12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

14. mál, skattur á stóreignir

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna það, að ég þekki ekkert til þess málatilbúnaðar, sem hér er gerður að umræðuefni. Ég hef heyrt tvo lögfræðinga kveða upp dóm um það, að þetta sé alröng málsmeðferð og jafnvel sjálfur hæstv. fjmrh. og utanrrh, segir: Þessi málsmeðferð er svo fjarri lagi, að mér dettur ekki í hug, að hún verði tekin til greina. — Þetta er þeim til leiðbeiningar, sem eru að beina því að stærsta flokki þjóðarinnar, að hann standi að málatilbúnaði, sem er svo fjarri lagi, að það er ekki einu sinni búizt við, að menn séu virtir svars, sem bera þetta fram.

Ég skal svo út af því, sem hv. 1. þm. S-M. sagði, aðeins segja það, að ég hef heyrt það hér í þessum umr., að hann stendur fyrir lagasetningu hér á þinginu svo vitlausri, að hæstiréttur Íslendinga þarf að dæma það ólöglegt, sem ríkisstj. gerir. Víð höfum þarna tvo mjög virðulega aðila, sjálfa hæstv. ríkisstj, og hæstv. hæstarétt. Og hæstiréttur verður að fella úr gildi það, sem ríkisstj. er að gera. Svo förum við niður í neðri bekkinn, þar hittum við skattstjóra, virðulegan og gáfaðan mann. Svo förum við dálítið upp fyrir hann og hittum ríkisskattanefnd. Það, sem skattstjórinn gerir, segir ríkisskattanefnd að sé tóm vitleysa. Þarna eru fjórir virðulegir aðilar. Ef sá fimmti er til vitlaus í þjóðfélaginu, þá má hann það vera mín vegna, framsóknarmennirnir og sjálfstæðismennirnir, sem eru í milljónamæringanna tölu. Ég hef ekki verið kallaður til ráða. Ég veit vel, hvernig ég lít á málskot til annarra. Ég hef gert það fyrir hönd minnar þjóðar að skjóta máli þjóðar minnar og leita dóms. Ég þarf ekki að standa, hvorki einum né neinum, reikningsskap á mínum skapsmunum í þessum efnum. En það er bezt, að hæstv. fjmrh., sem stóð að þessari lagasetningu, svari fyrir sig, hæstarétt, skattstjórann og ríkisskattanefndina. Og ef honum finnst, að þarna séu virðulegir og vel metnir aðilar að kljást og segi einn svart það, sem annar segir hvítt, þá má það ómögulega hneyksla hann, þó að fimmti aðilinn sé til í þessu þjóðfélagi, sem hegðar sér eins og fábjáni, að hans viti og ekki leggja neina sök á mig í þeim efnum.