02.03.1959
Neðri deild: 84. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

105. mál, samband íslenskra berklasjúklinga

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er efni þessa frv. að veita Sambandi íslenzkra berklasjúklinga heimild til þess að reka vöruhappdrætti sitt um næstu tíu ár. Eins og kunnugt er, hefur þessi félagsskapur rekið þessa starfsemi, vöruhappdrættið, síðan 1949. Ágóðanum af happdrættinu hefur félagið varið til vinnuheimilisins að Reykjalundi. Alkunnugt er, að þar er mesti myndarbragur á öllum framkvæmdum, og um það munu ekki skiptar skoðanir, að starfsemi þessa félagsskapar hafi orðið til mikils gagns og bæði félaginu sjálfu og þjóðinni allri til sæmdar.

En nú að undanförnu hefur Samband íslenzkra berklasjúklinga haft á prjónunum undirbúning að því að færa út starfssvið sitt. Er það ætlun sambandsins að koma upp vinnustofum fyrir öryrkja, aðra en berklasjúklinga, en þörf er að bæta aðstöðu þess fólks til þess að nota þá starfskrafta, sem það hefur.

Fjhn. sendi Tryggingastofnun ríkisins þetta frv. og óskaði umsagnar hennar um málið. Svarbréf barst frá Tryggingastofnuninni til n., dags. 25. febr., og vil ég, — með leyfi forseta, — lesa hér upp kafla úr því bréfi. Þar segir svo m.a.:

„Starfsemi eins og sú, sem SÍBS hefur rekið á undanförnum áratugum, hefur þjálfað þá sambandsmenn, sem virkan þátt hafa tekið í henni, til starfa á félagsmálasviðinu, og telur Tryggingastofnun ríkisins, að SÍBS hafi m.a. þess vegna betri skilyrði til þess að færa starfsemi sína út fyrir hin upphaflegu takmörk og hafa afskipti af málum annarra öryrkja, sem ekki hafa stofnað virk samtök með sér.

Tryggingastofnun ríkisins hefur verið ljóst, að þróun heilbrigðismála í landinu á undanförnum áratugum gefur tilefni til að vona, að hið upphaflega verkefni sambandsins að veita berklasjúklingum aðstoð geti farið minnkandi, og í viðræðum við sambandsmenn lagt á það áherzlu, að sambandið ætti að taka til athugunar að láta starfsemi sína taka til annarra öryrkja, eftir því sem ástæður leyfðu.“

Síðar í bréfinu er einnig að því vikið, að á 11. þingi SÍBS, sem haldið var 4.–6. júlí 1958, hafi stjórn sambandsins verið heimilað að koma á fót vinnustofum fyrir almenna öryrkja, og í bréfinu segir enn fremur, að erfðafjársjóður, en hann er í vörzlu Tryggingastofnunarinnar, hafi þegar ákveðið stuðning við fyrstu vinnustofu sambandsins í Reykjavík, „sem væntanlega tekur til starfa um n.k. mánaðamót“. Það er því útlit fyrir, að þessi vinnustofa sé að taka til starfa nú um þessar mundir. Og í niðurlagi bréfsins frá Tryggingastofnuninni segir á þessa leið: „Tryggingastofnun ríkisins vill því eindregið mæla með því, að nefnt frv. verði samþykkt “

Það kemur fram í grg. með frv., að enn sé ólokið ýmsum framkvæmdum í Reykjalundi, er kosta allmikið fé. Það er líka vitað, að það nýja verkefni, sem SÍBS er nú að taka að sér, að koma upp vinnustofum fyrir öryrkja almennt, mun kosta veruleg fjárframlög í stofnkostnað, svo að gera má ráð fyrir því og raunar telja víst, að sambandið hafi fulla þörf fyrir ágóðann af happdrættinu næstu tíu ár.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um mál þetta, en eins og fram kemur í áliti fjhn. á þskj. 287, leggur n. einróma til, að frv. verði samþykkt.