13.05.1959
Neðri deild: 127. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. meiri hl. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Það er aðeins út af því atriði, sem hefur verið bætt inn í frv. í hv. Ed., sem mig langaði til að segja örfá orð.

Till. þessa efnis að nokkru leyti hafði komið fram í þessari hv. d., en ekki hlotið samþykki, en svo hafði till. aftur komið sama efnis í Ed. og verið þar samþ. Þar sem svo stendur á, eins og hv. þm. er kunnugt, að gert er ráð fyrir stuttum tíma til afgreiðslu á málinu, þá eru sjálfsagt ekki miklir möguleikar á því að breyta þessu mikið, úr því sem komið er. En það verð ég að segja, að mér lízt heldur ógiftusamlega á að vinna eftir þessu, eins og það er nú orðið.

Út af fyrir sig með það atriði að lækka gjaldið á bílum til atvinnubifreiðastjóra, þá er það auðvitað framkvæmanlegt og ekkert við því að segja í sjálfu sér. En um hitt atriðið, að tiltaka vissan fjölda af innflutnings- og gjaldeyrisleyfum, í fyrsta lagi til þeirra, sem hafa gjaldeyristekjur, að það skuli vera 100 af þeim, sem eiga að fá lægri skatt, en allir hinir, þá er ég hræddur um, að það kunni að vefjast fyrir okkur í innflutningsskrifstofunni að ákveða og sé ég ekki í raun og veru, hvernig hugsað er eða eftir hvaða reglum hugsað er að fara með það. Mér sýnist það vera mjög erfitt mál.

Svo er gert ráð fyrir, sem hefur verið bætt inn í, í hv. Ed., að það skuli veitt 100 innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til báta- og togarasjómanna með fullu gjaldi. Báta- og togarasjómenn hafa vitanlega fengið leyfi með fullu gjaldi, alveg eins og aðrir, og ég sé ekki, hver tilgangurinn með þessu eiginlega er, nema þá sá einn að tryggja töluna.

Mér sýnist þetta allt saman vera þannig vaxið, að ég er hræddur um, að það verði býsna erfitt í framkvæmdinni að uppfylla þessi töluákvæði, sem þarna eru. Það koma dagar, það koma ráð. Það getur vel verið, að það sé kannske einhvern veginn hægt að leysa þetta og með því, hvað málið er að öðru leyti stórt, þá ætla ég ekki að gera á þessu stigi brtt. En ég vil benda á það, að mér sýnist þetta ákaflega hæpið, að hengja svona hluti þarna aftan í, og ég veit ekki, hvort þeir, sem fluttu þetta hér upphaflega í þessari hv. d., gætu gefið einhverjar ábendingar um það, hvernig þeir hugsa að unnið sé eftir þessu. En hvað sem því líður, þá vefst það mjög fyrir mér, hvernig þetta á að framkvæmast, en sé hins vegar ekki möguleika á því að breyta þessu.