02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2927 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

112. mál, útsvör

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að orðlengja fremur um þetta mál, svo rækilega sem um það hefur verið rætt, en hv. andmælendum þessa frv. hefur þó tekizt sérlega vel að fara í kringum þau atriði í frv., sem væru þó ámælisverðust. Þeir hafa fjölyrt hér um atriði, sem eru alveg sjálfsögð, eins og það að samræma útsvarsreglur í sveitarfélögunum. Ég hef þreifað fyrir mér í nágrannalöndum og reynt að kynna mér útsvarsreglur. Ég hef hvergi orðið var við, að ekki sé til heildarlöggjöf um þessi mál, að það séu ekki ákveðnar reglur að ofan um það, hvernig þessi mál eigi að vera.

En það er annað atriði í þessu frv., sem rétt er að undirstrika, ákvæði, sem alls ekki er æskilegt að hafa í frv., er kemur frá Alþingi, og þar á ég við veltuútsvörin. Veltuútvörin eru það form tekjuöflunar sveitarfélaga, sem sízt er æskilegt. Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, að þetta sé vandræðatekjuöflunaraðferð, og það hefur áður komið fram í þessum umr., að þetta frv, sé aðeins ætlað til bráðabirgða og til reynslu á þessu ári. Það eru aðeins 5–6 mánuðir, þangað til þing kemur aftur saman, og þá má búast við því, að eigi líði langur tími, unz endurskoðað frv. kemur fram um útsvarsmálin í heild. Á þeim tíma munu sveitarfélögin áreiðanlega öll fá þetta til umsagnar. Á þeim tíma hafa þau fengið að reyna þessa stiga í framkvæmd og sjá, hvernig þeir gefast. Og að þeirri reynslu fenginni mun áreiðanlega verða sterkari grundvöllur fyrir nefndina og Alþingi að byggja upp sanngjarna og réttmæta álagningarskala fyrir sveitarfélögin.

Það var aðeins þetta, sem ég ætla að taka fram, áður en til atkvgr. kemur, að ég tel, að velta út af fyrir sig sé fræðilega fáránleg tekjuöflunarviðmiðun fyrir sveitarfélögin. Engu að síður er hv. alþm. ljóst, að sveitarfélögin mættu alls ekki við því nú að missa þennan tekjustofn, svo mikilvægur sem hann er í þeim allflestum, og þess vegna erfitt og nánast ógerlegt af Alþingi að svipta þau þeim tekjustofni á þessu ári, án þess að þeim sé séð fyrir öðrum nýjum tilsvarandi tekjustofni í staðinn.