15.01.1959
Efri deild: 49. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

35. mál, dýralæknar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er gamall kunningi. Það var flutt á síðasta þingi í Nd., kom þá hingað til Ed. og var hér rætt og athugað og þá afgreitt, eftir að fram voru komnar við það tvær brtt., — þær sömu og nú liggja aftur fyrir við þetta frv., — með rökstuddri dagskrá, þar sem óskað var eftir eða ætlazt til, að færi fram endurskoðun á lögunum í heild um skipun dýralæknanna, þar sem vitað var, að sá dýralæknisfjöldi, sem nú er í landinu og eins og hann er staðsettur nú í landinu, er ónógur og kemur að því fyrr eða síðar, að það þarf að fjölga þeim. Þetta hefur ekki verið gert. Það hefur engin heildarendurskoðun farið fram á skipun dýralæknanna. En frv. er nú komið til okkar aftur og aftur frá Nd., og hér hafa aftur komið fram sömu tvær brtt. og fram komu við það í fyrra, a. m. k. í aðalatriðum, þó að önnur þeirra sé svolítið öðruvísi.

Við athugun á þessu máli núna kom það í ljós eftir ýtarlegt samtal við yfirdýralækninn, að þó að skipulagið allt kunni að verða endurskoðað og verði áreiðanlega endurskoðað, þá raska þessi þrjú dýralæknisembætti, sem hér er lagt til að verði tekin upp, ekki þeirri endurskoðun.

Á svæðinu, sem hér er um að ræða, Austurlandssvæðinu, þar sem dýralæknirinn nú situr á Egilsstöðum og einn fyrir allt svæðið, endurskoðun þar mun ekki í náinni framtíð leiða annað í ljós, en það þurfi annan dýralækni á sunnanvert svæðið, eins og gert er ráð fyrir hér.

Endurskoðun á Suðurlandsundirlendinu mundi að líkindum ekki heldur leiða annað í ljós, en að tekið væri nokkuð af svæði, Rangárvallasýslusvæðinu, eða því skipt, eins og hér er lagt til. Að vísu er Rangárvallasýslusvæðið enn þá svo stórt, að dýralæknirinn, sem nú situr á Hellu, hefur yfir helmingi fleira búfé á svæði sínu, en talið er að dýralæknir geti komizt yfir að gegna, svo að það mun koma í ekki mjög fjarlægri framtíð tillaga um að skipta því enn. En alltaf mundi verða skipt austan af því, eins og hér er gert í þessum brtt.

Og Vestfjarðasvæðinu, sem er allt of stórt og fyrirferðarmikið fyrir einn dýralækni, mundi, hvenær sem lögin yrðu endurskoðuð, líka verða skipt.

Þess vegna er það, sem hér er lagt til að samþ. verði í þessu frv., að nokkru leyti endurskoðun á dýralæknalögunum. Að vísu mundi svo Borgarfjarðar- og Mýrahéraðinu, héraði dýralæknisins, sem nú situr í Borgarnesi, því svæði mundi verða skipt tiltölulega fljótt, ég skal ekki segja hvenær. Húnavatnssýsludýralæknissvæðinu mundi líka verða skipt tiltölulega fljótt. En allar þær skiptingar, sem maður sér fram á að muni koma á næsta áratugnum eða svo, þær snerta ekki þetta landsvæði. Með samþykkt þessa frumvarps með okkar breytingum er endurskoðun þess lokið.

Það er þess vegna ekkert til fyrirstöðu fyrir því að samþ. þetta núna, því að það raskar ekki þeirri heildarendurskipun, sem verður á dýralæknunum einhvern tíma í náinni framtíð. Nú gat samt komið til mála að gera ekkert við málið, fara með það svipað og við fórum með það í fyrra. Við gerum það þó ekki núna. Við beygjum okkur fyrir óskum manna í þessum kjördæmum að fá dýralæknana og fá þessar breytingar fram, sem má skoða sem byrjun á endurskoðun á skipulagningu dýralæknanna, og gerum það af fleiri ástæðum. Við gerum það fyrst og fremst af því, að það er gott fyrir mennina, sem fara í dýralæknisnám, að vita, að til séu hér á landi óveitt embætti, sem beint bíði eftir þeim. Það hætti einn dýralæknir, sem kominn var á síðasta hluta, núna í haust, af því að hann taldi, að það væri ekkert fyrir dýralækni að gera hér á landi. Nú er að vísu eitt dýralæknisembætti óveitt, svo að rök hans fyrir því að hætta, þegar hann ber þessu við, eru ekki alger, það hefur sjálfsagt eitthvað fleira blandazt þar inn í, sem mér er ekki kunnugt um.

Nú sem stendur eru nokkrir menn við dýralæknisnám, og sá fyrsti kemur á árinu 1960, er búinn þá, ef hann lifir og ekkert kemur fyrir hann. Svo koma þeir úr því hver af öðrum, og eftir 4–5 ár ættu þessi dýralæknisembætti að vera setin. Það mætti þess vegna frá því sjónarmiði segja, að það væri nokkuð sama, hvort frv. verði samþ. eða ekki samþ. Þau lög baka ríkissjóði engin útgjöld, það er enginn maður til í embættin á árinu, sem í hönd fer og fjárl. verða samþ. fyrir einhvern tíma í vetur, vona ég, og að því leyti gerði það ekkert til. En það er fyrst og fremst til að koma á móti mönnunum, sem vilja fá dýralæknana, á pappírnum, og meira getum við ekki gert og í öðru lagi til þess að sýna þeim, sem eru við nám, að þarna bíði þeirra starf, sem beinlínis þeir geti átt víst að fara í, ef þeir standa sig sæmilega í sínu námi og ná tilskildum prófum.

Vegna þessa leggjum við núna til, að þetta frv. sé samþ. með breytingum og séu þá tekin upp í lögin 3 ný dýralæknisumdæmi. Við höfum svolítið breytt þeim frá frv. og till., sem fyrir liggja, og gerum það með tilliti til þess, sem yfirdýralæknir telur heppilegast og líklegt að mundi verða, ef dýralæknisskipunin í landinu í heild væri endurskoðuð og dýralæknisumdæmunum breytt. Við bætum við Austur-Skaftafellsumdæmið, sem er í frv. sjálfu, 2 hreppum í Suður-Múlasýslu, svo að það nái yfir Austur-Skaftafellssýsluna og Suður-Múlasýsluna að Breiðdalsheiði. Því skal ekki neitað, að þetta svæði er samt sem áður svo skepnufátt, að það er ekki talið, að það heimti fullkominn mann, — að hann hafi nóg að gera, sá maður, sem í það fer. Hins vegar er á hitt að líta, að það er stórt yfirferðar, byggðin er dreifð þar og þess vegna tekur það hann meiri tíma, en ella, að vitja um sjúkar skepnur, þegar hann er sóttur til þeirra, og samgöngur dálítið erfiðar, svo að við teljum, að rétt sé að setja þar dýralækni, eins og menn óska, en bætum sem sagt við hans svæði tveimur hreppum í Suður-Múlasýslu og förum að Breiðdalsheiðinni, sem við látum skilja svæðin, en hún er ævinlega ófær að vetrinum og oft illfær líka vor og haust og þægilegra að ná þá í dýralækni frá Egilsstöðum fyrir þann hlutann, sem ofar er í héraðinu.

Þá tökum við upp dýralækni í Vestur-Skaftafellssýslu eftir till. þm. þaðan og ósk manna þar heima fyrir, en til þess að hann hafi fullkomið starf, eftir því sem talið er að dýralæknar þurfi að hafa, miðað við tölu þeirra skepna, sem þeir eiga að lækna, ef þær kynnu að veikjast, þá bætum við, við hann einum hreppi úr Rangárvallasýslu og látum hann hafa hann með og það er sama skipun og t. d. er hvað lækna snertir, því að læknirinn í Vík í Mýrdal er látinn hafa þann hrepp með, og það er líka styttra í hann úr Vík en frá Hellu. Það er því að öllu leyti eðlilegra, að Austur-Eyjafjallahreppur sé þar með, og með því að hafa hann með, þá hefur dýralæknir, sem sezt að í Vík, þegar alveg fullkomið verk.

Þá er þriðja umdæmið, sem við búum til í Barðastrandarsýslunni. Við tökum part af Vestur-Ísafjarðarsýslunni og part af Vestur-Barðastrandarsýslunni og bætum við Barðastrandarumdæmið í tillögunum, sem annars hefði verið næstum Barðastrandarsýsla ein. Þarna er ákaflega víðlent svæði um að ræða og erfitt yfirferðar. Skepnurnar á svæðinu eru heldur fáar, fullfáar til þess, að læknir hafi þar nóg að starfa, en víðlendið og erfiðleikarnir á samgöngum réttlæta þó að setja þar dýralækni, enda er það álit yfirdýralæknisins, að ef Vestfjörðunum yrði skipt, þá yrði þeim alltaf skipt eins og tillaga okkar gerir ráð fyrir.

Ég tel mig þá hafa gert nokkurn veginn grein fyrir því, hvernig stendur á því, að við nú leggjum til, að þetta frv. sé samþykkt og búin til þarna þrjú ný dýralæknisembætti á pappírnum, þó að við ekki gerðum það í fyrra. Ég skal ekkert segja, hvað við hefðum gert, hefði endurskoðun farið fram og legið hér fyrir að stofna fleiri í viðbót við þessi þrjú, sem hér eru tekin upp nú, en þá hefði líklega orðið að kljúfa Húnavatnssýsluumdæmið, Vestur-Húnavatnssýslan og Strandasýslan væri sett sér og Austur-Húnavatnssýslan sér, og kljúfa Borgarfjarðarumdæmið með því að láta dýralækni trúlega koma á Akranes eða a. m. k. skipta því svæði, sem núna nær yfir meginið af Snæfells- og Hnappadalssýslu, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, skipta því í tvennt, sem líka áreiðanlega verður gert bráðlega og líklega líka að setja annan dýralækni á Akureyri, því að þar er skepnufjöldinn orðinn langt fram yfir það, sem einn maður kemst yfir. Þeir eru að vísu tveir nú, því að dýralæknirinn þar hefur tekið sér fastan aðstoðarmann til að geta komizt yfir það og borgar honum úr eigin vasa, en hefur líka í staðinn tekið að sér eftirlit með sæðingunum og fær fyrir það frá Eyfirðingum sjálfum 30 þús. kr. upp í laun aðstoðardýralæknisins, sem hann hefur á sínum launum.

Ég skal ekkert segja um það, hvað hefði verið gert, ef endurskoðunin hefði legið fyrir og legið fyrir, að það þyrfti að bæta við, a. m. k. sex, — ég segi a. m. k. sex, því að ég geri ráð fyrir, að þeim þyrfti að fjölga meira, líklega einum enn, einmitt hérna á Suðurlandinu, því þó að þeir séu komnir tveir í Árnessýsluna, sem hefur á níunda þúsund nautgripi, þá er það miklu meira en tveir menn geta komizt yfir að sinna, enda er dýralæknirinn á Selfossi eiginlega ekki nokkurn dag á árinu heima, — ég skal ekki segja, hvað við hefðum þá gert. Þetta lá nú ekki fyrir, fullkomin endurskoðun hafði ekki farið fram. En með tilliti til þess, að þessi þrjú svæði munu öll koma, þegar endurskoðun fer fram, þá sjáum við ekkert athugavert við að samþykkja það nú þegar til þess að herða á þeim, sem við nám eru, að ljúka sínu námi sem fyrst og koma til aðstoðar þeim mönnum, sem á þessu svæði búa og þeim, sem þeir eiga seinna að þjóna.

Við leggjum því til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem það hefur tekið. — Það er rétt að geta þess líka, að þegar lögunum hefur verið breytt 1955, hefur fallið úr ein lína einhvers staðar. Nú skal ég ekki fullyrða neitt um, hvar hún hefur fallið niður, ég hef ekki nennt að fara í að rannsaka það. Það var í gömlu dýralækningalögunum frá 1947 og búið að vera afskaplega lengi, að ráðherra skuli ákveða, hvar dýralæknirinn búi, hvar hans búseta sé í umdæminu. Þessi lína hljóðar svona: „Landbúnaðarráðherra ákveður, hvar héraðsdýralæknir skuli hafa búsetu“. Hún hefur fallið niður, þegar lögunum var breytt 1955. Það er sama, hvar hún hefur fallið niður. Ég hef ekki nennt að rannsaka það, hvort hún hefur fallið niður í prentun eða fallið niður hjá annarri hvorri nefndinni hér í d., en það hefur aldrei verið meining nokkurs manns, að þeir fengju að ráða sjálfir, hvar þeir sætu í héraðinu, heldur yrði ráðherra alltaf að ákveða það. Við leggjum því til, að þessi lína verði aftur sett í frumvarpið. Ég gleymdi því, þegar við vorum á nefndarfundunum, að skýra frá þessu, en veit, að allir nefndarmennirnir eru með því að bæta þessu inn í, þó að ég gerði það sjálfur, um leið og ég samdi frv., því að þetta er sjálfsagt og áreiðanlega fyrir klaufaskap einhvers, að það hefur dottið úr 1955, þegar lögunum var breytt.