12.02.1959
Efri deild: 68. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

106. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. flytur þetta frv., sem er um viðauka við lög nr. 64 2. sept. 1955, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hún flytur það eftir beiðni fjmrn., en nm. hafa áskilið sér óbundin atkvæði um málið, enda fór lítil athugun á málinu fram, þegar nefndin ákvað að verða við beiðni rn. um að flytja það. Nefndin flytur frv. óbreytt að efni til, eins og það kom frá rn., gerði á því aðeins litla formsbreytingu þannig að gera síðustu setninguna um gildistöku laganna að sérstakri grein, eins og siður er til, en eins og frv. kom frá ráðuneytinu, var það ein grein.

Í efnisgrein frv. er um tvö atriði að ræða, enda er greinin í tveimur málsgr. Fyrri málsgr. er um það, að ef sjóðfélagi verður að láta af stöðu sinni vegna heilsubrests, en tekur síðar við starfinu aftur eða starfi, sem veitir aðgang að sjóðnum, þá sé honum heimilt að kaupa réttindi fyrir þann tíma, sem úr hefur fallið og í öðru lagi, að þegar svo stendur á, að sjóðfélagi verður sökum heilsubrests að láta af stöðu sinni, en tekur þá eða síðar við léttara og lægra launuðu starfi, má reikna eftirlaun hans af því starfinu, sem hærra var launað. Síðan er sagt, að stjórn sjóðsins geti krafizt vottorðs hjá tryggingayfirlækni til sönnunar því, að um heilsubrest sé að ræða.

Síðari mgr. 1. gr. er um annað efni. Hún er um það, að þeir menn, sem eru á eftirlaunum samkv. eldri lögum, sem kveða svo á, að 95 ára samanlagður ævialdur og embættisaldur veiti rétt til eftirlauna, megi halda þessum rétti og geti þar af leiðandi fengið full eftirlaun áfram. Ég hygg við lauslega athugun, að þessi síðari málsgr. sé í sjálfu sér óþörf, því að embættismenn á eftirlaunum, sem tóku eftirlaun samkv. eldri lögum, hafi þennan rétt. Og eftir grg. að dæma mun hafa fallið hæstaréttardómur um það að því er varðar barnakennara, en lögin um lífeyrissjóð embættismanna og lífeyrissjóð barnakennara eru alveg hliðstæð að þessu leyti. En sjálfsagt gerir það ekki skaða, að slík lagaákvæði séu til í samræmi við þennan hæstaréttardóm, þó að það kunni svo að vera, að það sé engin nauðsyn að setja þetta lagaákvæði.

Eins og frv. ber með sér, er það flutt af fjhn. Ég sé því enga ástæðu til að gera till. um að vísa því til n., en ég mun sem formaður fjhn. taka þetta frv. fyrir á nefndarfundi og gefa n. kost á að athuga það nánar og ekki taka það á dagskrá til 2. umr., fyrr en n. hefur lokið þeirri athugun.