11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. þm. Str. (HermJ) telur sig vera mjög spámannlega vaxinn, því að hann endar sínar ræður hér í þessum umr. jafnan á spádómum. Í gær spáði hann því, að geysileg ógæfa mundi steðja að þessu landi, ef þetta frv. yrði samþ. Nú telur hann, að það eitur, sem þetta frv. feli í sér, muni grafa svo um sig, að allir muni sjá eftir því að samþykkja það síðar meir.

Hv. þm. Str. getur átt við sjálfan sig um allar sínar hrakspár. Hann veit það með sjálfum sér, að hér er verið að gera nauðsynlega, réttláta og sanngjarna endurbót á úreltri og ranglátri kjördæmaskipun í landinu.

Þessi hv. þm. talar mjög um, að það sé verið að svipta sveitirnar og bændurna valdinu og það fer því miður fyrir honum og öðrum leiðtogum Framsfl. svipað og sagt er um einn franska konunginn, sem sagði: Ríkið, það er ég. — Þessum leiðtogum Framsfl. finnst alltaf, að strjálbýlið og bændastéttin og fólkið úti á landinu, það sé eitt og hið sama og Framsfl.

Það, sem hér er að gerast með þessu frv., er í fyrsta lagi það, að fólkið í strjálbýlinu heldur fyllilega þeim rétti, sem það hefur, og fær aukinn rétt í mörgum tilfellum, eins og ég sýndi hér fram á áðan. En það, sem gerist um leið, er það, að Framsfl. er sviptur þeim forréttindum, sem hann í skjóli ranglátrar kjördæmaskipunar hefur notið um margra ára skeið.

Þegar Framsfl. eða hv. þm. Str. talar um sig sem sjálfkjörinn og ekki aðeins sjálfkjörinn, heldur eina fulltrúa og málsvara bændastéttarinnar í þessu landi, þá má m.a. minna á það, að í — ja, ég verð að segja eina hreina bændakjördæmi í þessu landi sem er Rangárvallasýsla, þar hefur Sjálfstfl. um margra ára skeið haft meira fylgi en Framsfl. Hvernig leyfir Framsfl. eða formaður hans sér að koma hér fram og bera það á borð fyrir hv. þdm., að hann einn tali í nafni bændastéttarinnar og dreifbýlisins? Nei, hann ruglast svo gersamlega í ríminu, að hann áttar sig ekki á því fremur, en franski kóngurinn, að það er ekki einn maður, það er ekki einn flokkur, sem er sama og þjóðin.

En hv. þm. eyddi þó einna mestum tíma sínum hér til þess að sanna þdm., hve sannur og hreinn lýðræðisflokkur Framsfl. væri. Og ég býst við, að þó að maður heyrði sjálfan Krústjef í Rússlandi eða Kadar í Ungverjalandi tala um ást sína á lýðræðinu, þá mundu þeir ekki taka hv. þm. fram um sannfæringarkraft. En ég býst við, að það yrði ósköp svipað að því leyti, að allir berja sér á brjóst og þykjast elska lýðræðið, Krústjef og Kadar og allir leiðtogar kommúnismans. Þeir eru frumkvöðlar og hetjur lýðræðisins í heiminum og fólkið stendur á bak við þá, því að í öllum kosningum fá þeir 99.9% atkvæðanna hjá alþýðu manna.

Út af þeim dæmum, sem ég nefndi hér um flokksvaldið í Framsfl. og það var gert að gefnu tilefni vegna krókódílstára sumra þm. Framsfl. út af auknu flokksræði, — þau dæmi, sem ég nefndi, hafa komið svo við kaun framsóknarmanna, að þrír þeirra spruttu hér upp til að afneita. Fyrstur reið á vaðið sá, sem elztur er hér, reyndastur og virðulegastur, hv. 1. þm. Eyf. (BSt) og hann tók að ræða um brottrekstrana úr Framsfl., en ég hafði nefnt það, þegar Framsfl. rak tvo þm. sína úr flokknum 1933, sem dæmi um flokksvald og flokksaga í Framsfl. Hv. 1. þm. Eyf. segir: Ja, ef á annað borð á að reka menn úr flokki, þá er helzt að gera það, ef þeir neita að styðja stjórn, sem flokkurinn vill styðja. — Lengra vildi hann nú ekki fara. En málsvörnin var svo sú hjá honum, að síðar hefðu fimm af þm. Sjálfstfl. neitað að styðja stjórn, sem Sjálfstfl. myndaði og það var ágætt, að hann nefndi þetta dæmi, því að hér eru tvö alger dæmi til samanburðar um vinnubrögðin og flokksagann. Í báðum tilfellum hefur meiri hl. flokksins ákveðið að mynda stjórn. Í báðum tilfellum eru það nokkrir þm., sem neita að styðja þá stjórn. Í Framsfl. eru þm. reknir úr flokknum. Í hinu tilfellinu, í Sjálfstfl., eru þessir fimm þm., sem neituðu að styðja stjórnina, áfram allir í kjöri og studdir af flokknum við næstu kosningar, hver og einn einasti. Hér er eitt lítið dæmi, sem hefur mjög snúizt í höndum hv. 1. þm. Eyf.

En að því er snertir annað, sem hann nefndi, sem ég ætla að skjóta hér inn i, í leiðinni, þó að það snerti ekki flokksvaldið, þá hafði hann algerlega misskilið mín orð. Ég nefndi það, að 1916, í síðasta skiptið, sem óhlutbundnar kosningar voru um allt land, hafi flokkarnir, sem buðu hér fram, verið átta að tölu. Hann misskildi þetta og taldi, að þetta ætti við landskjör, og vil ég leiðrétta það hér. (Gripið fram í.) Já, það er prentað allt saman í hagskýrslum um alþingiskosningar 191, og þar er hægt að sjá það allt saman, það er talið þar upp. Ég skal sýna hv. þm. það á eftir, en annars ætti það að vera óþarfi.

Varðandi hin tvö dæmin um það, þegar boðinn var annar maður fram á móti Benedikt Sveinssyni 1931 í Norður-Þingeyjarsýslu og annar framsóknarmaður á móti Jónasi Jónssyni í Suður-Þingeyjarsýslu, þá hafa hér verið teknar upp ýmsar varnir í því máli og ég verð að segja harla kyndugar. Út af framboði Benedikts Sveinssonar, sem þá hafði verið lengi þm. Norður-Þingeyinga, upplýsir hv. 1. þm. Eyf. og það var mjög undirstrikað af formanni flokksins hér áðan, að þingflokkurinn hefði samþykkt, að allir þingmennirnir skyldu bjóða sig fram aftur. Út af fyrir sig er þetta náttúrlega alveg dásamlegt lýðræði. Þingmennirnir ákveða, að þeir ætli allir að vera í kjöri aftur. Það er ekki verið að spyrja flokksmennina heima í héraði. Það er bara gerð samþykkt á þingflokksfundi um það: Við ætlum allir að bjóða okkur fram, hvað sem hver segir. Þetta var orðað þannig hjá þeim báðum. En það kom annað fram mjög athyglisvert í þessu, það er varðandi framboð Jónasar Jónssonar. Hv. þm. S-Þ. segir: Það var ágreiningur í flokknum í héraði. Meiri hluti fulltrúaráðsins, þ.e.a.s. flokksstjórnarinnar í héraðinu, skilst mér að hafi verið fylgjandi framboði Jónasar Jónssonar, en minni hlutinn framboði mótframbjóðandans. Nú, gott og vel, eftir lýðræðisreglum skilst mér þá, að meiri hlutinn ætti að ráða og flokkurinn ætti þá að styðja það. Nei, þannig er það ekki í Framsfl. Vegna þess að miðstjórnin hafði verið með þeim manni, sem var í minni hluta í fulltrúaráðinu, þá ákveður miðstjórnin að styðja hann. Þess vegna er í báðum tilfellum ástæðan ein og aðeins ein, að þessir þm. báðir tveir, Benedikt Sveinsson í fyrra tilfellinu, Jónas Jónsson í síðara tilfellinu, eru fallnir í ónáð hjá flokksstjórn Framsfl. Þess vegna er unnið á móti því með öllum ráðum, að þeir nái endurkosningu. Þess vegna er allur þessi leikur settur á sjónarsviðið.

Hv. 1. þm. Eyf. segir: Ja, þingmennirnir allir samþykktu það, að þeir skyldu bjóða sig fram, og m.a. Benedikt Sveinsson. Það kann að hafa verið einn maður í flokknum, segir hann, sem vann á móti þessu. Hver var sá maður? Það var sá maður, sem þá var í rauninni einræðisherra í flokknum, Jónas Jónsson frá Hriflu. Það var hann, sem í rauninni fór með flokksvaldið. Hann var á móti Benedikt Sveinssyni og þess vegna var flokksmaskína Framsfl. sett í gang, annar maður boðinn fram og Benedikt Sveinsson, hin virðulega og reynda sjálfstæðishetja, verandi þm. í langan tíma fyrir þetta kjördæmi, var felldur frá kosningu.

Nei, góðir framsóknarmenn, það þýðir ekkert að reyna að telja okkur eða öðrum, sem eitthvað þekkja til ferils Framsfl. undanfarna áratugi, trú um, að Framsfl. sé fyrst og fremst lýðræðisflokkur, þar sem fólkið ræður. Nei, þar er flokksveldi og flokksagi í ríkara mæli, en þekkist og þekkzt hefur á Íslandi, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, nema e.t.v. í kommúnistaflokknum.

Ég skal svo aðeins að lokum — án þess að lengja þessar umr. mikið — minnast á hlutfallskosningarnar, því að eitt aðalverkefni hv. þm. Str. nú síðast var að rökstyðja enn, hvílíkt eitur og hvílík ógæfa hlutfallskosningar væru. Það, sem hann sagði hér um þetta mál, voru að mestu endurtekningar á fyrri fullyrðingum hans frá í vor og nú, sem ekki fá staðizt. Ég skal ekki rekja það hér ýtarlega, en ég vil þó aðeins benda á aðalniðurstöðurnar.

Í fyrsta lagi: Það er ósatt, sem framsóknarmenn halda fram, að vandræðin og stjórnarkreppurnar í Finnlandi stafi af hlutfallskosningum og þetta vita allir, það stafar ekki af kosningafyrirkomulaginu, heldur af ógnunum nágrannans í austri.

Varðandi Þýzkaland, þá er það líka ósatt, að flokkum hafi fjölgað, þegar hlutfallskosningar voru teknar upp. Það er sannað, að áður en hlutfallskosningar voru lögleiddar 1918 í Þýzkalandi, voru flokkar fleiri,þar en þeir urðu eftir þær. Með þessu er það ekki sagt, að fjöldi flokkanna hafi ekki getað átt sinn þátt í því að koma nazistum og Hitler til valda. Um það hef ég ekkert sagt. Ég hef bara sagt, að það er upplýst og sannað og óhrekjanleg staðreynd, að hlutfallskosningar urðu ekki í Þýzkalandi til að fjölga flokkum.

Hv. þm. Str. spyr svo: Hvers vegna tóku þá Þjóðverjar ekki upp hlutfallskosningar, ef þær höfðu reynzt svo vel? Hann segir: Vestur-Þjóðverjar tóku einmitt upp einmenningsfyrirkomulag. Þarna fer hann líka með rangt mál. Í Þýzkalandi er fyrirkomulagið þannig, að nærri helmingur allra þm. er kosinn hlutfallskosningu. Þetta er með þeim hætti, að það eru að vísu einmenningskjördæmi, en a.m.k. 40% allra þm. skulu vera uppbótarþingmenn, sem eru kosnir hlutfallskosningu. Og ekki aðeins það, heldur leggja Vestur-Þjóðverjar svo mikla áherzlu á það, að flokkarnir fái þm. í réttu hlutfalli við atkvæðamagn sitt, að það er skylt skv. stjórnarskránni að úthluta fleiri uppbótarsætum, en almennt er gert ráð fyrir, ef það er nauðsynlegt til að jafna milli flokkanna. M.ö.o.: þó að einmenningskjördæmi séu að þessu leyti í Þýzkalandi, þá hefur hlutfallssjónarmiðið ráðið svo miklu, að það er í rauninni meginatriði kosningafyrirkomulagsins.

Hv. þm. Str. telur, að hlutfallskosningar séu eitur og ógæfa. Hann telur, að einmenningskjördæmin séu hið bezta fyrirkomulag. Við skulum segja, að einmenningskjördæmi væru hér lögleidd, — við skulum byggja á því, sem flokksþing Framsfl. sagði að væri sín meginstefna, hvaða málamiðlunarboð sem þm. hafa verið að bjóða hér nú, — einmenningskjördæmi án uppbótarsæta er meginstefna Framsfl., segir síðasta flokksþingið. Hv. þm. V-Húnv. (SkG) mun hafa haldið því sama fram í umr. í Nd.

Ef einmenningskjördæmi eru sú eina rétta lausn við kosningar til þings, þá gildir vitanlega sama um bæjar- og sveitarstjórnarkosningar. M.ö.o.: eftir kenningum Framsfl. ætti að skipta t.d. Reykjavík nú til bæjarstjórnarkosninga í einmenningskjördæmi 15 að tölu. Það þýddi, miðað við síðustu kosningar, skulum við segja, að það eru allar líkur til þess, að allir 15 bæjarfulltrúarnir yrðu þá sjálfstæðismenn. Það eru líkur til þess. Ég vil spyrja hv. þm. Str.: Meinar hann þetta? Á hann við það, að það sé hans stefna og Framsfl., að t.d. í bæjarstjórn Reykjavíkur væru 15 einmenningskjördæmi, sem þýddi það að öllu líklegu, að einn flokkur hefði alla bæjarfulltrúana og enginn annar flokkur væri þar til? Er þetta skoðun hans, eða er þetta bara sett fram með þessi einmenningskjördæmi nú til þess að villa um fyrir mönnum?

Ef einmenningskjördæmi án uppbótarsæta hefðu verið fyrirkomulagið hér við kosningar til Alþingis 1953, þá hefði útkoman orðið sú, að Sjálfstfl. og Framsfl. hefðu fengið alla þingmennina kosna með tölu. Þeir höfðu samtals um 60% atkvæða í landinu. Aðrir flokkar, þrír eða fjórir líklega að tölu, sem höfðu samtals 40% allra landsmanna að baki sér, áttu engan þm. að fá. Er þetta réttlæti, og vill hv. þm. Str. standa við það, að þetta fyrirkomulag með þessum afleiðingum, sem ég hef bent m.a. á tvö dæmi um, sé stefna Framsfl.? Ef það er, þá eru rangindin í Framsfl. og hugsunarhætti hans margfalt meiri, en ég hef nokkru sinni trúað, því að ef nokkur maður lætur sér detta í hug, að það fyrirkomulag geti staðizt, að 50–60% af þjóðinni fái hvern einasta þingmann kosinn meðan tæpur helmingur þjóðarinnar fær engan þm. kosinn, að slíkt geti staðizt í lýðræðislandi, þá brestur þessa menn algerlega allt skyn á, hvað er lýðræði og hvað þarf til að stjórna einu þjóðfélagi.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en aðeins bæta því við, að þegar hv. þm. Str. endurtekur þær rakalausu fullyrðingar framsóknarmanna hér áður og málgagna hans, að það sé verið að svipta sveitirnar einhverjum rétti og taka einhvern rétt af þeim, þá eru þetta gersamlega staðlausir stafir. Ég benti hv. þm. S-Þ. á það hér áðan, að hann skyldi tala varlega um þetta, þegar það er sannanlegt, að einmitt sá landshluti, sem hann er þm. í, fær einum þm. fleira með þessu frv. en nú er, að telja það réttindasviptingu fyrir bændur eða fyrir dreifbýlið t.d., þó að Vestfirðingar eigi nú að kjósa í einu lagi þessa fimm þm., en áður hver sýsla fyrir sig. Þetta er ekki berandi á borð fyrir vitiborna menn, að halda slíku fram. Á það að vera einhver árás á bændur eða búalið í Vestfirðingafjórðungi t.d., þó að eftir þessu frv. sé búið svo um hnútana, að nú fái allir Vestfirðingar að njóta starfskrafta hv. þm. Str., í stað þess að það eru Strandamenn einir, sem hafa notið þeirra hingað til? Ég fæ ekki séð, að það sé nein árás á bændastéttina, þó að svona sé um hnútana búið, að fleiri fái að njóta slíks manns.

Ég þarf ekki að bæta hér fleiri orðum við, en vil aðeins endurtaka, að það er sannfæring mín alger, að þetta frv. er nauðsynleg réttarbót til þess að tryggja betur lýðræðið og gera Alþingi réttari mynd af þjóðarviljanum, en nú hefur verið um hríð.