23.05.1960
Neðri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2940 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

162. mál, verðlagsmál

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er eingöngu vegna þess, að mér þykir rétt, að það liggi ljóst fyrir, að trú manna á verðlagseftirliti innan ríkisstj. er nokkuð misjöfn, að ég hef kvatt mér hljóðs til þess að undirstrika þetta og ekkert annað.

Það hefur margt verið sagt hér, sem væri ákaflega skemmtilegt yrkisefni, en ég hygg nú, að ef við í stjórninni hefðum lagt í vana okkar að mótmæla, þegar mótmæla þarf, og mótmæla allir í staðinn fyrir að láta einn gera það, þá hefðu umræður dregizt nokkuð á langinn umfram það, sem gerzt hefur, og er þó nóg. Ég læt þess vegna nægja aðeins að segja þetta: Enda þótt það sé sameiginlegur vilji ríkisstj., miðað við það ástand, sem er í dag, að verðlagseftirlitið verði, þá er það engan veginn af því, að við allir höfum sömu óbilandi trú á ágæti verðlagseftirlitsins.