20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

1. mál, fjárlög 1959

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við 14. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1959, XXXVII, sem yrði, ef samþykkt yrði, tölul. 15. Það er um, að til tónskóla Siglufjarðar verði veittar 40 þús. kr.

Þá hef ég flutt brtt. við brtt. á þskj. 391 við frv. til fjárlaga fyrir árið 1959, frá fjvn., 13. gr., til hafnarmannvirkja og lendingarbóta, tölul. 47, Siglufjarðarhöfn, að í stað 200 þús. kr. komi 400 þús. kr. Till. þessar eru á þskj. 409. Ég mun nú í stuttu máli ræða þessa liði nánar.

Fyrir tveim árum var að tilhlutan Lúðrasveitar Siglufjarðar, verkamannafélagsins Þróttar og verkakvennafélagsins Brynju stofnaður tónskóli Siglufjarðar. Ráðinn var til skólans skólastjóri, Sigursveinn Kristinsson, hinn ágætasti tónlistarmaður. Sigursveinn hafði þá nýlokið tónlistarnámi í Austur-Þýzkalandi með mjög góðum vitnisburði, en áður hafði hann stundað nám við tónlistarskólann hér í Reykjavík. Það mun ekki ofsagt, þó að ég segi það hér, að Sigursveinn er talinn með efnilegustu tónlistarmönnum okkar, og mun vera hægt að fá umsagnir þekktra tónlistarmanna hér í höfuðstaðnum til staðfestingar þessum ummælum mínum.

Það sýndi sig fljótlega, að mikill og almennur áhugi alls almennings á Siglufirði var fyrir þessari skólastofnun. Fjöldi barna og unglinga stundaði nám í skólanum fyrri veturinn og var aðallega kennt þar þá að leika á blokkflautur og nótnalestur. Voru á annað hundrað börn, sem voru fastir nemendur í skólanum. Skólagjaldinu var mjög stillt í hóf, eða 50 kr. á mánuði. Jafnhliða þessu var svo hafin kennsla á stærri og erfiðari blásturshljóðfæri. Nemendur í þeim flokki voru menn á ýmsum aldri, frá 16 til 40 ára. Jafnhliða þessari starfsemi var svo stofnaður blandaður kór, sem í eru yfir 40 manns. Sigursveinn hefur verið frá upphafi aðalþjálfari kórsins og leyst af hendi ótrúlega mikið og gott verk að dómi þeirra, sem bezt til þekkja. Hinn nýi söngkór hefur nokkrum sinnum sungið opinberlega og hlotið mjög góða dóma. Þessi ungi blandaði kór er nú sem stendur eini starfandi söngkórinn á Siglufirði fyrir utan kirkjukórinn, þar sem okkar gamli og velþekkti karlakór, Vísir, hefur ekki starfað undanfarin ár.

Í vetur, eða á öðru starfsári tónskólans, hefur starfsemi hans mikið aukizt. Nemendatala skólans hefur vaxið allverulega og tekin hefur verið upp kennsla í fiðluleik og kennsla á ýmis blásturshljóðfæri stóraukin. Skólinn lagði í mikil hljóðfærakaup á árinu. Víð skólann starfa tveir fastir kennarar og sá þriðji, sem er tímakennari. Tónskólinn hefur ekki tekið upp kennslu í píanóleik, þar sem Tónlistarskóli Siglufjarðar hefur haldið uppi kennslu í þeirri grein.

Það hljóta flestir að skilja, að jafnfjölþætt starfsemi og sú, sem tónskóli Siglufjarðar rekur, kostar allmikið fé. Tekjur skólans hafa ekki aðrar verið, en skólagjöldin, 15 þús. kr. styrkur frá bæjarstjórn Siglufjarðar og 10 þús. kr, frá Alþýðusambandi Íslands svo og styrkir og gjafir einstaklinga.

Tónskóli Siglufjarðar hefur frá upphafi notið eindregins stuðnings verkalýðshreyfingarinnar og skólinn hefur notið ókeypis húsnæðis, ásamt ljósi og hita, sem verkalýðsfélögin greiða. Almenningur á Siglufirði kann vel að meta hina jákvæðu og merkilegu starfsemi tónskólans fyrir æskulýðinn í bænum. Mér er sagt t. d. og ég veit, að það er rétt, að á sama tíma sem bíósýningar standa yfir, eru nemendur skólans á æfingu í tugatali. Ég hef talað við fjölda foreldra úr öllum flokkum og öllum stéttum, sem telja, að stofnun tónskólans og starfsemi hans hafi nú þegar haft mjög góð og göfgandi áhrif á börnin í bænum og haldi þeim frá því að sækja óholla og miður æskilega skemmtanastaði, en láti tónlistarnámið sitja í fyrirrúmi.

Ég held, að það verði ekki hjá því komizt að athuga örlítið, hvernig hið opinbera lítur á svona starfsemi. Maður skyldi ætla, að slík starfsemi mundi hljóta eindreginn stuðning allra þeirra, sem eru á því máli, að eitthvað beri að gera meira, en gert er fyrir æskulýð landsins og kannske á þetta alveg sérstaklega við stað eins og Siglufjörð, sem býr við mjög mikla einangrun fram yfir flesta aðra staði á landinu.

Stjórn Tónskóla Siglufjarðar hefur sótt um, að skólinn verði settur á fjárlög 1959 og skólanum verði veittur 40 þús. kr. styrkur til starfsemi sinnar. Hæstv. menntmrh. hafði tekið mjög vel í þetta mál og beinlínis lofað því að veita málinu þann stuðning, sem hann mætti veita. Þegar beiðni tónskólans var rædd á fundi í fjvn., mun hafa komið í ljós, að a. m. k. sumir meðlimir fjvn., en ég vil þó undanskilja formann n., höfðu lítinn áhuga á málinu og einstaka meðlimir jafnvel sýndu því fulla andúð. A. m. k. er það staðreynd, að n. hefur ekki séð sér fært að taka upp neina fjárveitingu til skólans. Ég hef rætt nokkrum sinnum við hæstv. menntmrh. um þetta mál, en hann hefur færzt undan að gefa nokkur ákveðin svör um stuðning við málið þrátt fyrir áður gefna yfirlýsingu um hans mikla áhuga og velvild til skólans. Ég mun ekki ræða það nú, hvers vegna og af hvaða ástæðum hv. fjvn. hefur tekið þessa afstöðu til Tónskóla Siglufjarðar. Mér er kunnugt um, að menn úr flestum flokkum á Siglufirði hafa mjög ákveðið óskað eftir því við fjvn., að Tónskóli Siglufjarðar yrði tekinn inn á fjárlög, en að því er virðist án nokkurs árangurs. Það gæti verið mjög upplýsandi fyrir velunnara skólans að fá nánari upplýsingar frá fjvn. um þetta mál.

Ég get nú á þessu stigi málsins látið útrætt um þessa till., en ég vil mega vænta velvilja og stuðnings hv. alþm. til þessa máls.

Þá er það brtt. mín við brtt. fjvn. á þskj. 391, 13. gr., tölul. 47 Siglufjarðarhöfn, að í stað 200 þús. kr., eins og fjvn. leggur til að veitt verði til Siglufjarðarhafnar, komi 400 þús. kr.

Siglufjarðarhöfn er ein af stærstu útflutningshöfnum landsins. Það er því hin mesta nauðsyn, að hafnarmannvirki séu mikil og góð. Þaðan er flutt út árlega fyrir marga tugi millj. kr. Miklar skipakomur eru til hafnarinnar, sérstaklega sumar- og haustmánuðina, en það er sá tími, sem síldarútflutningurinn er hvað mestur. Á síðasta ári voru t. d. saltaðar á Siglufirði 127 þús. tunnur, sem mun gera í erlendum gjaldeyri hátt í 40 millj. kr. Þar við bætist svo útflutningur verðmæta síldarverksmiðja ríkisins og síldarverksmiðjunnar Rauðku, sem er vitanlega mismunandi mikill eftir því, hvað verksmiðjurnar fá mikil hráefni. En á það hefur viljað bresta, að verksmiðjurnar fengju hráefni nema af mjög skornum skammti, a. m. k. var það s. l. sumar, þó að sumarið þá á undan væri verksmiðjunum hagstæðara, en nú. Útflutningur frá síldarverksmiðjunum hefur skipt oft og tíðum tugum millj. kr. Við útflutning síldarafurðanna bætist útflutningsverðmæti tveggja togara, sem gerðir eru út frá kaupstaðnum og nokkurra fiskibáta.

Á þessari upptalningu sést, að Siglufjarðarhöfn er ein með stærstu útflutningshöfnum landsins. Nú eru hafnarmannvirki Siglufjarðar mjög úr sér gengin, t. d. er aðalhafnarbryggjan talin mjög léleg og lítt forsvaranlegt að afgreiða stærri lestarskip við bryggjuna, ef eitthvað er að veðri. Vitamálastjóra var það ljóst fyrir nokkru, að mesta nauðsyn væri til þess að endurbyggja hafnarbryggjuna sem allra fyrst. Það varð því að ráði milli hafnarstjórnar og vitamálastjóra að byggja hafskipabryggju sunnan á tanganum í beinu framhaldi af gömlu hafskipabryggjunni. Það verk er nú það langt komið, að vonir standa til, að sú bryggja verði tekin í notkun í sumar. Þá var og ákveðið að endurbyggja gömlu hafskipabryggjuna þannig að ramma stálþil utan um bryggjuna og jafnframt að hækka hana allverulega frá því, sem hún er nú, þar sem bryggjan hefur sigið allverulega, frá því að hún var byggð. Þessar miklu framkvæmdir í hafnarmálum Siglufjarðarkaupstaðar kosta að sjálfsögðu mikið fé, skiptir millj. kr. Hjá þessum framkvæmdum verður ekki komizt. Á Siglufirði rekur ríkið umfangsmikinn atvinnurekstur, þar sem síldarverksmiðjur ríkisins eru og hefur því beinna hagsmuna að gæta í þessu máli, auk þess sem Siglufjörður er langstærsti síldarsöltunarstaður norðanlands og veltur því á miklu, að næg og góð hafnarmannvirki séu á staðnum, svo að hægt sé að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru í sambandi við hinn mikla útflutning, sem fer fram á tiltölulega stuttum tíma.

Nú eru það tillögur hv. fjvn. að veita til Siglufjarðarhafnar aðeins 200 þús. kr. á yfirstandandi fjárlögum. Minna gat það tæplega verið. Mér er tjáð, að Siglufjarðarhöfn eigi ekki rétt á að fá meira fé í ár í samanburði við aðrar hafnir. Það má vel vera, að svo sé.

En sé tekið tillit til allra aðstæðna, er þessi fjárupphæð, 200 þús. kr., fjarri öllu lagi. Ég ætla mér ekki hér að gera neinn samanburð á höfnum og fjárveitingu til þeirra víðs vegar um land, sjálfsagt eru til rök fyrir því að veita sömu upphæð eða jafnvel hærri til hafna víðs vegar um land, þar sem svo má segja, að ekkert er flutt út. En fjárhagslega séð kemur manni þetta mjög kynlega fyrir sjónir.

Ég tel nú ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar brtt. mínar, en mun óska eftir því við hæstv. forseta, að atkvæðagreiðslu um þær verði frestað til 3. umr., svo að hv. fjvn. gefist tækifæri enn á ný til að athuga þær milli umræðna. Óska ég þess hér með við formann nefndarinnar, að þessar till. mínar verði teknar fyrir í nefndinni. Ég er að sjálfsögðu fús til að gefa allar upplýsingar, sem ég hef, í sambandi við bæði þessi mál og mun afla þeirra, sem ég kynni ekki að hafa, ef þess yrði óskað.

Um fjárlögin sjálf og þær brtt., sem fyrir liggja, væri að sjálfsögðu margt hægt að segja, t. d. um þá hlið málsins, sem snýr að landsbyggðinni utan Reykjavíkur. T. d. hefur verið lækkað tillag til Siglufjarðarhafnar úr 350 þús. kr. frá fjárlögum 1958 niður í 200 þús. kr., samkvæmt tillögum fjvn. og þá sjálfsagt vitamálastjórnar líka. Þá er enn fremur lagt til, að flestar verklegar framkvæmdir séu lækkaðar um 5%, atvinnubótaféð er skorið niður um 3.5 millj. kr., rafveituframkvæmdir um 10 millj. Fleira mætti telja. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort fyrir þessum mikla niðurskurði, sem hér er lagt til að verði gerður, séu fullnægjandi rök. Ég skal fyllilega fallast á þá röksemdafærslu, sem hér hefur komið fram, að eins og þessum málum öllum er komið, þá er full ástæða til þess að gæta sparnaðar í ríkisrekstrinum yfirleitt, en hvort það á fyrst og fremst að ráðast í að spara á því, sem heyrir til verklegra framkvæmda, um það má sjálfsagt mjög mikið deila.

Hæstv. ríkisstj. hefur marglýst því yfir og nú síðast hæstv. fjmrh., að engir skattar og engir tollar skyldu hækkaðir, engar nýjar álögur lagðar á þjóðina. Fyrir liggur nú hækkun á áfengi og tóbaki, sem áætlað er að muni nema 25 millj. kr. Leyfisgjald af bílum skal hækka úr 160% í hvorki meira né minna en 300%, eða um 140%. Hér er ekki um neinn smáræðis skatt að ræða, sem fyrr eða síðar hlýtur að lenda á öllum almenningi í hækkuðum fargjöldum. Því miður verður líka að viðurkenna þá staðreynd, að tóbaksnotkun almennings er mjög almenn, hækkun á þeirri vöru er því aukinn skattur á alla þá, sem þessar vörur nota, o. s. frv. Ég ætla ekki að tala um brennivínið, ég get alveg fallizt á það, að það megi hækka.

Ég hef aðeins bent hér á örfá dæmi, sem sýna mjög ljóslega, hvert stefnir. Það, sem þó er alvarlegast við þessi mál, er það, að með nokkra eða jafnvel flesta tekjuliði frv. er að mínum dómi teflt alveg á tæpasta vað, en aftur á móti er hætt við, að útgjaldaliðir frv. fari fram úr áætlun, a. m. k. hefur það verið reyndin undanfarin ár. Ég hef ekki mikla trú á því, að þar á verði mikil breyting frá því, sem áður hefur verið, heldur jafnvel þveröfugt.

Gert er ráð fyrir stórauknum innflutningi á hátollavöru og þá vitanlega á kostnað nauðsynjavarnings, Ég verð að telja slíka stefnu stórvarhugaverða, auk þess sem engin trygging er fyrir því, að hægt verði að selja miklu meira magn af hátollavörum, en nú hefur verið gert undanfarið. Benda má á, að kaupgjald í landinu var af hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar lækkað um hvorki meira né minna en 13.4% með lögum og niðurgreiðslum. Ekki benda slíkar ráðstafanir til þess, að kaupgeta almennings hafi aukizt, heldur þvert á móti. Kaupgeta almennings hefur stórlega rýrnað, um það þarf ekki að deila. Ég tel það því mikla bjartsýni hjá hæstv. ríkisstj. að ætla að auka mikið frá því, sem er, innflutning hátollavara.

Um fram komin nál. 1., 2. og 3. minni hl. skal ekki rætt hér. Ég vil þó taka það fram, að ég er samþykkur í flestum atriðum brtt. 2. minni hl., tel þær mjög raunhæfar og til stórbóta, ef samþykktar yrðu, frá því, sem nú er.

Að lokum vil ég leyfa mér að benda hv. alþm. á till. á þskj. 409, XIII, sem við hv. 8. landsk. (BjörnJ) flytjum, fjárveiting til Sjálfsbjargarfélaga, þ. e. félaga fatlaðra, til þess að koma á fót félagsheimilum og vinnustöðvum fyrir öryrkja, 250 þús. kr., til vara 100 þús. kr. Ég bendi hér aðeins á þessa till., sem fyrri flm. mun frekar skýra frá. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín fleiri, enda liðið á nóttu og margir á mælendaskrá.