13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

4. mál, almannatryggingar

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, var þetta þing kvatt saman fyrst og fremst til að taka afstöðu til stjórnarskrárbreyt., sem samþykkt var á síðasta þingi og sömuleiðis kosningalagabreytingar, sem að sumu leyti leiðir af þeirri breytingu. Það var rætt um það nú í þingbyrjun af þingflokki Sjálfstfl., að það væri ástæða til að leggja alla áherzlu á það að hraða afgreiðslu þessara tveggja mála, eins og unnt væri og jafnframt að bera ekki fram lagafrumvörp eða breytingar, sem gætu orðið til þess að tefja þingið, sérstaklega af því að það mætti búast við því, að þótt slíkar till. væru bornar fram, þá næðu þær ekki fram að ganga, vegna þess að það leit út fyrir, að það væri ætlun allra flokka að hraða þessu þingi svo sem fært væri, meðfram með tilliti til þess, að kosningar gætu farið fram eins snemma í haust og unnt yrði. Það var því meðfram af þessari ástæðu, sem Sjálfstfl. og við tveir fulltrúar hans í heilbr.- og félmn. vildum ekki taka efnislega afstöðu til þessa máls.

Þetta mál var samt að beiðni minni sent til Tryggingastofnunar ríkisins til athugunar og þar kom fram sú skoðun, þó að hún liggi ekki fyrir bréflega enn þá, af því að tíminn var svo stuttur, að það var ekki tími til þess, en það var rætt á tryggingaráðsfundi í gær,og þar kom fram sú skoðun ráðsmanna frá öllum flokkum, m.a. frá fulltrúa þess flokks, sem hv. frsm. fylgir, fulltrúa Alþb. í tryggingaráði, að það væru ýmsar aðrar breyt. á tryggingalögunum, sem væru enn meira aðkallandi en þessi breyt., sem hér er fram borin og það væri alveg nauðsynlegt að taka tryggingalögin til frekari endurskoðunar, en þegar hefur verið gert. Það hafi verið teknir út úr bæði í fyrra og nú einstakir kaflar tryggingalaganna til endurskoðunar. En það er fyrirsjáanlegt, að það er nauðsynlegt að taka þau til meiri alhliða endurskoðunar, en enn hefur verið gert.

Það er alveg rétt og var athugað sérstaklega í sambandi við þá frumtill. hv. þm. V-Húnv., sem hér liggur fyrir, að það er nauðsynlegt að gera breyt., sem verði að nokkru leyti í þá átt, sem hans frv. leggur til. En það er ekki nægilegt. Það þarf að gera aðrar frekari breytingar í sambandi við það og ég held, að mér sé óhætt að segja frá því, að það sé álit tryggingaráðs, að þær breyt. eru í þá átt, að þetta nái að vísu fram að ganga, sem till. hans ræðir um, að greiðslur frá sérstökum lífeyrissjóðum valdi ekki skerðingu, á meðan skerðing verður eða ef hún verður áfram. En það er enn nauðsynlegra fyrir tryggingarnar að gera aðrar breytingar á l. um þessa sérstöku lífeyrissjóði og það er í sambandi við það, að nú eru þeir, sem starfa í þeim, undanþegnir greiðslum til almannatrygginganna. Það er sýnilegt, að með þeim vexti, sem er á lífeyrissjóðum, er alveg óhjákvæmilegt að breyta þessu og breyta því í það horf, að þessir sérstöku lífeyrissjóðir verði viðbótartrygging við það, sem almannatryggingarnar veita, en menn verði áfram gjaldskyldir til almannatrygginganna og njóti bóta frá þeim einnig. Ég segi frá þessu, til þess að það sé ljóst m.a., hvað það er, sem breyta þarf eða sumt af því, sem breyta þarf.

Hitt get ég fallizt á með hv. frsm., 1. landsk., að skipting landsins í 1. og 2. verðlagssvæði er að mínu áliti alveg út í hött nú orðið, eins og málum er komið. Og ég get sagt frá því hér, að ég átti þátt í því, þegar tryggingalögin voru síðast endurskoðuð og þá var það mín skoðun og ég hélt henni fram í þeirri n. sem fjallaði um endurskoðunina, að rétt væri að breyta þessu og hafa landið framvegis aðeins eitt verðlagssvæði. Væntanlega verður það eitt af því, sem þarf að breyta. Það var gerð smábreyt. á l. í sambandi við sérstakt atriði tryggingalaganna á síðasta þingi, að því er verðlagssvæðunum viðkemur, sem ég skal ekki fara nánar út í hér, en það eru ýmisleg fleiri rök en þau, sem þá voru fram færð, sem knýja á það, að landið verði framvegis aðeins eitt verðlagssvæði á þessum sviðum eins og flestum öðrum.

Hv. frsm. gat þess, að Tryggingastofnunin hefði skýrt heldur ósmekklega frá því, að hún hefði sparað 15–20 millj. árið 1957 á þessum ákvæðum skerðingarinnar. Ég get fallizt á, að þetta hafi verið óheppilegt orðalag. Það, sem fyrir Tryggingastofnuninni hefur vakað, var sjálfsagt ekki það, að hún hafi beint sparað þetta, því að það er ekki nema að nokkru leyti sparað, ef það er hægt að komast þannig að orði. Að sumu leyti er þetta þannig, að þetta fólk hefur frestað að taka ellilífeyri, sem það á rétt á, um eitt eða fleiri ár og öðlast þá um leið aukinn rétt til lífeyris síðar, svo að það er ekki nema að nokkru leyti sparað fyrir Tryggingastofnunina. En hitt mun rétt, að tryggingafræðingur stofnunarinnar hefur álitið, að aukinn kostnaður trygginganna af algeru afnámi skerðingarákvæðisins mundi hafa orðið 15–20 millj.kr. á árinu 1957.

Hitt vil ég aðeins benda á, að þær tölur, sem hv. frsm. var með hér, munu vera réttar, eins og þær eru í dag. En ég vil leyfa mér að benda á, að um næstu áramót breytast þessar tölur verulega vegna laga, sem samþykkt voru á síðasta Alþingi. Það var samþykkt, eins og menn muna, nokkur hækkun á elli- og örorkulífeyri, sem sjálfkrafa leiðir af sér hækkun á skerðingarmarkinu. Þar að auki er það misskilningur, að breytingar á skerðingarákvæðunum þurfi að bíða þess, að almenn endurskoðun fari fram á tryggingalögunum. Því er ekki þannig varið, heldur er það beinlínis í lögunum, eins og þau eru núna, að ef ekki verða gerðar á þeim breytingar, þá falla skerðingarákvæðin sjálfkrafa niður 1960.

Ég held, að ég hafi tekið fram það, sem mestu máli skiptir í þessu, og skal ekki hafa það lengra að sinni.