04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Frsm. 2. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í umræðum hér á þinginu fyrir nokkrum dögum, nánar tiltekið 28. nóv., bar ég fram nokkrar spurningar til hæstv. landbrh. viðkomandi brbl. um verðlag landbúnaðarafurða frá 18. sept. Ég spurði hæstv. ráðh, t.d. um það, hvort hann liti svo á, að hann eða ríkisstj. hefði heimild í einhverjum lögum, sem nú væru í gildi, til þess að bæta bændum það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir af útgáfu brbl. Hæstv. ráðh. gaf þá engin svör um þetta. En í ræðu, sem hann flutti hér nú fyrir skömmu, sagði hann, að ríkisstj. hefði heimild til að greiða þessar bætur.

Þetta er í nokkru ósamræmi við álit Sjálfstfl., eins og það birtist í málgögnum hans í septembermánuði, skömmu eftir að brbl. voru gefin út.

Í yfirlýsingu þingflokks og miðstjórnar Sjálfstfl., sem birt var í Morgunbl. 19. sept., lýsir flokkurinn yfir því, að hann muni á Alþingi leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir af þessum sökum verða fyrir. Þessi yfirlýsing er síðan endurtekin í Morgunbl. 22. sept. Þar segir, að Sjálfstfl. muni ekki styðja lögin á Alþingi, heldur leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir verða fyrir af þessum sökum. Og í þriðja lagi, hinn 29. sept. er í innrammaðri forsíðugrein í Morgunbl. sagt, að Sjálfstfl. muni beita sér fyrir því á þingi, — hinu nýkjörna þingi, sem hann er búinn að tala um áður, — Sjálfstfl. muni beita sér fyrir á því þingi, að hlutur bænda verði réttur og þeim bætt það tjón, er lögin hafa þá bakað þeim. Af þessu sýnist mér það koma ljóst fram, að þingflokkur og miðstjórn Sjálfstfl. hafi litið svo á í næstliðnum septembermánuði, að það væri ekki heimild í lögum til að greiða þessar bætur, og þess vegna lofar flokkurinn því hátíðlega að beita sér fyrir á þingi eða leggja til á þingi, að bændum verði bætt upp þetta tjón. Nú segir hæstv. landbrh. hins vegar, að heimildin sé fyrir hendi.

Ég veit ekki, hvor aðilinn fer þarna með rétt mál. Ég skal ekki dæma um það. En ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir nú, þá ætti hann ekki að láta það dragast lengur að fara að greiða þessar bætur til bænda. Hann ætti þá að gera það hið bráðasta. Ef hins vegar það er rétt, sem flokkur hans sagði, bæði þingflokkur og miðstjórn, í septembermánuði, að heimildina skorti og þess vegna þyrfti að fá samþykkt á Alþingi til að greiða þetta, þá tel ég, að hæstv. landbrh. hefði átt að láta það verða sitt fyrsta verk, nú þegar þing var sett, að fara fram á slíka heimild. Þetta hefur hann ekki enn gert og enginn úr hans flokki borið fram tillögu um slíkt, og því var það, að framsóknarmenn hafa flutt um þetta till., og hér liggur fyrir brtt. frá tveimur þm. Framsfl. hér

Í deildinni, á þskj. 46, um heimild handa ríkisstj. til að greiða þessar bætur. Verði þessi till. samþykkt, getur stjórnin vitanlega strax greitt bæturnar samkv. þeirri heimild. Hún getur gert það nú þegar, þó að áramótin séu ekki komin, vegna þess að till. er ekkert miðuð við greiðslur eftir áramót. Það er heimilt samkv. henni, ef hún verður samþykkt, að greiða þetta nú þegar.

Hæstv. fjmrh, hefur nýlega talað hér tvisvar á þessum fundi í dag og hefur verið nokkuð gustmikill. Hann var að burðast við að mótmæla því í fyrri ræðunni, sem hann flutti, að hann brjóti þingvenjur, þó að hann láti hjá líða að gera grein fyrir fjárhagsástæðum ríkisins, áður en þingi verður frestað. En það er þýðingarlaust fyrir hæstv. ráðh. að mótmæla þessu. Ég sýndi fram á í dag með því að rekja þingsöguna, að því er þetta atriði varðar, langt aftur í tímann, að það hefur verið algild regla, að fjárlagaþingi hefur ekki verið frestað, án þess að fjmrh. hafi áður gefið því yfirlit um afkomu ríkissjóðs og horfur í fjárhagsefnum, og ef hæstv. ráðh. gefur ekki slíka skýrslu, áður en þinginu verður frestað að þessu sinni, er hann að brjóta hefðbundna og sjálfsagða venju í þessu efni. Og ætli hæstv. ráðh. að fara þannig að, þá ætti hann ekki að bæta gráu á svart með því að mótmæla staðreyndum að því er þetta varðar.