14.08.1959
Efri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

4. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. 5. landsk. (FRV) um okkur, sem greiddum atkvæði á móti því eða sátum hjá við atkvgr., hvort skyldi leyfa að taka þetta mál fyrir, þar sem hann sagði, að með því hefðum við sýnt hug okkar til þessa máls, þá þykir mér ástæða til þess að mótmæla því harðlega. Afstaða mín til þessa máls er algerlega óháð því, hvort ég vil leyfa afbrigðin eða ekki. Ég hef tekið afstöðu til þess að greiða atkvæði gegn því að leyfa afbrigði, vegna þess að ég tel rangt að afgreiða slíkt mál sem hér um ræðir, án þess að það fái þinglega meðferð.

Þessi hv. þm. gat m.a. ekkert upplýst um það, hve mikið fé þetta kostaði tryggingarnar. Hann sagði aðeins, að það kostaði ekkert stórfé. Stórfé á hans mælikvarða getur verið allt milli tugþúsunda og milljóna, og liggur því ekkert fyrir um, hvað það kostar og það sést heldur ekkert hér í þingskjölum.

Hv. 5. landsk. er vel kunnugt um það, að meðan ég átti sæti hér á hv. Alþingi, var ég mjög fylgjandi þessu atriði, að skerðingarákvæði væru afnumin. Hugur minn til málsins efnislega hefur ekkert breytzt, svo að ég vil engan veginn láta því ómótmælt, að það sé nokkurt samband á milli afstöðu minnar efnislega til málsins og þess að hafa ekki viljað leyfa umr. um það, sem ég tel mjög óheppilegt að leiða hér inn um allmikið deiluatriði, sbr. frumræðu hv. þm., sem notaði hér mjög stór orð í sambandi við afstöðu Alþfl. til málsins. En ég leyfi mér að spyrja hv. þm.: Hvers vegna kom hann ekki þessu máli fram, á meðan hann studdi hina ágætu vinstri stjórn? Þá hefði hann haft þingmeirihluta til þess að koma þessu máli fram. Það er einkennilegt, að hann skuli nú á síðustu stundu á þessu þingi hefja umræður um þetta mál, sem hefur verið mjög til umr. á mörgum þingum og ekki náðst samkomulag um.

Ég vil að síðustu aðeins taka það fram, að mín afstaða til málsins hefur ekkert breytzt og er ekki í neinu sambandi við afstöðu mína til atkvgr.