16.02.1959
Efri deild: 70. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

106. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og ég lýsti yfir við 1. umr. þessa máls, að fjhn. mundi taka frv. til athugunar eftir umr., þó að hún hefði flutt það, þá hefur nefndin og gert það, athugað frv. nokkuð, og auk þess hef ég átt tal við ráðuneytisstjórann í fjmrn., sem vísaði að þessu leyti öllum veg og vanda frá sér til stjórnar sjóðsins, því að ráðuneytið tók við frv. frá sjóðsstjórninni og bað fjhn. að flytja það eins og sjóðsstjórnin hafði frá því gengið, — og átti ég svo tvívegis tal við fulltrúa í stjórnarráðinu, Kjartan Ragnars, en hann á sæti í stjórn lífeyrissjóðsins, og ræddi við hann einkum um þau atriði, sem athugasemdir höfðu verið gerðar við hér við 1. umr. málsins.

Hv. 1. þm. N-M. gat þess við 1. umr., að þegar hann gekk úr beinni þjónustu ríkisins sem skólastjóri á Hólum og réðst til Búnaðarfélagsins, þá hefði hann gert það með því skilyrði, að hann héldi sínum eftirlaunarétti og yrði áfram sjóðfélagi í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Þetta var veitt og yfirleitt Búnaðarfélaginu veittur réttur til þess fyrir sína starfsmenn og var það heimilt, eins og lögin voru þá, þegar þetta var gert. En þegar fleiri fóru að sækja á það að fá þennan rétt, var sú heimild afnumin og það að tilhlutun sjóðsstjórnarinnar, því að henni fannst það vera ákaflega erfitt í framkvæmd og hætt við misræmi, ef það yrði haft svo, að fleiri aðilar, en opinberir starfsmenn og þeir, sem þá höfðu fengið réttindi til að vera í sjóðnum, væru með.

Í sambandi við þetta skal ég geta þess, að nefndinni barst erindi frá áburðarverksmiðjunni eða stjórn hennar, þar sem hún fór fram á það, að lögunum yrði breytt á þá leið, að starfsmenn áburðarverksmiðjunnar gætu verið sjóðfélagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, og færði það til, sem auðvitað er rétt, að það er ekki mikill munur á áburðarverksmiðjunni, þó að hún sé að forminu til hlutafélag, og ýmsum ríkisstofnunum, sem ekki orkar tvímælis um að hafa rétt til að hafa sína menn sem sjóðfélaga. En sjóðsstjórnin, eftir því sem Kjartan Ragnars sagði mér, lagði eindregið á móti því. Þessi ósk áburðarverksmiðjunnar hafði verið borin fram á þeim árum, þegar Steingrímur Steinþórsson var landbrh., og var mér afhent bréf frá verksmiðjustjórninni til hans, þar sem farið var fram á, að starfsmenn áburðarverksmiðjunnar fengju þennan rétt. En sjóðsstjórnin hafði þá mælt á móti þessu og þess vegna ekki orðið af því, að þetta væri borið fram. Fjhn. sá sér því ekki fært að verða við þessari beiðni, en vitanlega hefur hver einstakur þdm. fullan rétt til þess að taka upp brtt. um þetta, ef mönnum þykir það henta.

Út af því, sem hv. þm. Barð, sagði við 1. umr. um, hvaða rétt hann hefði í sambandi við þetta sem fyrrv. barnakennari, þá upplýstist það, að hann hefur fullan rétt til að fá eftirlaun, þegar hann er 65 ára, en vitanlega verða þau eftirlaun miðuð við hans starfstíma og þar af leiðandi getur hann ekki búizt við miklum eftirlaunum, miðað við þau laun, sem hann hafði þá, og þann starfstíma, sem hann innti af höndum. En hitt er vitanlega fráleitt, að hann geti keypt sér fullan rétt, eins og hann hefði alltaf verið barnakennari, nema þá því aðeins að hann gerðist kennari aftur, þá ætti hann samkvæmt fyrri mgr. 1. gr. að geta keypt sér fullan rétt.

Það kom töluvert til orða við 1. umr. málsins, hvernig ætti að skilja tvö atriði í 1. mgr. 1. gr. Í fyrsta lagi um það, þar sem heimilað er, að sjóðfélagi, sem lætur af stöðu vegna heilsubrests, en tekur síðan aftur við starfi, sem veitir aðgang að sjóðnum, megi kaupa sér réttindi fyrir þann tíma, sem úr hefur fallið, hvort þetta að kaupa réttindi bæri að skilja svo, að hann ætti að greiða aðeins þau 4%, sem sjóðfélaga ber að greiða, ellegar jafnframt það, sem ríkinu ber að greiða á móti, sem eru 6%, samtals þá 10%. Ég fékk þær upplýsingar, að sjóðsstjórnin hefði haft þetta opið, vitandi vits og með vilja, því að þeir telja hentugra, að þetta verði ákveðið í hverju einstöku tilfelli og að sjálfsögðu ber að skilja það þannig, að sú stofnun, sem maðurinn vinnur hjá, geti, ef stjórn hennar gerir um það löglega samþykkt, greitt þessi 6% og hjálpað manninum þannig til að kaupa réttindi. Hitt atriðið var um það, þegar svo stendur á, að sjóðfélagi verður sökum heilsubrests að láta af stöðu sinni, en tekur síðar léttara starf og lægra launað, að þá megi reikna honum eftirlaun samkvæmt hinu hærra launaða starfi. Við þetta gerir nefndin tvær breytingar, þannig að hún leggur til að umorða 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. Í fyrsta lagi að fella úr orðið „léttara“, — „tekur síðan við léttara og lægra launuðu starfi“ — láta nægja að segja „lægra launuðu starfi“, því að það getur staðið svo á, að þó að maður hafi ekki heilsu til að gegna ákveðnu starfi og verði að láta af því og taki við öðru, þá geti hann haft heilsu til að gegna því, þó að það sé í sjálfu sér ekkert léttara. Mér detta í hug í þessu sambandi sérstaklega gjaldkerar. Það er oft, að menn, sem að einhverju leyti eru taugaveiklaðir, þola illa að vera gjaldkerar, en geta vel gegnt í sömu stofnun öðru starfi, þó að það sé ekki hægt að kalla þau störf léttari almennt séð og svo getur verið í fleiri tilfellum. Einn nm. benti, þegar nefndin ræddi um þetta, á starf, sem krefst þess, að menn vaki á næturnar. Þó að það sé létt, getur komið fyrir, að menn þoli alls ekki að vaka á næturnar og þoli betur að taka við starfi að deginum, þó að það sé í sjálfu sér erfiðara. Hitt atriðið, sem breytt er með þessari umorðun, er að bæta inn á eftir orðunum: „má reikna eftirlaun hans af því starfinu, sem hærra var launað“, orðunum: „enda hafi hann greitt iðgjöld samkvæmt því.“ M. ö. o.: ef hann vill njóta þessa réttar, ber sjóðfélaganum að greiða iðgjöld eins og hann gegni hærra launaða starfinu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Það getur vel verið, að málið þyrfti nánari athugunar við. En ég geri ráð fyrir, að ef frekari breytingar verða gerðar, þá verði það á móti ráðum þeirrar nefndar eða stjórnar, sem hefur með lífeyrissjóðinn að gera.