30.11.1959
Efri deild: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það eru dálítið óvenjuleg vinnubrögð með ýmsu móti hér á Alþingi þessa dagana og þessi augnablik. Það er stöðugt skipt um mál á dagskránni, og er það auðsjáanlega gert til þess, að hægt sé að leita afbrigða, þó að ýmsir af hv. stjórnarsinnum séu ekki til staðar hér í deildinni.

Þessi vinnubrögð og það að steypa saman á svipstundu fjórum málum, þannig að þm. hafa aðeins fáar mínútur til að átta sig á því, hvort um sama efni er að ræða og í þeim fjórum frv., sem lágu fyrir hv. þd. fyrir stuttu, eru með furðulegum hætti, og það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. sé að leika sér að því ofan á það athæfi að ætla sér að senda þingið heim á fyrstu 10 dögum þess að brjóta niður anda þingskapa og reglna. Og ég verð að segja það, að þetta er mjög grár leikur. Þegar skapaðar eru einhverjar venjur, hvort sem það eru þessar eða annað hér á þingi, þá þykir venjulega auðveldara að grípa til þess síðar en hefur þótt áður en sá ósiður var upp tekinn. Þetta er auðvitað gert til þess — og leynir sér ekki — að stytta ræðutíma þm., sem þeir hafa samkv. þingsköpum. Þetta veldur því m.a. í umr. um þessi mál hér í hv. deild, að ræðutími þm. er styttur um 3/4. Það hefur hver þm. leyfi til þess að taka tvívegis til máls um hvert mál, og með því að steypa þessu saman er ræðutíminn styttur í 1/4 af því, sem þingsköp gera ráð fyrir. Með sama hætti er hægt eftir þessari reglu að steypa saman fjölda mála, hvenær sem er á Alþingi og í sama skyni og með enn meiri árangri.

Það eru vinnuaðferðir sem þessar, sem eru þingræðinu hættulegar, og það gegnir furðu, þegar hæstv. ráðh. og hv. stjórnarsinnar undrast yfir því, þó að þessum aðförum sé mætt hér á Alþingi með nokkrum ræðum, sem haldnar hafa verið hér í þessari hv. þd. og í Nd. Þeir tala um það í þessu sambandi, að hér sé um málþóf að ræða. Þær athugasemdir, sem bornar hafa verið fram hingað til á Alþingi, eiga ekkert skylt við málþóf. Það eru eðlilegar fyrirspurnir um eitt og annað í sambandi við þetta mál og ekkert annað, enn sem komið er. Ég hef kynnzt málþófi oftar en einu sinni hér á Alþingi, og það var ekkert líkt þessari eyðslu á tíma, sem stjórnarsinnar eru núna hneykslaðir yfir. Ég man eftir því, þegar einn af hv. þm. var búinn að tala í tvo eða þrjá klukkutíma og gleymdi efninu og sagði, sem frægt er, — en hann var þá ekki eini maðurinn, sem tók þátt í þeim umræðum: Hvar er ég nú í dósa? — Hann var að lesa upp ræðu eftir ákveðinn þm., og það kom efninu ekkert við. Þessu málþófi er stundum beitt á þingum, sem ýmsum þykja til fyrirmyndar, án þess að ég nefni nokkurt sérstakt land. Þar hefur málþófi verið beitt þannig, að einn þm. hefur komizt upp í það að tala í 27 klst., þegar þeim hefur fundizt, hvort sem ástæða hefur verið til þess eða ekki, að þinginu væri misboðið af ríkisstjórninni. Ég er ekki að benda á þetta til fyrirmyndar, þvert á móti. Það er afleitt, að slíkum vinnuaðferðum sé beitt og þurfi að beita, og fram að þessu tel ég, að það hafi undir engum kringumstæðum verið gert, hvað sem verður.

Þegar á það er litið, af hvaða tilefni eru þessar óvenjulegu umræður, sem hæstv. ríkisstj. og sumir af þeim stjórnarsinnum, sem talað hafa hér í þessari hv. d., hafa fundið ástæðu til að telja aðfinnsluverðar, þá er rétt að varpa fram þeirri spurningu og gera sér grein fyrir því: Eru þessar umræður óeðlilegar? Á að þegja við þessum vinnuaðferðum? Ég býst við, að þessar vinnuaðferðir, að senda hið nýkjörna þing heim á fyrstu 10 dögum þess, þyki einhvern tíma, þegar athugaðar eru allar aðstæður, sögulegur viðburður meðal þessarar þjóðar, — eftir að þing hefur verið kosið, svo sem kunnugt er, samkvæmt nýrri stjórnarskipun, þá sé það fyrsta verkið að senda þingið heim og það undir þeim kringumstæðum, sem ég skal nánar taka fram. Og ég býst við því, að þegar um þetta verður fjallað, — án þess að ég sé nokkur spámaður, — þá mundi það hafa þótt undraverðara og aðfinnsluverðara við þann minni hluta, sem hér er á Alþingi, ef hann hefði ekki mætt þessum vinnuaðferðum með einhverju móti. Fyrir mig er þetta fullkomin sannfæring, að þannig muni þetta verða dæmt. Og ég held, að hv. stjórnarsinnar hafi gott af að hugleiða það, hvernig þeir mundu hafa mætt því, ef átt hefði að taka upp slík vinnubrögð við þá, og ég lái þeim það ekki. En til slíkra vinnubragða hefur aldrei komið.

Það, sem farið er fram á af stjórnarandstöðunni, er sannarlega ekki stórfellt. Það er farið fram á það eitt, að hafðar séu þær reglur, sem hafðar hafa verið í heiðri hér á Alþingi, að gera grein fyrir fjárhagsafkomu ríkissjóðs fyrstu dagana og ræða það mál, eins og venja er til og samkv. þingsköpum, í heyranda hljóði, í áheyrn alþjóðar. Þetta er fyrsta atriðið. Í öðru lagi er farið fram á það, að brbl. verði, svo sem venja hefur verið, lögð fyrir þingið sem fyrst og áður en því er frestað um langan tíma.

Þetta er það, sem farið er fram á. Og hver eru þessi brbl.? Þessi brbl. eru um landbúnaðarverðið, og það liggja fyrir yfirlýsingar frá öðrum stjórnarflokknum, að hann muni beita sér fyrir því, undireins og Alþingi kemur saman, svo sem margsinnis hefur verið tekið hér fram og lesið upp úr yfirlýsingu Sjálfstfl., að þessi lög verði felld. Ég get ekki séð, að það sé neitt óeðlilegt, þótt það sé farið fram á, að staðið sé við slíkar yfirlýsingar og lögin lögð fyrir, eins og flestir landsmenn munu hafa búizt við, áður en þetta þing kom saman. Og ég býst við, að það veki ekki litla undrun a.m.k. hjá bændastéttinni, mörgum mönnum í bændastétt, að annað eins skuli koma fyrir eftir allar yfirlýsingar, sem Sjálfstfl. hefur gefið í þessu máli. Sérstaklega er ástæða til að fara fram á það, að þessi lög verði lögð fram og þau afgreidd fyrir þingfrestun, af því að ýmsir hér á Alþingi geta ekki varizt þeim grun, sem ég hef heyrt af vörum margra þm., en mér dettur ekki í hug að trúa, að allt þetta sé í höfuðatriðum gert, þingfrestunin, til þess að þurfa ekki að leggja brbl. fyrir Alþingi, áður en því er frestað, og síðan eigi að gefa út ný brbl. um framlengingu brbl., sem ekki hafa verið lögð fyrir Alþingi. Þessu dettur mér að vísu ekki í hug að trúa. Slíkum vinnubrögðum dettur mér ekki í hug að trúa. Mér dettur ekki í hug að trúa því, að ríkisstj. taki upp á slíkum vinnubrögðum. Ýmsir þm. hafa grun um, en ég trúi ekki á að geti átt sér stað, að það sé verið að senda hið nýkjörna þing heim til þess að koma í veg fyrir, að þingviljinn komi fram á Alþingi, og geta síðan, án þess að vita um þingviljann eða vegna þess kannske, að þeir vita um hann og vita, að hann er ekki hagstæður, að ætla sér að gefa út framlengingu á brbl.

Ég sagði áðan, að ný vinnubrögð á Alþingi eru talin skapa venju, og það er ákaflega oft, þegar eitthvað á að gera hér á Alþingi og ríkisstj. vill framkvæma eitt eða annað, að þá er leitað eftir fyrirmyndum. Og það er ekkert undarlegt. Það er alveg rétt hjá hæstv. ríkisstj. og hefur komið fram hér í umræðum á Alþingi, þó ekki hér í þessari hv. d., að ég hygg, að það muni vera leyfilegt eða a.m.k. fordæmi um það að gefa út brbl. milli þinga, þó að þannig standi á, að það sé raunverulega sama þingið, ef því er frestað. Ég man það vel, að þegar ég las stjórnlagafræði, þá var þessi skýring ekki til staðar. Milli þinga var talið eiga við tvö þing, en ekki talið, að það væri heimilt með því að fresta þingi. En síðan var þetta framkvæmt og skýrt þannig og hefur skapazt sem venja.

En hversu mikla venju má ekki skapa út frá því, sem hér er verið að gera? Það mætti eftir þessu gefa út brbl., — og þau hafa verið gefin út og það er nú eitt fordæmið, — án þess að þingvilji væri fyrir þeim, þegar þau voru gefin út, og raunverulega með vitneskju um það, að þingvilji var alls ekki til staðar, sem er eitt út af fyrir sig einræðisaðgerð, en ekki þingræðisaðgerð. En hér er skapað enn eitt fordæmi. Það gildir ekki lengur, sem við urðum að leita eftir, þegar við höfum verið í ríkisstjórn, hvort maður gæti tryggt sér þingmeirihluta og þingmeirihluti væri til, þegar brbl. voru gefin út. Hér er sem sagt komið inn á það, að það á að vera leyfilegt að gefa út brbl., ekki aðeins án þess að kynna sér þingviljann, heldur þó að því sé yfir lýst, að þingmeirihluti sé ekki til staðar.

Og þá skulum við halda áfram. Það átti að fresta þingi á fyrstu 10 dögum þess og án þess að gera grein fyrir fjárhagsafkomu ríkissjóðs, án þess að leggja fyrir brbl. og án þess að taka fyrir eiginlega nokkurt mál, án þess að leyfa einn fyrirspurnatíma á miðvikudegi. Kannske verður hann leyfður næsta miðvikudag. Þá venju á að brjóta niður líka, ef það verður ekki gert. En hvers vegna má þá ekki alveg eins, ef á að fresta fyrstu 10 daga, fresta fyrstu 2 eða 3 daga, eða sem sagt hvenær sem er, þegar það er komið niður í 10 daga? Hvers vegna er ekki hægt að gefa út brbl., þó að ekki sé þingmeirihluti fyrir þeim og það sé vitað, að hann er ekki til staðar, — kalla saman þing, senda það heim einu sinni eða tvísvar, því að þegar það má gera einu sinni, þá má eins gera það tvísvar á vetri, án þess að leggja brbl. nokkurn tíma fyrir, því að það getur verið þannig um lög, að þau séu þannig tímabundin, að það sé búið að framkvæma meginhlutann, sem lögin ná til, þegar þau loksins koma fyrir þingið. Og það þarf ekki að hafa þessa aðferð. Ef hægt er að fresta þingi núna í byrjun þess í tvo mánuði, hvaða stjórn getur þá ekki komið eftir stuttan tíma og sagt: Ja, því var frestað í tvo mánuði, eftir að það hafði setíð í 10 daga. Við ætlum að fresta því í 3 eða 4 mánuði án þess að leggja fyrir brbl. — Svona fordæmi hlaða á sig fordæmum, því meira sem þau eru skoðuð. Og það er alls ekki séð fyrir afleiðingarnar af þessu, því að það mun sagan sýna og sanna, hvort sem litið er til þessarar þjóðar eða annarra þjóða, að allar stjórnir hafa meiri eða minni tilhneigingu til að ná valdinu í hendur sínar, en láta þingsins gæta minna en eðlilegt er. Og fordæmi, sem gefin eru í þá átt, að þetta megi eiga sér stað, eru stórhættuleg fyrir þingræðið. Og satt að segja skil ég ekkert í þeim mönnum, — þeim mætu mönnum mörgu, sem standa að núverandi ríkisstjórn, að þeir skuli ekki hafa tekið fram fyrir hendur ríkisstj. í þessu efni, fyrst henni yfirsást, því að ég vil leggja þetta út sem yfirsjón. [Frh. — Fundarhlé.]