29.01.1959
Neðri deild: 66. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

91. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Skömmu fyrir áramót var veitt heimild til þess að inna af höndum lögboðnar greiðslur úr ríkissjóði í janúarmánuði þetta ár, þótt ekki væri búið að afgr. fjárl. Nú hefur komið í ljós, að sökum mikils annríkis hjá ríkisstj. hefur ekki unnizt tími til að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu, til þess að hægt væri að afgr. fjárl. fyrir lok janúarmánaðar. Von er til þess, að þetta geti tekizt í næsta mánuði, þó að ekki sé hægt um það að fullyrða á þessari stund. En til þess að hægt sé að inna af höndum nauðsynlegar greiðslur úr ríkissjóði eftir lok janúarmánaðar, þótt fjárlög séu ekki afgreidd, er þetta frv. fram borið og óskað eftir heimild til þess, að það megi gera til loka marz mánaðar.