20.11.1958
Neðri deild: 25. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Eins og getið var um hér áðan, er þetta ekki nýtt mál hér í d., því að frv. samhljóða þessu var flutt hér á síðasta Alþ., en dagaði þá uppi, án þess að á það reyndi, hvort það hefði fylgi hér í hv. d. Og með því að frv. dagaði uppi á þann hátt, hugsaði ég, að það kæmi ekki aftur fram á þessu þingi.

Hv. frsm. og 1. flm. frv. lýsti því hér áðan, að það hefði í fyrra verið álitið, að það vantaði nokkuð upp á nauðsynlegan undirbúning í málinu. Og vissulega hefði það verið gott, ef hv. flm. frv. hefðu notað þann tíma, sem liðinn er, síðan frv. var borið fram síðast, til þess að fá þann undirbúning, sem ég tel að vanti fyrir þessu máli enn í dag. En sá undirbúningur er að leita umsagna bændastéttarinnar í heild um þetta mál. Það þarf að spyrja bændurna. Vilja þeir taka á sig þessar byrðar? Og svari þeir játandi, þá skal ég ekki standa hér upp í Alþ. og mæla gegn því, að frv. verði samþykkt. En ég vil, áður en ég greiði þessu máli atkv., vita, hvað bændur vilja í málinu, vegna þess að það er um það að ræða að leggja á bændur nýjan skatt. Eins og lögin um búnaðarmálasjóð eru núna, er lagt á selda landbúnaðarvöru ½% gjald, og þetta ½% gefur án efa um 2 millj. kr. og e. t. v. meira nú með vaxandi framleiðslu og nokkuð hækkuðu afurðaverði. Með því að samþykkja þetta frv. verður álagður skattur a. m. k. 4 millj. á ári.

Nú munu e. t. v. flm. og fleiri segja: Það er þröngsýni, það er skilningsleysi á málefnum bændastéttarinnar að mæla á móti því, að það sé lögfest hér á hæstv. Alþ., að bændur greiði þetta gjald. — Og hv. frsm. sagði hér áðan, hann sagðist ekki trúa því, að Alþingi yrði til þess að banna bændum að leggja á sig slík stéttargjöld. Það mun hv. Alþ. vissulega aldrei gera, enda er það allt annað að banna bændum að gera slíkt eða beinlínis að lögfesta, að þeir skuli gera það, enda þótt upplýsingar skorti um það, að bændurnir sjálfir, meiri hluti bændanna vilji taka á sig þessa kvöð. Það er það, sem um er að ræða hér.

En mér fannst hv. 1. flm. frv. eyða óþarflega mörgum orðum að því áðan að færa rök að því, að Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda þyrftu á auknu eða nýju húsnæði að halda. Ég þekki ekki nokkurn mann hér á hæstv. Alþ. og ég hygg, að það sé erfitt að finna þann mann utan þings líka, sem efast um það, að Búnaðarfélag Íslands þarf nýtt og aukið húsnæði og það fyrir löngu. Og þegar um það er að ræða, að Búnaðarfélagið er í 55 eða 56 ára gömlum timburhjalli við Lækjargötu, sem þótti gott á sínum tíma, þá verður mér og mörgum að undrast, að það skuli ekki fyrr vera búið að byggja yfir Búnaðarfélagið, og má þar kannske þakka eða kenna hófsemi þeirra manna, sem stjórnað hafa þessum málum.

Ég tel sjálfsagt, að Búnaðarfélagið og Bændasamtökin í landinu fái myndarlegt húsnæði fyrir starfsemi sína og ég hygg og reyndar veit, að bændastéttin í heild vill það. Ég hygg líka, að bændastéttin telji sjálfsagt, að þetta húsnæði sé hér í Reykjavík, vegna þess að Reykjavík er miðstöð, sem ekki verður fram hjá gengið, og af öllum ástæðum eðlilegt, að þetta húsnæði sé hér. Þess vegna tel ég, að í svo augljósu máli þurfi ekki að greiða atkv. um það. En af því að hv. frsm. sagði hér áðan, að sér þætti gaman að því, að bændur fengju tækifæri til þess að greiða atkv. um staðarval fyrir miðstöð fyrir landbúnaðinn, þá tel ég það alveg óþarft. En ég vil þá óska þess, að hv. frsm. vilji einnig gleðjast yfir því, að bændur fái tækifæri til þess að greiða atkv. um það, hvort þeir vilji greiða þann nýja viðbótarskatt, sem þetta frv. hefur í för með sér. Og það er ekki annað, sem ég fer fram á, heldur en það, að bændum verði gert mögulegt að segja sitt álit á þessu máli. Það þarf ekki að tefja fyrir málinu, þótt bændum sé gefinn kostur á þessu, og þarf ég ekki að kenna búnaðarmálastjóranum ráð til þess að koma málinu þannig á framfæri við bændur, að af því verði ekki töf, sem skaðar. Það er ekkert annað eðlilegra, en að stjórnum hreppabúnaðarfélaganna verði sent málið til umsagnar. Fundur verður svo haldinn í hverju hreppabúnaðarfélagi á landinu og atkv. látin fram fara um þetta mál. Ég er reyndar alveg viss um það, að hv. 1. flm. málsins og aðrir góðvinir mínir, sem flytja málið, eru svo sanngjarnir, að þegar þeir hugsa út í málið frá þessu sjónarmiði, muni þeir telja þessa leið sjálfsagða. Það er eðlilegt, að það sé gert, því að hér er a. m. k. um 2 millj. kr. skatt að ræða á bændastéttina.

Ég veit, hvaða rök mundu fram koma gegn þessu, ef þau annars koma fram. Þeir, sem vilja færa rök gegn því, að bændur fái að greiða atkv. um þetta mál, munu segja: Bændur hafa talað. Aðalfundur Stéttarsambands bænda hefur samþykkt, að þetta skuli gert. Búnaðarþing hefur líka samþykkt, að þetta skuli gert. — Ef einhver mundi verða á móti því, að bændur fengju sjálfir að tala, þá mundi hann færa þetta fram sem ástæðu fyrir því, að það væri ekki þörf á því að spyrja bændurna. En ég tel, með allri virðingu fyrir þessum stofnunum, aðalfundi Stéttarsambands bænda og búnaðarþingi, að þá séu ekki sannanir fyrir því, að meiri hluti bændastéttarinnar sé á þessu máli, þótt aðalfundur Stéttarsambandsins og búnaðarþing hafi samþykkt það að meiri hluta. Ég veit a. m. k. um það, að á síðasta þingi, eftir að þetta frv. var komið fram, komu mótmæli frá bændum úr því héraði, þar sem búnaðarþingsfulltrúinn hafði greitt atkv. með málinu. Það komu mótmæli úr héraðinu, sem voru algerlega á móti skoðun búnaðarþingsmannsins.

Hv. frsm. svaraði að nokkru þeim spurningum, sem ég bar hér fram á hógværan hátt í fyrra, þegar þetta mál var til 1. umr. þá, og þakka ég fyrir þær upplýsingar, sem fram komu. Ég skrifaði hér lauslega nokkur atríði í sambandi við það. Mér skilst, að húsið verði um 25.000 rúmmetrar. Þetta er ákaflega skemmtileg bygging, og ég efast ekki um, að hún verður mjög falleg og praktísk að mörgu leyti. Arkitektinn, sem teiknaði húsið, hefur góðan smekk. En enda þótt húsið verði fallegt, munu bændur samt spyrja: Höfum við efni á því að vera að leggja fé í byggingu í Reykjavík, til þess að hún verði leigð út fyrir búðir, samkomur og annað fleira, sem ekki er landbúnaðinum skylt? Höfum við efni á því, á meðan okkur sjálfa vantar þægileg hús marga hverja, búshluti, sem taldir eru sjálfsagðir, a. m. k. í kaupstöðum, og við getum ekki veitt okkur sömu þægindi og margir kaupstaðarbúar gera?

Ég veit, að mörgum bóndanum finnst eðlilegt að líta fyrst í eigin barm og sinnar fjölskyldu. Ég veit, að mörgum bóndanum mundi finnast eðlilegra að kaupa heimilistæki til þess að létta konunni sinni störfin, heldur en borga skatt af seldri vöru búsins, til þess að hús bændastéttarinnar í Reykjavík geti verið svo stórt og glæsilegt, að það geti leigt sölubúðir, sýningarsali, kvikmyndasali og ýmislegt fleira, sem er ákaflega skemmtilegt, en bændurnir og bændakonurnar hafa svo ótrúlega lítið af að segja. Og þegar það er sagt, að húsin við Hagatorg verði að vera stór, þá má það vel vera rétt. En það eru talin stórhýsi á okkar mælikvarða, þótt þau séu ekki 25.000 m3. Það eru talin stórhýsi á okkar mælikvarða jafnvel 5000 m3 hús, allmyndarlegar byggingar, ég tala nú ekki um 10.000 m3 hús. Og ég er sannfærður um, að hvort heldur væri 5 eða 10 þús. m3 hús, sem væri teiknað af smekkvísi, það mundi sóma sér vel við Hagatorg, og einnig það, að mörg húsin, sem þar verða byggð, munu verða jafnvel minni að rúmmáli.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta atriði. Ég taldi eðlilegt að vekja athygli á því, að bændastéttin í heild hefur ekki verið spurð, og ég tel, þegar um það er að ræða að leggja nýjan skatt á bændur, sem nemur a. m. k. 2 millj. kr. á ári, þá sé eðlilegt, að þeir séu spurðir að því, ekki sízt vegna þess, að nú kreppir skórinn að bændum meira en áður, ekki sízt vegna þess, að bændur eiga nú erfiðara en áður, með að standa í skilum og greiða nauðsynlega úttekt til heimilisins. Ég held, að áður en við réttum upp höndina með þessu máli, með tilliti til allra aðstæðna, að þá eigum við að leita upplýsinga hjá bændunum sjálfum. Enda þótt búnaðarmálastjórinn hafði áðan svarað að nokkru þeim spurningum, sem ég varpaði hér fram í fyrra, þá er því enn ósvarað, hvort ekki er hægt fyrir bændastéttina að koma upp myndarlegu húsnæði, sem nægir starfsemi bændastéttarinnar,

Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins, fyrir það fé, sem nú kemur árlega í búnaðarmálasjóð, en það eru a. m. k., eins og ég sagði áðan, 2 millj. kr. Það er eftir að svara því, og það er það, sem ég hygg að bændur vilji vita. Það er einnig eftir að svara því, hvort það mundi tefja fyrir því, að Búnaðarfélagið og Bændasamtökin fengju viðunandi húsnæði, þótt þetta gjald yrði ekki á lagt, vegna þess m. a., að það hefur staðið á fjárfestingarleyfum undanfarið, og það eru fjárfestingarleyfin, sem kannske ákveða hraða á framkvæmdinni, fremur en fjármálin.

Ég vænti þess, að hv. flutningsmenn taki vel í till. mína um það að senda hreppabúnaðarfélögunum málið til umsagnar og að stjórnir hreppabúnaðarfélaganna geri ráðstafanir til, að atkv. fari um málið í hverju búnaðarfélagi. Ef gengið verður í það nú þegar að skrifa stjórnum hreppabúnaðarfélaganna, getur niðurstaðan í þessu máli jafnvel verið komin fyrir jól. Þótt það verði ekki komið fyrir jól, þarf það ekki að tefja þetta mál, þar sem þinginu mun nú ekki ljúka fyrir þann tíma. En ég efast ekki um, ef búnaðarmálastjórinn skrifar formönnum búnaðarfélaganna og æskir þess, að málinu verði flýtt, eða gefur ákveðinn frest, að þá munu búnaðarfélögin taka vel máli hans og senda niðurstöðuna fljótt til baka.