16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Ég sagði áðan í ræðu minni, að ég ætlaði einmitt ekki að ræða neitt ýtarlega um það, hvað kynni að vera sanngjarnt og ekki sanngjarnt í skattalögunum og ætla ekki heldur í þessari stuttu aths. að orðlengja nokkuð frekar um deilu okkar hv. þm. V-Húnv. um jafnréttisaðstöðu samvinnufélaganna og hlutafélaganna annars vegar til skatts, en vil bara nota lokaorð mín í þessum umr. til þess að undirstrika það, sem ég tel að sé nú, eins og sakir standa, veigamest og geti úr skorið, að við erum sammála um eitt í þessum umr., hv. þm. V-Húnv. og ég, að með l. í fyrra hafi engin breyt. verið gerð á skattskyldu samlaganna, hvorki S. H. eða annarra. Það tel ég ákaflega veigamikið atriði. Þetta dregur ekki úr því, sem hann segir, að hans skoðun hafi verið, að þau hafi áður verið skattskyld, Það skiptir ekki máli í þessu sambandi. En það, sem sker úr um þessar umr. hér nú eða kann að skera úr, er það, að við erum þó sammála um þetta atriði, að með löggjöfinni í fyrra hafi engin breyting verið gerð á skattskyldu samlaganna frá því, sem áður var.