09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forseti (BSt):

Ég hafði nú satt að segja hugsað mér að slíta þessum fundi og halda annan smáfund á eftir og ef á að taka málið fyrir á þessum fundi, þá verður að fresta honum fram yfir klukkan fimm.

Þetta mun vera rétt, sem hv. þm. segir, að málið hefur verið tekið hvað eftir annað af dagskrá, en ég hef fengið boð um það frá hæstv. fjmrh., hann beðið mig um að taka það út af dagskrá og eins mun hafa verið með þá varaforseta, sem hér hafa gegnt störfum í veikindaforföllum mínum, þeir hafa tekið málið út af dagskrá af sömu ástæðu. (Gripið fram í: Það tekur nú ekki langan tíma að afgreiða þetta mál.) Það mun vera vegna veikinda hæstv. ráðh., sem þessi beiðni hefur komið fram. Ég get ekki neitað því að bera það undir d., hvort málið skuli tekið fyrir nú, en á hinn bóginn lýsi ég því yfir, að málið mundi verða tekið á dagskrá a. m. k. og tekið fyrir á mánudag, sem ég geri ráð fyrir að sé nægilegur tími til að afgreiða það. (Gripið fram í: Það er fundur í sameinuðu þingi á mánudag.) Jæja, eða á næsta fundi d. eftir daginn í dag. Ja, þessi krafa er komin fram.