27.02.1959
Efri deild: 76. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar samþ. voru lög á Alþingi um fasteignamat siðast, lög, sem fasteignamat hefur farið eftir síðan, þá varð það að samkomulagi hér á Alþingi milli þeirra manna, sem voru á móti því, að fasteignamatinu væri breytt með nýju mati, og hinna, sem vildu þó reyna að samræma það eitthvað, að aftan við 10. gr. l. var sett:

„Þá skulu við gildistöku hins endurskoðaða mats, sbr. 6. gr., falla úr gildi lög nr. 29 frá 4. febr. 1952 og ákvarðanir stjórnarvalda um opinber gjöld, sem heimt eru sem hundraðshluti af fasteignamati og komi nýjar ákvarðanir til og miðist við það, að þessi gjöld hækki ekki almennt umfram það, er af flokkun fasteigna kann að leiða.“

Þá stóð heill hópur hér í þinginu, heill flokkur, algerlega á móti því, að það yrði nokkuð hækkuð álagning á fasteignirnar, þó að matið breyttist og gerðar ráðstafanir til þess, að þau gjöld, sem á þeim hvíldu, hækkuðu ekki þrátt fyrir hækkað mat. Það var allur Sjálfstfl., sem stóð þannig að því og setti það sem skilyrði fyrir því, að lögin væru samþykkt.

Ef þetta frv. verður samþykkt, eins og það liggur fyrir núna frá hæstv. ríkisstj., sem styðst við þennan flokk, þá er óhjákvæmilegt, að þessi gjöld hækka sums staðar. Ég vil þess vegna leyfa mér, þar sem ég vil nú reyna, eftir því sem ég get, að standa við þau loforð og skuldbindingar, sem ég hef tekið á mig, — þó að það séu menn, sem mér eru nú ekki að öllu leyti kærir, sem ég hef orðið að gera samninga við, — þá vil ég reyna að gera hér miðlun, svo að það, sem samið var um við Sjálfstfl. á sínum tíma, standi og vildi því gera till. um það, að aftan við gr. bætist: „Þó mega gjöld til sveitarfélaga, sem miðuð eru við fasteignamat, ekki verða hærri en heimild var til að hafa þau hæst, áður en síðasta fasteignamat tók gildi.“ Þá er staðið við allt, sem var lofað og í engu út frá því brugðið. Þeir mega hækka gjöldin upp í það sama um land allt og þau áður voru, en ekki meira.

Ég skal svo leyfa mér að leggja þessa brtt. fram. Hún er skrifleg og þarf þess vegna tvöföld afbrigði til þess að mega koma fyrir.