11.05.1959
Efri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. meiri hl. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, til l. um útflutningssjóð hefur alllengi legið fyrir þinginu, en mörgum þótti rétt, að séð yrði fyrir um afgreiðslu fjárlaga, áður en málið yrði endanlega afgreitt.

Fjhn. hefur, eins og á þskj. 500 segir, ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Tveir nm., hv. 1. þm. Eyf. (BSt) og hv. 8. landsk. þm. (BjörnJ), tóku ekki afstöðu til málsins í n., en við þrír, hv. 6. þm. Reykv. (GTh), hv. þm. Vestm. (JJós) og ég, leggjum til, að frv. verði samþ., eins og á þskj. 500 segir í nál. þar.

Ég tel rétt, þó að miklar umr. hafi þegar farið fram á opinberum vettvangi um málið, hv. dm. til glöggvunar að lesa þær tölulegu upplýsingar, sem fyrir liggja um aukin útgjöld útflutningssjóðs og hvernig ætlað er að mæta þeim auknu útgjöldum.

Hin auknu útgjöld eru svo sem hér segir: Sjóvátryggingaiðgjöld 25,7 millj., bráðafúatryggingaiðgjöld báta fyrir árið 1959 7,3 millj., sama fyrir árið 1958 4 millj., sérbætur til vinnslustöðva 20,7 millj., niðurgreiðsla á beitu 1,8 millj., bætur til báta og togara og vinnslustöðva vegna vísitölu 202 í janúar 9,8 millj., hækkun bóta á síld 1/1–15/5 þessa árs 0,7 millj., hækkun bóta á sumar- og haustsíld umfram greiðslu trygginga fyrir bátana 5,5 millj., hækkun bóta á útfluttar landbúnaðarafurðir 7,5 millj. Samtals eru þetta 82,3 millj.

Gjöld vegna niðurgreiðslna eru þannig: Niðurgreiðslur, sem tóku gildi 1. jan. 1959, 83,3 millj., niðurgreiðslur, sem tóku gildi 1. marz 1959, 25,8 millj., hækkun vegna aukinnar neyzlu niðurgreiddra vara 7,6 millj., eða samtals 116,7 millj. vegna þessara liða.

Þetta hvort tveggja nemur samtals um 199 millj. kr. í auknum útgjöldum útflutningssjóðs. Tekjur til þess að mæta þessum gjöldum er áætlað að afla á eftirfarandi hátt:

Hækkun leyfisgjalda af bílum 30,4 millj., niðurfelling á greiðslu til ríkissjóðs 20 millj., fjárveiting skv. fjárlögum 152,1 millj., samtals 202,5 millj.

Varðandi stöðu útflutningssjóðs þykir mér rétt að vitna hér í einn stuttan kafla úr skýrslu Jónasar Haralz ráðuneytisstjóra í viðskmrn., en hann segir þar m. a.:

„Er lög um útflutningssjóð voru sett í maímánuði 1958, var ráð fyrir því gert, að rekstur sjóðsins gæti verið hallalaus með þeim gjöldum og tekjum, er þau l. gerðu ráð fyrir. Það var þó ljóst frá upphafi, að þetta gat því aðeins staðizt, að gjaldeyristekjur væru háar og notkun erlends lánsfjár mikil og þar af leiðandi væri hægt að halda uppi miklum innflutningi á hágjaldavörum.

Reynsla sú, sem fengizt hefur af starfsemi sjóðsins í hartnær eitt ár, staðfestir þetta í öllum aðalatriðum. Þrátt fyrir mikinn útflutning og mikla notkun erlends lánsfjár á árinu 1958 var innflutningur hágjaldavöru ekki eins mikill og áætlað hafði verið, þegar l. um útflutningssjóð voru sett. Staða sjóðsins á árinu batnaði þó um hér um bil 40 millj., vegna þess að síðari hluta ársins fékk sjóðurinn tekjur skv. hinum nýju l., en innti gjöld lengi vel eftir hinum gömlu. Á þeim hluta ársins 1959, sem liðinn er, hefur staða sjóðsins aftur versnað verulega. Stafar þetta af því, að allmiklar greiðslur hafa á sjóðinn fallið skv. þeim bótum, sem ákveðnar voru með l. um útflutningssjóð á s. 1. ári og niðurgreiðslur hafa verið auknar, en einnig af því, að innflutningur hágjaldavöru hefur verið lágur á fyrstu mánuðum ársins.

Ríkisstj. hefur nýlega í samráði við seðlabankann lokið við samningu greiðslujafnaðar- og innflutningsáætlunar fyrir árið 1959 og hafa innflutningsskrifstofan og bankarnir nú byrjað að starfa á grundvelli þessara áætlana. Stefna þessara áætlana miðar m. a. að því að tryggja nógu mikinn innflutning hágjaldavöru á árinu 1959, til þess að áætlanir þær, sem upphaflega voru gerðar um afkomu útflutningssjóðs á s. l. vori, fái staðizt, þ. e. a. s. að sjóðurinn verði hallalaus með þeim tekjum og gjöldum, er þá voru ákveðin“.

Ég læt þessi orð mín nægja sem framsögu fyrir málinu, en vil aðeins að lokum geta þess, að fyrir n. lá bréf frá Læknafélagi Íslands, þar sem óskað er undanþágu á þeim gjöldum, sem frv. gerir ráð fyrir á bifreiðar til lækna. En okkur í meiri hl. þótti ekki mögulegt að fallast á það, með tilliti til þess, að margir aðrir gætu átt hliðstæðar kröfur á slíkri undanþágu og ógerlegt væri fyrir okkur að meta það, hverjum af þeim ætti að sinna.

Ég ítreka svo að lokum það, sem ég sagði í upphafi, að við í meiri hl., eins og segir á þskj. 500, leggjum til, að frv. verði samþ.