20.11.1958
Neðri deild: 25. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Við höfum 5 þm. í hv. Nd. leyft okkur að bera fram það frv., sem er á þskj. 75, 45. mál, um breyt. á l. um stofnun búnaðarmálasjóðs. Þetta er í raun og veru ekki nýtt mál hér. Þetta frv. lá fyrir Alþ. í fyrra, en eitthvað þótti á skorta þá, að undirbúningur málsins væri slíkur, að rétt væri að láta málið ganga til úrslita hér á Alþ. og þó einkum það atriði, að fyrir lægju viljayfirlýsingar frá þeim stéttarsamtökum, sem hér er um að ræða, Búnaðarfélagi Íslands annars vegar og Stéttarsambandi bænda hins vegar um, að þessar stofnanir vildu taka á sig þau útgjöld, sem þarna er um að ræða. Af þeim ástæðum m. a. var það, að þeir menn, sem að þessu máli hafa staðið, töldu rétt að bíða með það til þessa þings.

Í grg. frv. er skýrt frá því, hvernig þessi tvö meginstéttarsamtök bændastéttarinnar á Íslandi hafa tekið í þetta mál. Tel ég ástæðulaust að fara að lesa það upp, því að hv. alþm. hafa það allir á þskj. 75. En hitt er enginn vafi, að langsamlega meginhluti fulltrúa, bæði á búnaðarþingi í fyrra og eins á aðalfundi Stéttarsambands bænda, sem haldinn var í haust, hefur mælt með því, að þessar byrðar yrðu lagðar á landbúnaðinn eða landbúnaðarframleiðendur, því að hér er aðeins um það að ræða, þetta er aðeins innheimtuaðferð, sem hér er um að ræða, og ekkert annað. Þetta er að sjálfsögðu alveg hliðstætt við gjöld, sem stéttarsamtök greiða hvert á sínum stað. Þau hafa iðgjöld í sín félög, sem ég hygg að séu alltaf miðuð við höfðatölu. En við erum það á undan í landbúnaðinum, að við ætlumst til, að þetta sé miðað við framleiðslumagn. Maður, sem hefur 50 kýr t. d., borgar 5 sinnum meira eða eitthvað nálægt því heldur en sá, sem hefur 10 kýr, svo að maður segi alveg eins og er. En sem sagt, þetta er bara miðað við brúttóframleiðsluna og gjald af því. Og hér er ekki um neitt annað að ræða í þessu sambandi, en að hv. Alþ. vilji leyfa, að þetta gjald verði innheimt á þann hátt, sem fyrir er lagt.

Ég hygg, að það sé rétt, að í fyrra, þegar þetta mál var hér til umr. og þá mun hv. landbn. þessarar d. hafa flutt málið og hv. samþingismaður minn, Jón Sigurðsson, haft framsögu fyrir hönd n., þá hafi verið komið með fsp. um hitt og annað varðandi þessa byggingu. Að sjálfsögðu fer þetta frv. nú til landbn. og að sjálfsögðu getur n. heimtað allar þær upplýsingar, sem hún óskar eftir í sambandi við þetta. En í raun og veru virðist mér það þó óþörf hnýsni, þar sem fyrir liggur jafnákveðin ósk bændastéttarinnar og nú liggur fyrir um það, að þetta verði ákveðið á þennan hátt, þ. e. a. s. stéttarsambandsgjald íslenzkra bænda til sinna félaga, alveg á sama hátt og tekið er gjald af félagsmönnum í Dagsbrún eða öðrum slíkum stéttarsamböndum sem hér er um að ræða. En ég get þó að sjálfsögðu gefið örlitlar upplýsingar um þetta.

Ég ætla ekki að fara að ræða um það húsnæði, sem Búnaðarfélag Íslands hefur, aðeins geta þess, að það hús var byggt um aldamótin, þótti þá mjög stórt í sniðum fyrir starfsemi Búnaðarfélags Íslands. En þróunin hefur orðið sú þau 50–60 ár, sem liðin eru, að vitanlega er fyrir löngu búið að sprengja húsnæðið utan af þeirri starfsemi, sem þá var, eins og vitanlega hlýtur að vera og það eru fá þingin hin síðustu ár, þar sem Búnaðarfélagi Íslands hefur ekki verið fyrirskipað að taka við vissum málum, málaflokkum, starfrækja þau fyrir hönd ríkisstj. Þetta höfum við reynt að leysa af hendi, en þetta hefur upp á síðkastið ekki verið hægt öðruvísi, en að leigja húsnæði hér og þar úti um bæinn. Nú er svo komið, að við höfum 3 útibú á þennan hátt: heila hæð á einum stað, mikið kjallarapláss á öðrum og í þriðja lagi skrifstofu fyrir einn af þeim starfsmönnum, sem okkur hefur síðast verið falið að taka á móti af hv. Alþ. og sjá um starfrækslu hans.

Þetta er e. t. v. það, sem Alþ. telur eðlilegt, en við gerum það ekki. Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda líta þannig á þetta mál, að það sé sjálfsagt að fá sameiginlegt húsnæði yfir þessar stofnanir, bæði hvað snertir hin faglegu verkefni og eins hvað snertir hin félagslegu verkefni þessara samtaka, á einum og sama stað. Og það hefur verið alger sameining milli þessara tveggja félagssamtaka um þetta mál. Þetta hefur verið lengi í undirbúningi, og vildi ég vona, að það rættist á því, að það, sem vel á að vanda, það skal lengi standa.

Við höfum fengið mjög ágæta lóð hér við Hagatorg og ég vil leyfa mér að þakka forráðamönnum Reykjavíkurbæjar fyrir þá lipurð, sem þeir hafa sýnt í því máli. Það hefur verið mjög lengi í meðförum, en ég gladdist yfir því, að ég fann hjá þeim ráðamönnum, að þeim þótti jafnvel vænt um, að höfuðheimili íslenzks landbúnaðar, þessara tveggja félagsmálastofnana, yrði hér í Reykjavík og á góðum stað. Og ég get ekki annað sagt, en þar hafi verið um mikla lipurð að ræða, því að þessar lóðir þarna við Hagatorg voru geysilega eftirsóttar. Hitt er annað mál, að þar var ekki hægt að reisa nema stórhýsi. Torgið er þannig hugsað, að annaðhvort varð að byggja þar stórhýsi eða hætta við það. En þessar stofnanir, sem ég hef áður nefnt, höfðu að yfirveguðu ráði orðið sammála um, að ekki væri um annað að ræða, en taka þessu tilboði.

Það, sem hér er farið fram á í frv., er, eins og ljóst liggur fyrir, að hækka búnaðarmálasjóðsgjaldið um 4 ár að helmingi og að þessi hækkun gangi í húsbyggingarsjóð þessara stofnana í þeim hlutföllum, sem þau standa að byggingunni. En það er Búnaðarfélag Íslands að 2/3 hlutum og Stéttarsamband bænda að 1/3.

Það hefur verið hin ánægjulegasta samvinna milli Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins um þetta og er enn. Og eins og ég hef áður tekið fram, þá er hér aðeins um innheimtuaðferð að ræða, því að það er alveg óhugsandi, að hinu háa Alþ. detti í hug að banna bændastéttinni að leggja á sig einhver gjöld til sinna sérmála, eins og hér er um að ræða. En hvorki er það, að þessi stéttarsambönd hafi talið eðlilegt að innheimta þessi gjöld með nefskatti á hvern mann, enda ósanngjarnt, og þess vegna teljum við, að það sé eðlilegast og réttlátast á allan hátt, að þetta sé innheimt á þann hátt, sem hér er gert, þ. e. af brúttóframleiðslu landbúnaðarvara. Og það, sem við förum fram á við hið háa Alþ., er því aðeins það að greiða fyrir innheimtu þessa gjalds. Ef það yrði fellt hér, — ja, ég veit, að bændastéttin mundi ekki hætta við þetta hús, langt frá því, en það yrðu teknar upp einhverjar aðferðir, sem yrðu miklu óhentugri og vitlausari á allan hátt, til þess að ná þessu.

Ég tel víst, að fyrirspurnir komi fram og eðlilegra er, að það verði í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, sem auðvitað verður landbn., um það, hvað þessari byggingu líður á annan hátt. Ég get gefið hér örfáar upplýsingar um það, án þess að ég telji þörf á að fara mjög nákvæmlega út í það, því að þetta er mál bændastéttarinnar, á að vera það og að mínum dómi er það eingöngu, með þeim sjálfsagða stuðningi, sem Alþ. hlýtur að veita málinu.

Í fyrsta lagi er það, að þessi tvö sambönd hafa myndað hlutafélag eða samvinnufélag um að reisa húsið, Búnaðarfélag Íslands að 2/3 hlutum og Stéttarsamband bænda að 1/3 hluta. Þetta er stórhýsi, það er rétt, eins og öll þau hús, sem verða reist þarna kringum Hagatorg. Þetta er hús í kringum 1.000 m2, á að verða í kringum 7 hæðir, a. m. k. 6 með einhverri þakhæð, ef svo vill verkast, og auk þess eru útbyggingar, svo að öll stærð byggingarinnar getur orðið um 25 þús. rúmmetrar. Nú er búið að steypa kjallara og eins og áður hefur komið fyrir í okkar ágæta landi, þar lentum við á óbilgjarnri klöpp, en það varð að rjúfa klöppina í ákveðna dýpt samkv. byggingarsamþykkt Reykjavíkur, og var það dýrt og mikið verk.

Nú er búið að steypa kjallarann, og er verið að enda við 1. hæðina. Fjárfestingarleyfi hafa þegar verið gefin alls fyrir um 3.7 millj. kr., en þess ber að gæta í því sambandi, að við höfum nokkur undanfarin ár safnað efni og eigum miklar birgðir af efni fram yfir það, sem enn er búið að nota í það, sem byggt er, járn, timbur, rafmagnsleiðslur o. fl. Þessu höfum við safnað af þeim sjóði, sem þessi samtök hafa haft að undanförnu. Ég get ekki sagt náttúrlega, hve langt það hrekkur til þess að steypa þetta upp, en það er a. m. k. mjög gott búsílag, það er óhætt að segja það og ber því að draga það frá þessum 3.7 millj., sem nú er búið að veita fjárfestingarleyfi fyrir. En það munu alltaf vera allmörg hundruð þús. kr., sem liggja í efnisbirgðum nú.

En hvað þessi bygging muni kosta? Það er erfitt að gera áætlanir langt fram í tímann, eins og við vitum. En við skulum segja, að hún kosti 25–30 millj. kr., áætlunin var ekki svipað því eins há fyrir u. þ. b. 2–3árum, en við skulum bara segja það. Það er mikið fé, það er alveg rétt. En að mínum dómi er það ekki mikið fé, ef landbúnaðurinn sjálfur tekur þetta á sig. Það hefur hann gert til þessa. Það hefur verið safnað milljónum, ég held milljónatug, það sé óhætt að segja það, í þessar byggingarframkvæmdir. Allt, sem búið er að gera, er byggt fyrir fé, sem búið var að safna áður og við eigum því betur allmikið eftir af því enn. En við, sem að einhverju leyti berum ábyrgð á starfi Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, lítum svo á, að það sé sjálfsagt og rétt að koma þessari byggingu upp á þann hátt, að hún verði ekki allt of þungur baggi á eftirkomendunum, — að sjálfsögðu eiga að vera þarna verzlanir og fleira, sem verður leigt út og á að standa undir sér, og hægt að leigja út hitt og annað, — og þess vegna er það, sem þetta frv. er hér fram borið.

Ég hygg, að nú megi vænta, að ef væri samþ. það frv., sem hér er um að ræða og fulltrúar bændanna í landinu mæla ákveðið með, þá muni fást a. m. k. hálf önnur millj. kr. á ári. Við förum ekki fram á nema 4 ára leyfi til þess að innheimta þetta gjald, væru það þá 6 millj. Ég gæti trúað, að það yrði eitthvað meira, kannske einar 8 millj., en þá er líka tryggt, að búið væri að fá fé, sem ekki þyrfti að greiða vexti og annan kostnað af, sem næmi meir, en hálfri byggingunni. Það er alveg tryggt, að það mundi vera. Og það er á þessum grundvelli, sem við höfum borið fram þetta frv.

Það getur vel verið, að einhverjir segi: Já, heimili bænda, landbúnaðarhöll, eða hvað það yrði kallað, á ekki að vera hér í Reykjavík, hún á að vera einhvers staðar úti á landi. En ég hefði dálítið gaman af að sjá bændastéttina greiða atkv. um það, hvar úti á landi hún ætti að standa. Ég hef alltaf litið svo á, að við yrðum að viðurkenna Reykjavík fyrst og fremst sem höfuðborg okkar, eins og við höfum gert. Allt annað er bara þröngsýni og smásálarháttur. Og í öðru lagi hafa stjórnendur Reykjavíkur í þessu máli komið mjög vel fram, svo að ég sé fulla ástæðu, eins og ég hef sagt áður, til þess að þakka þeim fyrir það. Og það er ekki til neins fyrir okkur að vera að stritast við að halda því fram, að eigi að stofna einhverjar allsherjar miðstöðvar annars staðar, en hér í okkar höfuðborg, eins og gert er, að ég held, í öllum löndum, sem búa við svipað stjórnarfar og við gerum.

Verkefni fyrir svona hús, þótt stórt sé í sniðum, eru alveg ótæmandi, og ég ætla ekki a. m. k. fyrir fram að fara að telja það upp. En við, sem höfum starfað í Búnaðarfélagi Íslands að undanförnu, þekkjum það mjög greinilega, hve það háir starfsemi félagsins að hafa ekki nokkru rýmra húsnæði. Það má alltaf segja, að hægt sé að fá húsnæði, en það er bara út í hött að segja slíka hluti. Það er allt annað að búa út húsnæði, við skulum segja fyrir sýningarsali, — og það er eitt af því, sem þetta hús á að gera, það á að hafa þar sýningarsali, þar sem hægt er að sýna hitt og annað, kvikmyndir um landbúnað o. fl. alls staðar utan úr heimi og margt annað í slíku sambandi. Og það er ótrúlega mikið, sem hægt er með mikilli byggingu að undirbúa og koma í framkvæmd á þennan hátt. Og það er það, sem fyrir okkur vakir. Þótt ýmsir telji, að hér sé verið að reisa sér hurðarás um öxl, byggja miklu stærra hús, en þörf er fyrir, þá er það að mínum dómi ekkert annað en þröngsýni og skilningsskortur. Þegar húsið var reist, Lækjargata 14, fyrir 55 eða 56 árum eða hvað sem það er, þá þótti það mikil bygging og það þótti ekkert vit í því, að Búnaðarfélag Íslands hefði með þetta að gera, enda leigði það út mikinn hluta af húsinu til að byrja með. En nú höfum við orðið, eins og ég tók fram áðan, að byggja útibú úti um allan bæ og ekki sízt vegna þess, sem Alþ. hefur lagt á herðar okkar. Það er a. m. k. erfiðara fyrir þann, sem á að heita framkvæmdastjóri í slíku fyrirtæki, að hafa þetta ekki á sama stað. Og samstarf innan stofnunarinnar verður auðvitað miklu erfiðara og verra, ef þarf að dreifa þessu allt of viða.

Það eru einhverjar bollaleggingar um, að eftir 20–30 ár verði Íslendingar orðnir helmingi fleiri, en þeir eru nú. Ég býst við, að fjölgi þá hérna á suðvesturhorninu eitthvað töluvert rækilega af því fólksmagni, og ég hygg einnig, að það hljóti að verða verkefni fyrir forráðamenn landbúnaðarins á þeim tíma ekki síður en nú, að reyna að hindra það, að fólkið þyrpist allt hér á tiltölulega lítinn blett, en byggi ekki landið út til yztu annesja, eins og áður hefur verið gert.

Ég er ekki að segja þessi orð hér af því að ég búist við nokkurri andstöðu við þetta frv. Mér dettur slíkt alls ekki í hug. En ég vildi nota tækifærið, þar sem ég er nú framkvæmdastjóri fyrir Búnaðarfélagið, til þess að láta hið háa Alþ. vita, hvernig ég lít á þetta mál og hve mikla þörf ég tel á, að þessari húsbyggingu verði hrundið í framkvæmd sem allra fyrst.

Ég skal að lokum geta þess, og það er kannske rétt að gera það, að þetta er stórhýsi, eins og ég hef áður tekið fram og mér þykir mjög sennilegt, að þegar þessari hæð verður lokið nú fyrir jólin, sem nú er verið að enda við, þá verði tekin ákvörðun um það, að steyptur verði upp rúmlega helmingur af húsinu og það verði farið að vinna að því strax á næsta ári að gera hann færan til afnota fyrir skrifstofur og annað, sem okkur liggur langmest á.

Það er nú, eins og eðlilegt er, erfitt að fá fjárfestingarleyfi, en ég er ekkert að kvarta um það, það hefur gengið, eins og það gengur yfirleitt, með erfiðleikum og semingi. En þetta þætti mér mjög sennilegt að yrði gert, og væri þá hægt eftir hálft annað ár eða svo að fara að taka hluta af húsinu í fulla notkun fyrir okkur.

Ég skal einnig geta þess, af því að ég tel, að við höfum ekkert að dylja í þessu efni, að það er samningur á milli Reykjavíkurbæjar og Búnaðarfélags Íslands um það, að Reykjavíkurbær kaupi gamla húsið okkar, Lækjargötu 14, eftir mati, sem að vísu er ekki búið að gera og ég efa ekki að verði samkomulag um, eins og hefur verið við bæjaryfirvöldin um annað, sem snertir þetta mál. En sennilega mun þarna eiga að verða autt svæði síðar meir.

Ég hef nú, held ég, nefnt þau atriði, sem ég taldi ástæðu til að taka fram um þetta mál hér, en ég legg að sjálfsögðu til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. landbn. Og það skal ekki standa á upplýsingum. Ef einhverjir óska eftir því að fá frekari upplýsingar um þetta mál þá skal ég sjá um, að þær liggi fyrir í nefndinni.