13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

3. mál, kosningar til Alþingis

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Við framsóknarmennirnir í stjskrn. höfum skrifað undir nál. með fyrirvara. Við erum að sjálfsögðu efnislega á móti breyt. kosningalaganna, sem teknar eru upp í frv. vegna stjórnarskrárbreyt., en við viðurkennum þessar breyt. frá formsins hlið sem óhjákvæmilega afleiðingu kjördæmabreyt., sem búið er að afgreiða sem stjórnskipunarlög. Við mælum með þeim lagfæringum á frv., sem stjskrn. flytur á sérstöku þskj., nr. 38 og enn fremur vil ég lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég mæli með hinni skrifl. brtt. Mér hefur ekki tekizt að hafa samband við hv. þm. Str. og ég veit ekki, hvort formaður n. hefur náð tali af honum um þá brtt., svo að hann er náttúrlega óbundinn af þessari yfirlýsingu minni. Og þó að við hefðum kosið ýmis ákvæði um það, sem óhjákvæmilegt er að setja nýjar reglur um, nokkuð á annan veg, þá viljum við alls ekki tefja þingtímann með þjarki um þau atriði, enda búið að leita án árangurs samkomulags um þau í stjskrn. d., sem störfuðu á fyrstu stigum málsins saman, eins og hv. frsm. n. gat um.

En þó að þessi sé afstaða okkar, eru ákvæðin, sem Nd. setti inn í frv. um kosningu í yfirkjörstjórnir, svo fráleit að okkar dómi, að við hljótum að gera ágreining um þau. Á ég þar við fyrri mgr. 9. gr. á þskj. 34. Þar er svo fyrir mælt, að yfirkjörstjórnir skuli kosnar af Sþ., eins og landskjörstjórnir. Kosning sú er hlutfallskosning að sjálfsögðu. Yfirkjörstjórnir hafa að undanförnu verið þannig skipaðar, að sýslumenn og bæjarfógetar hafa verið sjálfkjörnir oddvitar þeirra, en sýslunefndir og bæjarstjórnir kosið að öðru leyti menn í þær. Sjálfkjör á sýslumönnum og bæjarfógetum verður auðvitað að falla niður vegna samsteypu kjördæmanna. En hvers vegna á að breyta því, sem þarf ekki að breyta, að kjördæmin sjálf velji menn til yfirkjörstjórnarstarfa? Get ég engin frambærileg rök fyrir því fundið. Þetta eru fyrst og fremst trúnaðarmenn kjördæmanna, — eða finnst hv. þm. þetta vera trúnaðarmenn flokksstjórnarvaldsins? Ég lít ekki svo á. Er hugsunarhátturinn strax orðinn svo afþróaður í flokksvaldsstjórnaráttina? Auðvitað er með þessu kjöri á Alþingi verið að koma vali mannanna undir yfirstjórn flokkanna. Yfirkjörstjórnarmenn eiga þó eftir eðli starfa sinna alls ekki að vera fulltrúar neinna flokka. Þeir eiga að vera óhlutdrægir í starfi. Umboðsmenn flokkanna, sem flokkarnir láta fylgjast með störfum yfirkjörstjórnar, eiga að gæta hagsmuna þeirra, eins og kallað er. Þannig er séð fyrir þeirri hlið, eftir því sem rétt er og hóflegt.

Einhver segir nú máske, að sýslunefndir og bæjarstjórnir kjósi líka flokkslega. Reynsla mín er sú, að þær hafa alls ekki lagt áherzlu á það. Þær hafa farið mjög mikið eftir aðstöðu manna til að gegna starfinu, hvernig þeir hafi verið í sveit settir og hvort þeir hafi haft tíma til að sinna slíkum störfum. Og til slíkra aðstæðna þarf að taka tillit. Það hefur þurft og þarf ennþá frekar nú, þegar kjördæmin eru orðin miklu stærri og verkið þess vegna tímafrekara og meira og útheimtir ferðalög og meiri heimanveru. Alþ. getur ekki vegna ókunnugleika haft nægilega hliðsjón af slíkum ástæðum, eins og sýslunefndirnar og bæjarstjórnirnar geta.

Hvort tveggja er því, að heimamenn á ekki að svipta rétti til þess að kjósa yfirkjörstjórnirnar og flytja þann rétt út úr héruðunum til Alþ. Það er stjórnlega rangt að mínu áliti. Einnig verður Alþ. flokkspólitískt hlutdrægara í vali mannanna og þeir, sem af því eru kosnir eftir flokkslínunum, líta meira á sig sem umboðsmenn sérstakra flokka, en heimakjörnu mennirnir. Til viðbótar er svo það, að héruðin af kunnugleika geta valið til starfsins menn, sem áreiðanlega geta sinnt því hverju sinni. En Alþingi getur það miklu síður.

Till. okkar hv. þm. Str. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað fyrri mgr. 9. gr. komi:

Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn. Í Reykjavík kýs bæjarstjórn fimm menn í yfirkjörstjórn og fimm til vara. Hlutfallskosningu skal viðhafa, ef bæjarfulltrúi krefst þess. Annars staðar kýs hver sýslunefnd og bæjarstjórn í kjördæmi einn mann, er sé búsettur í hlutaðeigandi sýslu eða kaupstað, í yfirkjörstjórn og annan til vara.

Nú er tala hinna kjörnu yfirkjörstjórnarmanna ójöfn og skipar ráðherra þá úr þeirra hópi oddvita yfirkjörstjórnar og varamann hans. Sé tala hinna kjörnu yfirkjörstjórnarmanna jöfn, skipar ráðh. einn mann úr hópi annarra kjósenda í kjördæminu í yfirkjörstjórn og sé hann oddviti yfirkjörstjórnar. Ráðh. skipar einnig varamann oddvita.

Kosning yfirkjörstjórnarmanna og skipun oddvita gildir til 4 ára í senn.“

Eins og 3. mgr. þessarar brtt. ber með sér, er ætlazt til, að ráðh. skipi oddvita kjörstjórna, enn fremur, að hann bæti úr því með skipun manns í kjörstjórnina, ef tala heimakjörinna manna verður jöfn og enginn getur, að ég hygg, talið þetta óeðlilegt, enda er það í samræmi við það, að embættismenn hafa áður verið oddvitar yfirkjörstjórna.

Ég vil nú lýsa því yfir, að ég vænti þess, að hér í þessari hv. d. séu svo miklir heimastjórnarmenn í beztu merkingu þess orðs, að þeir fallist á þessa tillögu.