09.02.1959
Efri deild: 66. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Mér þykir rétt út af ummælum hv. 1. landsk þm. að gera örfáar aths., því að ræða hans var mjög villandi um þetta mál. Hann gaf í skyn, að ef þetta frv. yrði að lögum, mundi það væntanlega þýða, að fasteignagjöld í Reykjavík yrðu stórhækkuð frá því, sem nú er, jafnvel allt að 100%.

Ég vil í fyrsta lagi taka það fram, eins og skýrt hefur komið fram hjá hæstv. dómsmrh., að tilgangur þessa frv. er sá að leiðrétta nokkur mistök, sem urðu hér á síðasta þingi, þegar samþykkt voru til bráðabirgða lög um fasteignagjöldin, því að eins og ég benti á í umr. þá, væri hætta á því, að með þeim lögum væri tekinn nokkur réttur af sveitarfélögum, sem þau hefðu haft. Þetta er nú komið í ljós þannig í einstaka sveitarfélögum, sem áður höfðu notað til fulls heimild til 400% álags á fasteignagjöldin, að eftir að hið nýja fasteignamat kom til framkvæmda og þessi lög frá í fyrra, þá voru viss bæjarfélög, eins og t. d. Akureyri, svipt nokkru af sínum tekjustofni, máttu ekki leggja á jafnhá fasteignagjöld og áður. Þetta frv. er fyrst og fremst til þess að leiðrétta þetta, eins og sjálfsagður hlutur er.

Ég vil taka það fram líka sérstaklega út af ummælum hv. 1. landsk., að það hefur aldrei komið til orða að hækka fasteignagjöld í Reykjavík frá því, sem nú er, á þessu ári eða fara að nota sér nú þessa heimild þessa frv., þótt að lögum yrði. Það er svo með fasteignagjöld í Reykjavík, að gjalddagi þeirra er 2. jan., upphæð þeirra var ákveðin af bæjarstjórninni í okt. og staðfest af ráðh. í nóv., og var þetta allt saman komið í gildi og að vissu leyti til framkvæmda, áður en lög um niðurfærslu verðlags, sem þm. nefndi, tóku gildi.

Ég skal að öðru leyti ekki fara mikið út í þetta mál. En sannast sagna verður maður dálítið undrandi, að þessi hv. þm, skuli fara að flytja hér aftur ræður sínar eða flokksbræðra sinna í bæjarstjórn Reykjavíkur frá því fyrir nokkrum dögum, sem hafa þó komið að nokkru leyti á prenti. En fyrst hann óskar þess að leiða það mál inn hér, þá vil ég aðeins bera fram örfáar leiðréttingar út af ræðu hans.

Í fyrsta lagi er þess að geta, að fasteignaskattarnir hafa orðið í algeru ósamræmi við raunverulegt verðlag nærri því tvo síðustu áratugi eða frá byrjun heimsstyrjaldarinnar. Fyrir stríð var svo ákveðið, t. d. varðandi Reykjavík með reglugerð frá 1938, að húsagjöldin, sem eru langstærsti liðurinn í þessu, — lóðagjöld koma hér nokkuð til líka, en það eru húsagjöldin, sem eru langsamlega stærsti liðurinn, — þau skyldu vera 1% af fasteignamati. Þessi reglugerð var gefin út af þáverandi atvinnumrh., Skúla Guðmundssyni og er sem sagt frá árinu 1938. Eftir því sem verðlag breyttist á stríðsárunum og eftir þau, þá var þess ekki gætt, að þessi tekjustofn sveitarfélaganna fengi að haldast í réttu hlutfalli við verðlagið. Vegna þess, hvað fasteignamatið var úrelt og fylgdist engan veginn með verðlaginu, þá misstu sveitar- og bæjarfélögin raunverulega mikið af sínum tekjustofni, þar sem fasteignagjöldin voru. Af þessum ástæðum var fyrir nokkrum árum eftir ósk bæjarstjórnar Akureyrar samþykkt hér á Alþingi heimild til þess, að sveitarfélögin mættu leggja á fasteignagjöldin allt að 400% álagi. Sum þeirra notuðu það þá þegar út í æsar, en önnur bæjarfélög, t. d. Reykjavík, notuðu það ekki fyrst, en síðar 200% álag, en fór aldrei upp í hámark.

Nú er það svo, að eftir að fasteignamatið nýja tók gildi, en fasteignamatið nýja er fjarri því að gefa rétta mynd af raunverulegu verðmæti fasteigna, a. m. k. hér í Reykjavík, eftir að það tók gildi, var óhjákvæmilegt og sjálfsagt að endurskoða gildandi reglur um fasteignagjöldin. Það var svo gert á s. l. ári og afgreitt í bæjarstjórn Reykjavíkur svo að segja ágreiningslaust í októbermánuði og hlaut staðfestingu ráðh. og er mér ekki kunnugt um neinar athugasemdir frá hans hendi. Nú er það ráðherra, sem stendur pólitískt séð mjög nærri hv. 1. landsk., sem er fyrrv. félmrh. (HV). Hann staðfesti fyrri hluta nóvembermánaðar þessa reglugerð til þess að öðlast gildi þegar í stað. Engar athugasemdir komu frá rn. eða ráðh. um þetta.

Nú er það svo, að húsagjöldin, sem eins og ég gat um samkv. þessari reglugerð frá 1938 voru ákveðin 1% af fasteignamati, eru nú eftir þessar hækkanir í okt. og nóv. einnig 1% af fasteignamati. Þegar þess er gætt, að fasteignamat hér í Reykjavík er í flestum eða líklega í þorra tilfella fjórði til fimmti til sjötti partur af raunverulegu verðmæti, af gangverði eða söluverði eigna, þá sést, að fasteigna- eða húsaskatturinn hér í Reykjavík er nú ekki nema fjórði, fimmti eða sjötti hluti raunverulega eða hlutfallslega á móti því, sem var fyrir stríð. Að tala um einhverjar gífurlegar og ósanngjarnar álögur í þessu sambandi, það sýnir hvort tveggja, einstaka vanþekkingu á þessum málum og í rauninni að því er snertir hv. 1. landsk. þm., að hann óskar ekki að fara hér með rétt mál, því að hann veit betur. Hann er þessum málum ákaflega kunnugur, sem fulltrúi í bæjarstjórn Reykjavíkur.

M. ö. o.: þessi húsagjöld eða fasteignaskattar, eins og þau eru nú í dag eftir þær hækkanir, sem ákveðnar voru í okt. og nóv., eru margfalt lægri, en þetta var áður.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum, en aðeins bæta því við, sem einnig kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh., að þegar sveitarfélögin eru að ákveða sína fasteignaskatta, sem eru þeirra eini tekjustofn, sem nokkru skiptir, auk útsvaranna, þá er hér fyrst og fremst verið að gera það upp við sig, hvort á að hafa útsvarsupphæðina þessum mun hærri eða lægri. Ef till. hv. 1. landsk. og hans samherja nú ætti að ná fram að ganga, að lækka fasteignagjöld í Reykjavík um við skulum segja 6 millj. kr., þá þýðir það, að þessi hv. þm. er að gera till. og krefjast þess, að útsvarsupphæðin hækki um 6 millj., því að þarna eru tveir tekjustofnar, og er bara matsatriði, hvort á að leggja þessa og þessa upphæð á þennan tekjustofninn eða hinn.

Á sömu lund er það hjá öðrum bæjarfélögum, eins og hefur komið fram í þeim erindum, sem borizt hafa til hæstv. ríkisstj. um setningu þessa frv., sem hér liggur fyrir.

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls um þetta frv., tel það alveg sjálfsagða leiðréttingu til handa þeim bæjarfélögum, sem fá nú ekki að leggja á jafnhá fasteignagjöld og áður. En fyrst hv. 1. landsk. taldi ástæðu til þess að draga hér inn í annað mál og gefa þar mjög villandi upplýsingar, þá taldi ég sjálfsagt að gera þessar leiðréttingar.