30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. meiri hl. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, langaði aðeins til að taka fram örfá atriði í sambandi við það, sem fram hefur komið í umr.

Mér fannst á hv. þm. V-Húnv., að hann væri eiginlega á móti því, að afskipti ríkisvaldsins þyrftu að vera eins mikil og þau hafa verið að undanförnu af þeim samningum, sem hefur þurft að gera vegna útflutningsframleiðslunnar. Mér fannst hann tala eins og þetta væri eitthvað nýtt. Það er nú ekki í fyrsta sinn í ár eða í fyrra, sem þetta hefur verið gert. Mig minnir, að það séu nú orðin nokkur ár, síðan á þessu var byrjað. Það getur verið atriði út af fyrir sig, að það sé ekki æskilegt, að þessi háttur sé hafður á. En mér fannst ég ekki verða var við, hvað hv. þm. vill þá gera, hvaða aðferð hann vill hafa til þess að koma þessum aðalatvinnuvegum áfram, miðað við það, sem gert hefur verið á undanförnum árum. Sjálfsagt eru ýmsar leiðir til, en mér fyrir mitt leyti þætti gaman að vita, hvað það er þá, sem á að gera, ef ekki á að fara þessa leið, sem farin hefur verið, að greiða útflutningsatvinnuvegunum bætur og verða að semja um þetta um hver áramót.

Annað atriðið var það, að mér fannst ég höggva eftir því hjá hv. þm., að hann taldi allar líkur benda til þess, að hátollavörur mundu sitja í fyrirrúmi um innflutning og gera mætti ráð fyrir skorti á nauðsynjavörum. Þetta hygg ég að sé mjög mikill misskilningur. Sú innflutningsáætlun, sem gerð hefur verið, gerir ráð fyrir svipuðum innflutningi af hátollavörum og gert var ráð fyrir á árinu, sem leið, og heildarinnflutningsáætlunin miðað við þetta ár er álíka há og hún var í fyrra. Það er því ekki verið að fara nú inn á neitt nýtt í þessu efni, heldur verið að fara svipaða leið og farin var í fyrra í sambandi við hinn almenna vöruinnflutning.

Hv. 2. þm. S-M. hefur mikla vantrú á tekjumöguleikum útflutningssjóðs. Sjálfsagt verður reynslan að skera úr því, hvernig það reynist, sem gert er ráð fyrir að verði tekjur útflutningssjóðs. Mér finnst ekki sanngjarnt að ætlast til þess, að þær greiðslur, sem eiga að koma úr ríkissjóði, verði ekki inntar af hendi fyrr, en seint á árinu eða í lok ársins. Ég sé ekki neina skynsamlega ástæðu til að gera ráð fyrir því, enda fannst mér rök vanta til þess að sannfæra a. m. k. mig um það. Ég geri ráð fyrir, að þessar greiðslur gangi eðlilegan gang, eftir því sem upphæðin gefur tilefni til og sjálfsagt verður það eitthvað mánaðarlega og ekki þykir mér alveg útilokað, að stjórn útflutningssjóðs og fjmrn. kunni að komast að einhverju samkomulagi um, hvernig þessum greiðslum verður háttað.

Að hinu leytinu til þótti hv. þm. mikill vafi leika á því, að sá aukni bílainnflutningur, sem gert er ráð fyrir, gæti orðið. Hv. þm. var viðskmrh. fyrir stuttu og ég geri ráð fyrir því, að hann hafi stundum þá orðið, eins og allir þeir, sem nálægt þessum innflutningsmálum koma, og raunar margir þm. líka, var við mikla eftirspurn eftir bifreiðum og beiðnir um að reyna að útvega leyfi fyrir bifreiðum. Eins og ég sagði áðan, hefur eftirspurnin eftir þessum tækjum verið ákaflega mikil og rétt er að hafa það í huga, að hér er ekki verið að flytja inn nein ónýt tæki eða einskis nýt. Vissulega koma þessi tæki að gagni og vissulega er það mikils um vert í raun og veru að geta flutt inn sæmilega til viðhalds af bifreiðum. Það hefur undanfarin ár verið ákaflega erfitt að gera þetta vegna gjaldeyrisörðugleika og hefur mjög verið haldið í þessi leyfi, bæði innflutningsleyfi og gjaldeyris- og innflutningsleyfi. En aukningin er, eins og ég sagði áðan, ekki ákaflega mikil og jafnvel þó að þessar áætlanir standist, þá verða ekki fluttir inn nema rúmlega 1.000 eða um 1.100 bílar á árinu, og mun það ekki vera óeðlilegur fjöldi bíla til viðhalds á bílakostinum.

En það kom fram í ræðu hv. þm., að hann taldi, að verðmæti gjaldeyrislausu bílanna mundi verða 18 millj. kr. Ég vil segja það, að mig brestur gersamlega möguleika á því að skilja, hvaðan þessi upphæð er komin. Eins og hann tók réttilega fram, er á s. l. ári flutt inn allmikið af gjaldeyrislausum bílum, eða 402. Þessir bílar kostuðu samtals eftir þeim skýrslum, sem í innflutningsskrifstofunni liggja, 6.593.727 kr. Mér er ómögulegt að sjá, hvernig það má vera, að þó að aukningin sé um 250 stykki, þá skuli það allt í einu vera komið upp í 18 millj. kr.

Þær reglur, sem farið hefur verið eftir í innflutningsskrifstofunni að undanförnu um úthlutun þessara svokölluðu gjaldeyrislausu bíla, hafa verið að ýmsu leyti nokkuð strangar og mér finnst í raun og veru, að þær hafi verið óþarflega og óeðlilega strangar. Á s. 1. ári voru, eins og hv. þm. nefndi, fluttir inn rúmlega 400 bílar. En ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að án þess að tekinn væri einn einasti bíll fyrir umboðslaunatekjur eða einn einasti bíll án þess, að nokkuð væri vafasamt um gjaldeyristekjurnar í sjálfu sér eftir þeim gögnum, sem fyrir væru lögð, þá hefði verið hægt að hafa þennan fjölda bíla tvöfaldan og ég hef meira að segja hugmynd um, að hv. þm., á meðan hann var ráðh., hafi stundum orðið fyrir því, að nokkuð hafi verið stíft eftir þessu gengið.

Ein af þeim reglum, sem við höfum farið eftir er, að 5 ár skuli líða milli þess, sem einstaklingar fái leyfi fyrir gjaldeyrislausum bílum. Nú er það vitað mál, að fjöldamargir, bæði á flugvélum og farskipum, hafa gjaldeyristekjur, sem nema tvöföldu bílverði, á hverju einasta ári, þ. e. a. s. yfirmenn á þessum farartækjum. Það virðist þess vegna ekki í raun og veru vera neitt, sem mælir á móti því, að þessir menn fái að ráðstafa þessum löglega fengna gjaldeyri sínum, eftir því sem þeir helzt vilja. Ég mundi t. d. mjög geta látið mér detta í hug, að þessari reglu væri mjög breytt og að það væri ekki haldið fast við það, að 5 ár skyldu líða milli þess, sem menn fengju leyfi, ef þeir hafa nægar gjaldeyristekjur. Við verðum að muna eftir því, að það er hópur manna í þjóðfélaginu, sem hefur u. þ. b. þriðjung af launum sínum í erlendum gjaldeyri og hefur leyfi til þess að ráðstafa honum, eins og hann vill, auk þess sem alltaf er svo talsvert um ýmsa aðra möguleika, svo sem að Íslendingar fá arf erlendis og eitt og annað af slíku tagi. Við höfum reynt að halda nokkuð í þetta, en ég geri ráð fyrir því, að þessar reglur verði gerðar nokkru rýmri nú, eftir að auka á þennan innflutning og mér finnst það í sjálfu sér ekki ósanngjarnt. Við vitum það allir, sem nálægt þessum málum höfum komið, að eftirspurnin eftir þessum bílum hefur verið svo mikil, að bílarnir, eftir að þeir hafa fengizt hjá einstökum mönnum, hafa verið seldir stórkostlega á yfirverði og ef hægt verður að fullnægja dálítið þessari eftirspurn, þá væri kannske hægt að gera sér vonir um, að þessi svarti markaður mundi eitthvað minnka og enginn ætti að sjá eftir því.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð miklu fleiri nú. — Hv. 2. þm. S-M. talaði um, að þetta frv. væri eingöngu til staðfestingar á því, sem þegar hefur verið gert. Það er mikið rétt. En nákvæmlega það sama minnir mig að ætti sér stað á s.l. ári. Þá voru gerðir samningar í byrjun ársins og voru svo ekki staðfestir, fyrr en í lok maí það ár, svo að hér er út af fyrir sig ekki verið að fara inn á neina nýja braut í því efni.