16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

137. mál, stofnun gjaldeyrissjóðs og alþjóðabanka

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Aðalefni þess frv., sem hér liggur fyrir, er það að auka lántökuheimild hæstv. ríkisstj. frá því, sem nú er, úr 2 millj. dollara í 3.5 millj. dollara. Hér er um innanríkislán að ræða.

Ástæðan til þess, að farið er fram á þetta, er — eins og segir í grg. frv. — sú, að framkvæmdastjórar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans hafa samþykkt að fara þess á leit við aðildarríkin, að þau auki framlag sitt til sjóðsins um 50% og framlagið til bankans um 100%. Þeir sérfræðingar og trúnaðarmenn, sem vinna á vegum íslenzku ríkisstj, við nefndar stofnanir, munu hafa lagt til, að Ísland tæki þátt í þessari aukningu framlaganna og mun það ástæðan til þess, að frv. þetta er borið fram.

Nefndin hefur athugað frv., og voru þeir nm., sem viðstaddir voru á þeim fundi, þar sem málið var afgr., sammála um að leggja til, að það yrði samþ.