19.03.1959
Efri deild: 88. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

51. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hreyfði því hér við 2. umr. þessa máls, að mér fyndist ástæða til að breyta nokkru í þessu frv., eins og það lá fyrir, og mæltist til þess, að n. athugaði málið á milli umræðna. Tekið var heldur óstinnt upp, að það yrði gert. Ef ég man rétt, var talið, að það væri hún búin að gera og svo rækilega, að það þyrfti ekki um það frekar að binda. Ég sagði þá, að ég mundi að líkindum koma með brtt. við 3. umr., og þær liggja nú fyrir á þskj. 325. Ég skal fara um þessar brtt. nokkrum orðum og þá jafnframt frv. í heild að nokkru leyti.

Það er hér horfið inn á nýja braut, sem aldrei hefur verið farið inn á áður hér á landi, með þessum brtt., og skapast með því ákveðið fordæmi, sem ég er nú ekki að öllu leyti viss um, hvort er rétt, en það er það, að sóknarmennirnir í kirkjusóknunum eða prestaköllunum eigi að fá að ráða því, hvar prestssetur er, hvar prestur situr í viðkomandi prestakalli. ég er ekki viss um, að þetta sé að öllu leyti rétt. Ég viðurkenni fúslega, að þetta er spor áfram í lýðræðisátt, að lofa sóknarbörnum prestsins að ráða, hvaða jörð er tekin undir prestssetrið og hvar hann á að sitja. Ég viðurkenni það. En á hinn veginn má ganga út frá því, að það geti orðið ríkinu nokkuð miklu dýrara, en ef ríkið ákveður sjálft, hvar prestssetrið er, og að því leyti er ég ekki alveg viss um, hvort stefnubreytingin, sem er í þessu frv., sé til góðs. Við sjáum það í hendi okkar með eitt af þessum prestssetrum, sem hér er talað um, Æsustaði eða Auðkúlu. Ef það skyldi vera meiri hluti sóknarinnar, sem vildi hafa prestssetrið á Auðkúlu, — sem er nú næsta ólíklegt, en ef það skyldi vera meiri hlutinn, sem vildi hafa það á Auðkúlu, þá er annars vegar lagt niður prestssetur og seld góð jörð með sæmilegum húsakynnum, sem að vísu þarf að dubba upp á, líklega fyrir 80–120 þús. kr., til að gera við húsið, sem þar er nú. Það mundi kosta ríkissjóð að hafa prestssetrið áfram á Æsustöðum. Ef hins vegar meiri hlutinn vildi færa það yfir í Auðkúlu, þá er þar ekki einn kofi uppistandandi. Það á að flytja það á part úr gömlu Auðkúlu. Henni hefur verið skipt í nýbýli, og eitt af þessum nýbýlum, sem ekki er búið að byggja neitt upp á, á að verða prestssetur. Nú sýnir reynslan, að prestsseturshús, bæði fyrir prestinn og hans fólk og fyrir þann fénað, sem á jörðinni þarf að vera, er geysidýrt, svo að þetta mundi alltaf muna ríkissjóð, — ja, ég veit ekki hvað, líklega nær milljón króna, sem það yrði dýrara að hafa prestssetrið að Auðkúlu, en að Æsustöðum. Og ég er ekkert viss um, hvort það er talið rétt að vinna það til, til að auka lýðræðið að geta skapað slíka möguleika hér og þar um landið. Ég slæ engu föstu um það. Ég er ekki viss um það, en á þetta vil ég benda. En ég hef fallizt á þessa breytingu, aukninguna á lýðræðinu, að lofa söfnuðunum að ráða, hvar prestssetrið er. En þá finnst mér það eigi að vera samræmi, og það þýði ekki að lofa því að ráða í einu prestssetrinu, en ekki í öðru. Annaðhvort föllumst við á það, að þeir fái að ráða, þar sem ekki er fastákveðið prestssetur, ellegar þeir fái ekki að ráða, og ég fellst ekki á það að segja: Ja, þið megið nú ráða í þessu kallinu, hvar prestssetrið er, en í hinu ekki. — Annaðhvort gerum við það eða gerum það ekki. Við verðum að vera samkvæmir sjálfum okkur í því, hvað við gerum í þessu tilfelli og ég hef, þrátt fyrir það þótt ég dragi mjög í vafa, hvort það sé rétt eða ekki, fallizt á þessa hugmynd að lofa söfnuðunum í prestakallinu að ráða, hvar prestssetrið er. En af því að ég vil vera sjálfum mér samkvæmur og gera þetta ekki bara á einum stað, heldur yfirleitt, úr því að farið er inn á þessa stefnu á annað borð, þá er mín fyrsta brtt. sú, að eins og þeir eigi að fá að gera þetta í Æsustaðaprestakalli, eins fái þeir að gera þetta í Kirkjubæjarprestakalli. Það er engin ástæða til að lofa þeim ekki að ráða líka, hvar prestssetrið er í hreppnum, úr því að þeir eiga að fá að gera það á Æsustöðum og annars staðar. Það er sjálfu sér samkvæmt að lofa þeim að ráða því líka, og þá er ég satt að segja í litlum vafa um, hvar það verður. En það er nú annað mál. Þetta var mín fyrsta brtt.

Önnur brtt. er sú, að það verði látin fara fram atkvæðagreiðsla um það, hvort presturinn á Torfastöðum eigi að sitja þar í trássi við lög og í trássi við leyfi stjórnarvalda eða hvort hann eigi að vera þar, sem prestssetrið er sett að lögum, í Skálholti, og þar sem nú stendur autt hús, sem ekkert er notað, a.m.k. s.l. ár, — hvort sem honum er ætlað það eða ekki, þá er hægt að láta hann hafa það. Ég sé enga ástæðu til þess að láta prest eftir geðþótta sitja annars staðar, en hann á að gera að lögum, heldur láta þá söfnuðina skera úr um það, hvaða staður skuli vera hans framtíðarstaður og hann síðan flytja þangað og búa þar. Það er mín önnur brtt.

Þriðja brtt. mín er um það, að úr því að presturinn frá Hraungerði er fluttur að Selfossi og setztur þar, að þá eigi Hraungerði að falla niður. Það stendur „annaðhvort eða“ í lögunum núna. Það voru að vísu orð, sem biskupinn þoldi ekki að heyra, að prestssetrin væru tvö í sama prestakallinu og mætti velja um, hvort heldur væri og ég get fallizt á, að það sé ekki heppilegt og slæ þessu föstu, að hann megi búa þar, sem hann nú er, þó að hann sé á Selfossi, en ekki í Hraungerði.

Fjórða brtt. er um að kalla prestssetrið á Hvanneyri réttu nafni. Það á að heita, að presturinn sitji á Hvanneyri eftir l. Þó er Staðarhóll sérmetin jörð og hefur verið í öllum fasteignamatsbókum sérmetin, síðan jarðatal kom út. Staðarhóll var ein af mörgum hjáleigum frá Hvanneyri. Þær eru til enn þá, það eru enn þá byggðar Ausa og Kvígsstaðirnir og Staðarhóll. Kannske við eigum að kalla þær allar bara Hvanneyri, af því að þær tilheyrðu einu sinni torfunni, sem tilheyrði Hvanneyri. Búið er nú að leggja alveg niður Kistuna, Tungutún, Hamratún, Svíra og Ásgarð o.s.frv. Það er búið að leggja þær alveg niður og taka þær alveg saman við Hvanneyri. Þetta voru upprunalega 11 jarðir, en þrjár af þeim standa enn sjálfstæðar, og ein af þeim er Staðarhóll. En svo hræddur skildist mér biskupinn vera af bréfinu, sem formaður n. las upp frá honum, við virðingarleysi á prestunum, að af því að Hvanneyri er gamalt stórbýli, þá vill hann láta heita svo, að presturinn sitji þar, til þess að hann geti fengið einhverja gloríu af jörðinni. Ja, það er ekki treyst mikið á manndóm prestanna sjálfra, ef svo langt er sótzt til þess að reyna að skapa um þá gloríu. Vitanlega býr hann á Staðarhóli, þar hefur verið byggt yfir hann, þar situr hann og það á vitanlega að kalla það sínu rétta nafni. Þar er prestssetrið, en ekki á Hvanneyri. Þetta er sérmetin jörð og meira að segja ekkert lágt metin í síðasta fasteignamati, og það á að kalla hann búa þar, sem hann býr. Ég held, að það hafi ekki nema einn prestur búið á Hvanneyri, a.m.k. ekki nú ákaflega lengi. Fyrsta árið, sem Tryggvi Þórhallsson var prestur í Hestþingum, þá sat hann á Hvanneyri, á meðan var verið að gera við húsið á Hesti. Annars hefur aldrei prestur setið á Hvanneyri. Þeir hafa setið á Hesti fyrst lengi og síðan á Staðarhóli. Það voru gerð skipti á jörðinni Hesti, sem atvinnudeild háskólans var látin hafa fyrir sauðfjárræktarbú, og jörðinni Staðarhóll, hjáleigunni frá Hvanneyri, sem presturinn var látinn hafa til prestsseturs og atvinnudeildin borgaði svo á milli.

Það liggur þess vegna alveg fyrir, að ef hv. þd. telur, að enn eigi að standa Hvanneyri í staðinn fyrir Staðarhól, þá tekur hún undir með manninum, sem sagði: „Ja, það er nú samt meri brún“ — þó að hann riði á skjóttum hesti. Það er ekkert annað, sem þar gerist.

Þá hef ég gert enn eina breyt. viðvíkjandi Ögur- og Eyrarsóknum. Þar hefur núverandi prestur alltaf setið í Súðavík, en ekki á prestssetrinu Hvítanesi. Það er ekki heldur vafi á því, að eins og Hvítanes er nú komið, — og reyndar hefur það alltaf verið illa sett, en eins og það er nú komið, þá er óhætt að fullyrða, að þó að það sé talið prestssetur, þá kemur þangað aldrei prestur. Og það er líka nokkurn veginn víst, að presturinn mun alltaf sitja í Súðavík. Það er eini kaupstaðurinn í prestakallinu og eina fjölbýlið í prestakallinu, þar getur hann haft áhrif á flesta menn með minnstri fyrirhöfn, ef hann hefur áhuga á því að hafa áhrif á breytni manna og siðgæði, eða þá trú þeirra og þar getur hann haft áhrif á flesta menn með minnstri fyrirhöfn, og þar á hann að sitja, enda langbezt settur þar, eins og samgöngurnar eru við utanvert Djúp, þar sem hann er prestur. Um það ber, held ég, öllum saman og reynslan sýnir það líka, að þar hefur presturinn verið látinn sitja. Þess vegna vil ég ákveða með lögum, að hann sitji ekki á Hvítanesi, — en þangað hefur þessi prestur líklegast aldrei komið, nema ef hann hefur þurft að skíra hjá fólki eða eitthvað svoleiðis, aldrei að öðru leyti. Þeir húsvitja nú ekki, blessaðir flestir, — og vitanlega á hann að vera í Súðavík, en ekki í Hvítanesi.

Og þá er loks síðasta breyt., sem er um Æsustaði og gengur út á það, að ríkisstj. skuli, strax og þessi lög verða samþykkt, láta ganga til atkv. um, hvort prestssetrið skuli vera á Æsustöðum eða Auðkúlu. Og það er gert með tilliti til þess, sem ég sagði síðast, að það þarf að gera við húsið á Æsustöðum, það er búið að lofa að gera við það í sumar. Það er ástæðulaust að gera við það, ef prestssetrið á að flytjast til Auðkúlu, því að það verður öðruvísi gert við það hús, ef bóndi kaupir jörðina og setzt að á Æsustöðum, heldur en gert yrði við það af ríkinu til að gera það að framtíðarprestssetri. Það yrði öðruvísi gert við það af bóndanum, og hins vegar liggur húsið undir skemmdum, svo að það þarf að gera við það, og þess vegna á ekki að bíða eftir því, að prestaskipti verði þarna einhvern tíma, enginn veit hvenær í framtíðinni, með að ganga úr skugga um það, á hvorum staðnum prestssetrið eigi að vera. Ef meiri hl. er með því að hafa það áfram á Æsustöðum, þá þarf að gera við húsið strax í sumar, eins og búið er að lofa. Ef meiri hl. er hins vegar með því að hafa það að Auðkúlu, þá þarf að fara að hugsa um byggingar þar, bæði á útihúsum og íbúðarhúsi, og því þarf kirkjustjórnin að vita sem fyrst, á hvorum staðnum það á heldur að vera, en ekki að bíða eftir einhverju ártali, þegar prestaskipti verða í brauðinu.

Öðrum brtt., sem gætu komið til greina, sem voru í mínu frv. upprunalega, hef ég sleppt, ekki af því, að þær séu ekki réttmætar, heldur af því, að ég fellst á þá röksemd biskups, að það sé óheppilegt að hafa tvö prestssetur í sama prestakalli, en það mátti túlka það þannig, þegar ég t.d. sagði, að presturinn skyldi sitja á Borg eða í Borgarnesi. Vitanlega flyzt hann í Borgarnes. Það vita allir. Og eftir að hann er fluttur þangað, verður hann þar, en flytur ekki aftur að Borg. Svo er það á hinum stöðunum líka, sem ég tók þar með. En ég get vel fallizt á að breyta því ekki, heldur láta skeika að sköpuðu. Ætli það verði það hörð kirkjustjórn, þegar þessi breyt. verður og presturinn vill fara frá Borg, t.d. ofan í Borgarnes, — ætli það verði þá það hörð kirkjustjórn, að hún ekki lofi honum þá bara að fara frá Borginni og niður í Borgarnes og láta Borgarjörðina einhverjum til byggðar á leigu? Ég geri ráð fyrir því, af því að svona hefur þetta verið. Og þetta er einmitt eitt af því, sem þarf að fyrirbyggja. Það er lítt fyrirgefanlegt að láta prest ár eftir ár sitja annars staðar, en á prestssetrinu, prestssetrið níðast niður, leigja það bónda frá ári til árs, sem ekkert gerir — sem ekki er eðlilegt, því að hann getur farið strax árið eftir, — og níða þannig hvert prestssetrið niður á fætur öðru, svo að það verði lítt búanlegt á þeim, þegar loksins er ákveðið, að prestur skuli ekki vera þar, heldur annars staðar. Það var með tilliti til þess að fyrirbyggja í framtíðinni að slíkt kæmi fyrir, sem ég vildi hafa þetta annaðhvort eða, að annaðhvort gæti presturinn verið á prestssetrinu, sem lögboðið er, eða á öðrum stað, sem er vitað að hann muni flytjast á, til þess að strax og hann flytti á þann stað, væri hægt að leggja hitt niður og ákveða hið nýja prestssetur og jarðir þyrftu ekki að níðast niður í millibilinu, sem þær væru prestslausar og leigðar frá ári til árs. Það var til þess, sem ég kom með þessar till. í mínu upphaflega frv. Ég get látið þær allar saman bíða og ekki tekið fleira upp núna en ég hef gert í þessu þskj. 325. Ég held, að ég hafi ekki tekið inn í það neitt, sem ekki sé í alla staði sanngjarnt og sjálfsagt að samþykkja. Sumt af því má segja að sé ekkí annað en leiðréttingar, eins og það að breyta nafni og ætla prestinum að sitja á jörðinni, sem hann situr og hefur setið á, en ekki á Hvanneyri, þar sem hann hefur aldrei setið. Sama má segja um Súðavík og Hvítanes. Það eru ekki heldur annað en bara breytingar á nöfnum og að færa lögin til samræmis við það, sem er í framkvæmdinni. Og úr því að fallizt er á að láta söfnuðina fá að ráða, hvar prestssetrin séu, vil ég færa það út alveg og lofa söfnuðinum að ráða um það ekki bara á einum eða tveimur stöðum, heldur alls staðar, þar sem um það er að ræða og um það er deilt, hvar prestssetrið eigi raunverulega að vera.