27.02.1959
Efri deild: 76. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. félmrh. Hann vildi halda fram þeirri skoðun, að hagsmuna húseigenda væri miklu betur gætt með því, að þeim væri gert að greiða hærri gjöld af fasteignum sínum, en þeim mun lægri útsvör. Ég held, að í þessu felist mikil misskilningur, sem ég er viss um að hæstv. ráðh. mundi sjá strax, ef hann athugaði þetta mál ofur lítið betur. Ég held, að þessi skoðun væri alveg hliðstæð því, ef því væri haldið fram, að það væri yfirleitt ástæðulaust að halda áfram þeirri aðferð að leggja á útsvör eða önnur gjöld eftir efnum og ástæðum, heldur skyldu þau leggjast á fyrst og fremst sem nefskattar. Það fer ekki á milli mála, að fasteignagjöld af íbúðarhúsum eru fyrst og fremst nefskattar, sem eru lagðir á algerlega án tillits til þess, hvort t. d. viðkomandi maður á húseign sina skuldlausa eða hvort hann skuldar hana alla saman. Ég held líka, að þetta sjáist greinilega, ef einstök atriði eru athuguð. Við skulum t. d. segja, að manni sé gert að hækka sitt fasteignagjald um 2.000 kr. Enda þótt hann fengi þetta dregið frá við álagningu útsvars, þá mundi sá frádráttur aldrei geta numið meira en fjórða hluta af þessari hækkun, eða 500 kr., þannig að hækkun fasteignagjaldsins yrði þó alltaf þreföld. Hitt er svo líka á að líta, að með innheimtu fasteignagjalda er mörgum þeim gert að greiða gjöld til sveitarsjóðanna, sem ekki eiga að bera neitt útsvar og raunverulega hafa ekki efni á því að gjalda neitt til sveitarsjóðanna. Og ég veit, að hæstv. ráðherra er einmitt þessu kunnugur, því að í því sveitarfélagi, þar sem við þekkjum báðir vel til og þar sem hækkunarheimildin frá 1952 var fyrst notuð og hefur verið lengst notuð, þar hefur það verið svo, að bæjarstjórn þessa sveitarfélags hefur orðið á hverju ári að gefa eftir tugum manna hækkunina á fasteignagjöldunum, vegna þess að þessir gjaldendur voru alls ekki færir um að inna nein slík gjöld af höndum og bera ekkert útsvar. Þetta getur í ýmsum tilfellum leitt til þess, að þeim, sem ekki eiga að greiða útsvör, sé gert að greiða veruleg gjöld, a. m. k. tilfinnanleg, miðað við tekjur þeirra, til sveitarsjóðanna.

Ég held, að það sé þess vegna alger misskilningur, að þarna sé um sanngjarnari gjaldheimtu að ræða, heldur en með útsvörum, a. m. k. hvað tekur til efnaminna fólks. Hitt kann að vera, að þetta komi betur út fyrir þá, sem eru efnamestir og tekjuhæstir, — ég efa það ekki, — en einmitt við það er mín till. miðuð, að þeir haldi áfram að greiða sín gjöld, ekki lægri en þau hafi verið áður, en hins vegar sé létt á þeim fátækari.

Ég held líka, að það sé nokkur misskilningur, þó að hann sé kannske ekki eins bagalegur og í þessu tilfelli, hjá hæstv. ráðh., þegar hann taldi, að það mundi engin áhrif hafa á heildargjaldheimtu sveitarfélaganna, hvort þau fengju fasteignagjöldin hækkuð eða ekki. Ég er sannfærður um það, að mjög víða mundi verða horfið fyrr að því ráði að spara í útgjöldum, heldur en að hækka útsvörin frá því, sem nú er og ég er ekki í nokkrum vafa um, eins og ég sagði, að víða mundi það vera hægt, án þess að kæmi að sök.