki til, að við sjálfstæðismenn séum undir neinni þagnarskyldu hvað þetta snertir. Hitt er ekki mín ætlun að tefja málið með langri ræðu, en ég vildi leyfa mér að láta í ljós það álit mitt, að hér er um spaugilegan skrípaleik að ræða hjá hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj., sem að þessu frv. stendur og kommúnistar eru eiginlega í sinni aðstöðu við ríkisstj. og önnur landsmál eða landsstofnanir vel að því komnir fyrir atbeina sinn við hæstv. aðra ráðh. eða ráðamenn í ríkisstj. að njóta þess trausts, sem hæstv. utanrrh. er að votta þeim með þessu frv. Og það fór vel á því, að það skyldi einmitt vera hv. 4. landsk. þm., sem rak hæstv. utanrrh. til að taka til máls yfir höfuð um málið, — það fór vel á því, en hann hefur talið sig vera í sínum fulla rétti og þótt uppreisn sín og sinna flokksmanna ekki vera fullgerð, fyrr en hæstv. ráðh. hefði sjálfur gengið undir það jarðarmen að flytja hér ræðu um málið.

Það mun vera staðreynd, eins og sagt er í nál. hv. minni hl. allshn. hv. neðri deildar, að árið 1951 hafi lýðræðisflokkarnir beitt sér fyrir því, að lögum um þingsköp Alþingis var breytt í það horf, sem þau hafa verið í fram að þessu, en nú á að fara að breyta. Hæstv. ráðh. sagði um þetta fyrirkomulag, að það hefði ekki reynzt heppilegt í meðferð og ég skal að vissu leyti taka undir það, að það hefur ekki reynzt heppilegt í höndum núv. hæstv. ríkisstj., vegna þess að hún hefur algerlega gengið á snið við það lagaákvæði, sem að baki þingskapanna stendur, m.ö.o. brotið lögin, og finnst einfaldasta leiðin út úr því að afnema þau og setja ný lög. Það er mikið talað um lögbrot í þessu þjóðfélagi, ekki sízt núna á síðustu tímum, á ýmsum sviðum, en það eru ekki allir, sem eiga eins hægt um vik og hæstv. ráðamenn þjóðfélagsins, sem — eftir að þeir eru búnir árum saman að brjóta viss ákvæði laganna — geta með dálítilli lagabreytingu afnumið þau ákvæði, sem þeir hafa dundað við að brjóta svona lengi og skapað nýtt ástand.

Að öðru leyti vil ég leyfa mér að mótmæla því, ef það er rétt haft eftir hæstv. utanrrh., sem stendur í nál. meiri hl. allshn. Nd., að utanrmn. hafi allt frá þeim tíma, að þetta ákvæði var sett, haldið ekki nema tvo fundi á ári. Ég var form. utanrmn. um tíma og allt fram að kosningum 1956 og var vel kunnugt um það, að ekki hvað sízt á því ári voru miklu fleiri fundir haldnir í n. en ráðh. virðist hafa gefið í skyn með sínum ummælum og haft er eftir honum í opinberu þskj. A.m.k. ættu þeir að muna það, sem mest gengust fyrir því að nota utanrmn. sem stökkpall til þess að koma hér af stað stjórnarbreytingu, að þá voru miklu fleiri utanríkismálanefndarfundir haldnir á því ári, en gefið er í skyn í þessu nefndaráliti.

Það er að vísu ekki óeðlilegt, að kommúnistar út af fyrir sig uni því illa, að þeir eru ekki jafnréttháir og aðrir í utanrmn., frá sínu sjónarmiði séð. Hitt er allt annað mál, að það er ekki bara á þessu sviði, en þeir hafa komizt til valda á fleiri sviðum og þykir því leitt og hafa kúgað það í gegn, að þeim væri líka veitt sú umbun síns stuðnings að breyta þingsköpunum á þann hátt, sem hæstv. utanrrh. nú berst fyrir eða færir í form.

Áður en kosningar fóru fram, vita menn það, að hinir svonefndu lýðræðisflokkar, sem nú eru í stjórn og 1951 gengust fyrir því ásamt sjálfstæðismönnum að breyta þessu ákvæði þingskapanna á þann veg, að kommúnistar hefðu ekki aðgang að leyndarmálum utanrmn., hafa kyngt svo miklu af sínum ummælum um kommúnista frá þeim tíma, — þar á ég við hv. foringja Alþfl. og ekki síður hv. foringja Framsfl., — að þessi aukabiti, sem hér er um að ræða, er svipur hjá sjón á móts við allt það, sem þeir hafa rennt niður af sínum fyrri ummælum og heitstrengingum um áhrif kommúnista í landinu. Ég ann þeim þess arna því ekkert illa fyrir mitt leyti sem sjálfstæðismaður og skal ekki tefja þetta mál með langri ræðu, því að ég ætla að lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég vil ekki taka þátt í þeim skrípaleik, sem hér er haldinn, og vil láta valdamenn landsins njóta ávaxtanna sem bezt af þessu frv. og breytingu á meðferð utanríkismálanna, sem hér er stefnt að.

Ég mun því fyrir mitt leyti ekki greiða þessu frv. atkv., hvorki með né móti. Ég lít á það sem skrípaleik og veit, að það eru hrossakaup, sem eru knúin fram innan ríkisstj., ein af mörgum, sem við höfum haft vitund um á þeim tíma, sem liðið hefur, síðan þessir háu herrar settust í valdastól og skal þess vegna vera hlutlaus við afgreiðslu málsins.