21.04.1959
Sameinað þing: 42. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

1. mál, fjárlög 1959

Eysteinn Jónsson:

Mér heyrast nú allar horfur á því, að fyrirmenn þessara mála séu að neita um þessa sanngjörnu ósk, sem ég bar hér fram og eru færðar fyrir því ýmsar ástæður.

Hæstv. forseti segist álíta, að það sé í uppsiglingu farsótt, sem muni grípa þingmenn hópum og það má vel vera, að þetta sé alveg rétt. Nú þegar liggur hópur af þingmönnum í rúminu. En dettur hæstv. forseta í hug, að það sé þinglegt eða viðeigandi að halda áfram þinghaldi og uppgjöri mála hér í þinginu, alveg eins og ekkert hafi í skorizt, þó að þingmenn liggi rúmfastir hópum saman og geti ekki tekið þátt í meðferð þýðingarmestu mála? Er þetta hægt? Ég segi, að það sé ekki hægt. Það er ekki hægt að halda áfram, eins og ekkert hafi í skorizt, að bera upp þýðingarmestu mál, þegar þingmenn liggja í stórhópum rúmfastir og geta ekki gegnt þingmannsskyldum sinum. Og ég vil beina því til forseta þingsins, að þeir íhugi þetta mál nú, að það er alveg óhugsandi að halda þannig á forsetastjórn á Alþingi að knýja til úrslita þýðingarmestu mál þjóðarinnar, þegar þingmenn liggja hópum saman í rúminu og geta ekki notfært sér þingmannsrétt sinn. Hver hefur rétt til þess að notfæra sér þannig það vald, sem honum er gefið sem forseta Alþingis? Og það veit ég, að forseti sameinaðs þings mun taka þetta til athugunar.

Ég hefði haldið, að það hefði verið hægt að leysa þetta mál núna án þess að fella niður atkvgr., á þann hátt, sem ég stakk upp á, sem sé með því að fresta mestu ágreiningstill. til 3. umr. En hæstv. fjmrh. segir, að það sé ekki hægt, og geri ég ráð fyrir, að hann mæli þar fyrir munn stjórnarflokkanna, þ. e. a. s. 1. minni hl. fjvn. Og hverjar eru svo ástæðurnar, sem hæstv. fjmrh. færir fyrir því, að þessari ósk sé ekki hægt að sinna? Þær eru þær og einvörðungu þær, að það þurfi umfram alla muni að ljúka þessu máli fyrir 1. maí, vegna þess að lagaheimild um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði sé ekki í gildi lengur en til 1. maí. M. ö. o.: skilningur hæstv. fjmrh. virðist vera sá, að þó að það vantaði þriðjunginn, jafnvel máske helminginn af þingmönnum, þá verði samt að afgreiða fjárlögin fyrir 1. maí, vegna þess að það sé ekki í gildi lagaheimild fyrir bráðabirgðafjárgreiðslum úr ríkissjóði. Og þetta er sagt úr stjórnarherbúðunum, eftir að stjórnin er búin að láta þingið hanga hér aðgerðalaust í þrjá og hálfan mánuð og taka sér þrjá og hálfan mánuð til þess að skoða þetta mál. Þá er ekki hægt að bíða einn dag eftir 1. maí, þó að helmingur þingmanna kynni að liggja í rúminu. Vitanlega er þetta óhæfilegt. Svona vinnubrögð er alls ekki hægt að samþykkja né sætta sig við. Vitaskuld er það alveg augljóst mál, að það er skylda þeirra, sem ráða meðferð mála hér á Alþingi, að haga þannig til, að séu mikil veikindi meðal þingmanna, þá sé beðið með málin, þangað til úr rætist.

Og þegar þeir menn, sem fyrir þessari málsmeðferð allri standa, bera fyrir sig, að það liggi svo óskaplega á og það geti riðið á einhverju verulegu, hvort fjárlög verða afgreidd einum eða tveimur dögum fyrr eða síðar, þá er slíkt með engu móti frambærilegt. Þingmenn hafa sinn rétt og þeir eiga að fá að njóta hans og það jafnvel þó að upp komi farsótt, sem kann að tefja þá frá störfum á víxl í tvo eða þrjá daga.

Ég lýsi því hér með yfir, að við í stjórnarandstöðunni í Framsfl. mundum gjarnan framlengja um nokkra daga heimild ríkisstj. til þess að greiða fé til bráðabirgða úr ríkissjóði til þess að greiða fyrir því, að þingmenn geti notað sinn sjálfsagða þingmannsrétt, enda er ofan á allt annað sannleikurinn sá, að þó að nú væru teknar til baka til 3. umr. till. þær, sem ég hef farið fram á um niðurskurðinn, þá mundi það ekki tefja afgreiðslu fjárl. um eina mínútu. Ég leyfi mér þess vegna að mótmæla þeirri vinnuaðferð, sem hér á við að hafa og ég bið hæstv. forseta þingsins að hafa gát á því næstu daga, að það verði ekki haldið óviðurkvæmilega á þessum málum. Við getum búizt við því, að það sé, eins og hæstv. forseti Sþ. sagði, farsótt komin upp í þingliðinu, en það verður ekki hægt að sætta sig við það mótmælalaust, að slík veikindi meðal þingmanna séu notuð til þess að svipta þá réttinum til að eiga þátt í afgreiðslu þýðingarmestu málanna.

Ég leyfi mér því að mótmæla því algerlega, að þessar ágreinings tillögur komi til atkvæða nú og endurtek ósk mína um, að þeim verði frestað til 3. umr.