03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þegar þetta frv. var tekið til 2. umr, í þessari hv. d., komu fram við það tvær skriflegar brtt. og varð það til þess, að umr. var frestað og því skotið til heilbr.- og félmn., hvort hún vildi ekki athuga þessar brtt., sem fram voru komnar, áður en 2. umr. lyki.

N. hefur nú athugað þessar till. og gat ekki fallizt á að mæla með því, að þær yrðu samþykktar. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessar till. Þær skýra sig sjálfar.

Till. á þskj. 288, frá hv. 8. landsk. þm., er um það, að íbúðarhús séu undanskilin frá hækkunarheimildinni, sem frv. hefur að geyma. Ef þetta næði fram að ganga, þá mundi mikill hluti af þeim grundvelli eða gjaldstofni, sem fasteignaskattarnir byggjast á, ganga undan þessari hækkunarheimild, því að á hverjum stað er auðvitað íbúðarhúsnæði meiri hluti húseignanna í bæjunum. Hækkunarheimildin mundi þess vegna ekki koma að gagni fyrir mikinn hluta af þessum sveitarfélögum, sem hugsa sér að nota þessa heimild. Þá má einnig benda á, að búast mætti við erfiðleikum við framkvæmd þessara laga, ef íbúðarhúsnæði væri undanskilið heimildinni. Það má benda á það t. d., að í fjöldamörgum húsum er bæði íbúð, verzlanir, smáiðnaður o. s. frv. Í hverju tilfelli yrði þá, þegar um skattálagningu væri að ræða og íbúðarhúsnæðið ætti að undanskilja, að fara fram athugun á því, hvað mikill hluti af húsinu ætti þá ekki að skattleggjast. Gæti þetta trúlega haft töluverða framkvæmdaörðugleika í för með sér, sem í ýmsum tilfellum gæti verið örðugt að komast fram hjá. Þetta mun hafa verið framkvæmt á einhverjum stöðum og mér hefur verið tjáð, að framkvæmdin á því hafi orðið svo erfið, að sveitarstjórnir hafi hætt við að hafa þann hátt á að undanskilja íbúðarhúsnæði.

Ég vil þá aðeins minnast á till. hv. 1. þm. N-M. á þskj. 289. Í henni er lagt til, að aftan við 1. gr. bætist: „Þó mega gjöld til sveitarfélaga, sem miðuð eru við fasteignamat, ekki vera hærri, en heimilt var að hafa þau hæst, áður en síðasta fasteignamat tók gildi.“

Þessi till. mundi ekki snerta málin í heild neitt líkt því eins og hin till., því að það yrðu sárafá sveitarfélög, sem þessi till. mundi snerta, geri ég ráð fyrir. En það virðist vera óþarfi að binda hendur sveitarstjórna á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Ef frv. verður samþ. eins og það liggur fyrir, þá hafa sveitarstjórnir óbundnar hendur um það, hvort þær nota heimild þá, sem um ræðir, eða ekki. Hækki þær fasteignagjöldin, geta útsvörin lækkað sem því nemur. Hér er því um tilfærslu á tekjustofnum sveitarfélaganna að ræða, en ekki að ræða um nýja skatta, eins og fram hefur komið áður í þessum umr. Og það verður að líta svo á, að sveitarstjórnir eigi á hverjum stað og á hverjum tíma að hafa sem frjálsastar hendur um það, hvernig þær ráða málum sinna sveitarfélaga.

Ég vil enn taka það fram, að fasteignaskattar, sem bundnir eru við hundraðshluta af fasteignamati, sem stendur óbreytt árum saman, verða einnig óhreyfanlegir að krónutölu, hvað sem öllu öðru verðlagi í landinu líður. Þetta getur að mörgu leyti verið óheppilegt fyrir sveitarfélög, sem nota sér þennan gjaldstofn til tekna. En heimildin til hækkunar gjaldanna getur einmitt í þessu tilfelli, eins og í frv. felst, jafnað þetta og gert það hreyfanlegt, eftir því sem hin einstöku sveitarfélög ákveða sjálf, sum nota heimildina, sum ekki. En með aukaákvæðum eins og t. d. í brtt. á þskj. 289 felst, er sveitarfélögum mismunað á þessu sviði og virðist það ekki vera viðeigandi. Sem sagt, meiri hluti heilbr.- og félmn. leggur til, að þessar brtt á þskj. 288 og 289 séu felldar.