18.04.1959
Neðri deild: 111. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég var ekki á fundi, þegar fyrri hl. umræðunnar fór fram, en mér hefur skilizt, að þeir, sem mæltu gegn brtt. á þskj. 372, hafi talið, að lagabreyting væri óþörf um þetta efni. Það má að vísu til sanns vegar færa, að lagabreyting ætti að vera óþörf í þessu efni, en við nánari athugun um framkvæmd þessa máls hjá skattayfirvöldunum kemur í ljós, að ríkisskattanefnd hefur ekki skilið lagagreinina á þann hátt, sem ég tel að Alþingi ætlaðist til, þegar þessi mál voru til umræðu hér á þinginu í fyrra.

Lagagreinin hljóðar svo, með leyfi forseta: „Sameignarfélög og samlög, sem hafa það að meginmarkmiði að annast vinnslu eða sölu á framleiðsluvörum félagsmanna. Einnig önnur sameignarfélög með ótakmarkaðri persónulegri ábyrgð félagsmanna, enda séu þau skrásett firmu og hafi tilkynnt firmaskrá, að þau óski að verða skattlögð sem félög...“ o. s. frv.

Samkvæmt þeim leiðbeiningum, sem ríkisskattanefnd hefur gefið skattanefndum, á undir öllum kringumstæðum að skattleggja sameignarfélög og samlög, sem hafa það að meginmarkmiði að annast vinnslu eða sölu á framleiðsluvörum félagsmanna, sem sjálfstæðan aðila, m. ö. o.: þau félög fái ekki að njóta þeirra réttinda, sem seinni partur lagagreinarinnar tekur til, en það er, að eigendur þessara félaga hafi rétt til að vera skattlagðir hver í sínu lagi. Leiðbeiningar ríkisskattanefndar til skattanefnda hljóða svo, það er c-liður 3. gr.:

„Þegar ákveða skal, hvort sameignarfélag skuli vera sjálfstæður skattaðili eða hvort skipta skuli tekjum þess og eignum á meðlimina, skiptir nú fjöldi meðlima þess ekki lengur máli, heldur hitt, hvort um er að ræða afurðasamlag eða önnur sameignarfélög.“ Og svo kemur stafliður a: „Afurðasamlög, sem hafa það að meginmarkmiði að annast vinnslu eða sölu á framleiðsluvörum félagsmanna, skal alltaf skattleggja sem sjálfstæða skattaðila.“ Og stafliður b: „Tekjum og eignum annarra sameignarfélaga með ótakmarkaðri persónulegri ábyrgð félagsmanna skal skipta niður á eigendur þeirra í samræmi við eignarhlutdeild þeirra í félagi, nema uppfyllt séu viss skilyrði.“

Þarna kemur greinilega fram sá skilningur ríkisskattanefndar, að ekki megi skattleggja sameignarfélög og samlög, sem hafa að meginmarkmiði að annast vinnslu og sölu á framleiðsluvörum félagsmanna, öðruvísi en skattleggja félögin sjálf. Ég er í litlum vafa um það, að þegar þessi lagagrein var samþykkt á Alþingi, hafi þingið ætlazt til, að þessi félög hefðu nákvæmlega sama rétt og önnur sameignarfélög með ótakmarkaðri persónulegri ábyrgð félagsmanna, og það er, að þau megi skipta tekjum sínum og eignum á félagsmenn, ef þau uppfylla viss skilyrði. Þess vegna er ástæða til að líta svo á, að þessi lagagrein verði ekki skilin á þann veg af skattyfirvöldunum, nema því aðeins að samþ. verði þessi lagabreyting, sem hér er í brtt. á þskj. 372. Ég sé enga aðra leið til þess að leiðrétta þennan misskilning, sem felst í túlkun ríkisskattanefndar á lögunum. Hver sem les lagagreinina hlýtur að skilja hana þannig, að þessi félagsform, sem hér er um að ræða, sameignarfélög og samlög og önnur sameignarfélög með ótakmarkaðri ábyrgð, eigi að njóta þeirra réttinda, sem lagagreinin felur í sér.

Mér fannst rétt, að þetta kæmi fram, vegna þess að hér er verið að leiðrétta túlkun á lagagreininni hjá skattyfirvöldunum. Það er engin trygging fyrir því, að sú leiðrétting fáist, nema þessi brtt. verði samþykkt.