09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er 6. mál á dagskránni, frv. um tekju- og eignarskatt, hefur verið tekið út af dagskrá hér dag eftir dag nú í heila viku. Þetta mál er þannig vaxið, að það er um það að ræða að standa við samninga, sem gerðir hafa verið við sjómannastéttina og ég er sannfærður um það, að þessi hv. d. hefur fullan hug á því, að við þessa samninga verði staðið. Þar sem nú er vitað, að aðeins örfáir dagar eru eftir af þingi, sýnist mér, að þessu máli sé stefnt í hættu, ef það er oftar tekið út af dagskránni. Ég vil þess vegna gera þá kröfu til hæstv. forseta, að hann beri það undir deildina, hvort málið skuli afgreitt nú á þessum fundi.