12.05.1959
Neðri deild: 126. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Því miður er það svo, að ekki hafa, hvorki við umr. hér í hv. d. né í hv. fjhn., komið fram neinar ábendingar um það, hvernig leysa ætti þau skattatæknilegu vandamál í sambandi við samþykkt þessa frv., sem ég benti á í ræðu minni áðan. Ég er því, síður en svo, andvígur að það vandamál sé leyst, sem yfirvinnutill. var ætlað að leysa. En ég er andvígur þeim vinnubrögðum, sem höfð hafa verið í þessu efni og tel ég þau ekki samboðin virðingu hins háa Alþingis. Með tilliti til þess hins vegar, að hvað meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir, snertir, þá eru í rauninni allir sammála um, að þau ákvæði beri að samþykkja og verði að samþykkja á þessu þingi, en þar sem svo er áliðið þings, þá er vitað mál, að frv. í heild yrði stofnað í mikla hættu, ef hv. d. færi nú að gera breytingar á því, með tilliti til þessa mun ég með þeim fyrirvara, sem ég hef lýst í þessu efni, ekki sjá mér annað fært, en greiða frv. atkv. í von þess, — því miður get ég ekki sagt í trausti þess, en í von þess, að takast megi að leysa þau vandkvæði, sem hér eru á, á þeim tveimur þingum, sem haldin verða síðar á árinu, en ekki er gert ráð fyrir að ákvæði þessara till. komi til framkvæmda fyrr, en eftir næstu áramót.