12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

14. mál, skattur á stóreignir

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Spurzt er fyrir um, hvað liði innheimtu skatts á stóreignir skv. l. nr. 44 3. júní 1957. Í tilefni af þessari fsp. vil ég taka fram eftirfarandi:

Álagningu skatts þessa var af skattstjórans hendi upphaflega lokið hinn 15. febr. 1958. Alls nam skatturinn 134.985.555 kr. Þessi upphæð skiptist þannig, að félög áttu að greiða 81.978.427 kr., en einstaklingar áttu að greiða 53.007.128 kr.

Skattgreiðendum var þegar tilkynnt um skattálagningu þessa með ábyrgðarbréfi. Næstum allir skattþegnar kærðu skattálagningu til skattstjóra og tók hann fyrir kærur á venjulegan hátt og hafði lokið afgreiðslu þeirra hinn 14. ágúst 1958.

Við meðferð máls þessa hjá skattstjóra urðu nokkrar breytingar á skattálagningunni, svo sem eðlilegt er. Eftir reikningi skattstjórans eftir kærur nam heildarskattur 125.886.777 kr., er skiptist þannig, að félög skyldu greiða 75.285.000, en einstaklingar 50.601.000.

Þegar risu upp harðvítugar deilur um ýmis atriði við útreikning skattstofns við álagningu skatts. Fjölmenn samtök skattþegna hófu þegar eitt dæmimál, málið Guðmundur Guðmundsson og Trésmiðjan Víðir h/f gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Var í upphafi málsins einungis deilt um gildi laga nr. 44/1957 í heild og auk þess, hvort gild væru ákvæði laganna um mat á hlutafjáreign. Þessum þætti málaferlanna lauk hinn 29. nóv. 1958 með dómi hæstaréttar. Samkvæmt þeim dómi voru lögin almennt talin gild, en hins vegar voru felld úr gildi ákvæði þeirra um hlutafjáreign og lagt fyrir skattstjórnaryfirvöld að meta hlutabréf til verðs eftir sannvirði þeirra.

Skattstjórinn myndaði sér síðan reglur um verðmætismat á hlutabréfum og ákvað verðmæti þeirra og reiknaði skattinn að nýju, og var því lokið hinn 12. marz 1959 og öllum skattþegnum tilkynnt um breytingar. Samkvæmt þeirri álagningu nam heildarupphæðin nú 113.256.849 kr., sem skiptist þannig, að félög skyldu greiða 62.655.566 kr., en einstaklingar 50.601.328 kr. Þessum úrskurði skattstjóra var þegar í stað skotið til ríkisskattanefndar af skattgreiðendum.

Hinn 28. maí 1959 kvað svo ríkisskattanefnd upp úrskurð um mat á hlutabréfunum og var þar aðeins um dæmimál að ræða, þ.e.a.s. mál Guðmundar Guðmundssonar og Trésmiðjunnar Víðis h/f. Lagði ríkisskattanefndin algerlega nýjar matsreglur til grundvallar og felldi úr gildi reglur skattstjóra.

Þá hafa og málaferli um skatt þennan haldið áfram og hinn 22. júlí 1959 gekk dómur í síðari hluta máls Guðmundar Guðmundssonar og Trésmiðjunnar Víðis h/f, en með þeim dómi voru felld úr gildi ákvæði laga nr. 44 1957 um, að fyrirframgreiddur arfur á árinu 1956 skyldi teljast eign arfláta. Er til athugunar um áfrýjun á þessum dómi.

Hinn 27. febr. 1959 hafði ríkisskattanefnd auk þess kveðið upp úrskurð um deilur, sem risið höfðu um, hvernig fara skyldi með þau dánarbú, þar sem eftirlifandi maki sat í óskiptu búi, en skattstjórinn í Reykjavík hafði talið heildarbúið hans eign. Ríkisskattanefnd leit hins vegar svo á, að við ákvörðun skattsins bæri að leggja til grundvallar reglu 3. málsgr. 4. gr. laga nr. 44 1957 og skipta erfðahluta, þar sem setið væri í óskiptu búi, á milli erfingja samkv. því. Hins vegar gat ríkisskattanefnd eigi komið því við þá þegar að reikna út skatt allra þeirra aðila, sem hér skiptu máli, vegna þess að þessi breyting hafði áhrif á mjög mörg hlutafélög, en vandasamt mjög að reikna skatthluta þeirra.

Innheimta skattsins hófst um áramótin s.l. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem nú eru fyrir hendi, hafa hinn 30. júlí 1959 eftirtaldir aðilar greitt skatt sinn: Í Reykjavik hafa 194 einstaklingar greitt samtals 4.440.066 kr. og gefið út skuldabréf til tryggingar skattinum samtals að fjárhæð 12.407.928.80. Þá hafa 203 félög greitt í reiðufé 5.593.679 kr., og 103 félög í Reykjavik hafa gefið út skuldabréf til tryggingar skattinum að fjárhæð 18.404.573,30. Utan Reykjavíkur hafa 5 einstaklingar greitt samtals 57.217 kr., og 5 einstaklingar hafa gefið út skuldabréf til tryggingar skattinum að fjárhæð 145.965 kr. Þá hafa 5 félög utan Reykjavíkur greitt af skatti þessum samtals 264.129 kr. og 5 félög gefið út skuldabréf til tryggingar skattinum samtals að fjárhæð 1.803.169 kr. Þannig hefur alls verið greitt af skatti þessum í peningum 10.355.091, en í veðskuldabréfum 32.861.637.10, eða alls greitt 43.216.728.10.

Ástæðan til þess, að eigi hefur verið innheimt meira af skattinum, er sú, að eigi hefur enn verið unnt að reikna hann út að fullu, þannig að séð væri með vissu, hvað hver aðili á að greiða. Þannig hefur, eins og áður er gefið, ríkisskattanefnd enn eigi reiknað út, hver breyting verði vegna úrskurðar þess, sem fyrr var getið um, frá 27. febr. 1959, að því er varðar setu í óskiptu búi og breytingu á dánarbúum í því sambandi. Er vitað, að þetta atriði mun hafa áhrif á allmarga skattþegna, þ. á m. mörg félög. Þá hefur og leitt af úrskurði ríkisskattanefndar um verðmætismat hlutabréfa, að reikna verður skatt hlutaðeigandi að nýju, en slíkt er flókið og tímafrekt. Allt þetta veldur því, að innheimta hefur tafizt, en að sjálfsögðu mun henni hraðað svo sem framast er unnt og lög standa til, þegar endanlega er vitað, hvað hverjum gjaldþegni ber að greiða. En eins og fram hefur komið í frásögn þessari, þá eru lögin um stóreignaskatt mjög erfið í framkvæmd og sífelldur ágreiningur á milli skattstjóra, ríkisskattanefndar og dómstóla um, hvernig skilja beri og framkvæma skuli einstök atriði, auk þess sem viss ákvæði laganna hafa verið felld úr gildi með dómi hæstaréttar.

Þá er spurzt fyrir um það, hvort ríkisstj. sé kunnugt um, hvort stóreignaskattsgreiðendur hafi kært skattlagninguna til mannréttindanefndar Evrópu.

Stofnuð hafa verið tvö félög stóreignaskattsgreiðenda. Fyrir þó nokkru skýrði formaður annars félagsins mér frá því, að hann væri í þann veginn að ganga á fund mannréttindanefndarinnar og hygðist kæra skattálagninguna og dóm hæstaréttar fyrir þessari nefnd. Meira veit ég ekki um það mál. Engin tilkynning hefur borizt til ráðuneytisins um, að nein kæra hafi komið fram og fregnir um það, hvort orðið hefur úr þessari ferð formanns félagsins eða hvernig henni hefur reitt af, hef ég engar haft.