29.02.1960
Neðri deild: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3059 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

71. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar Alþ. kom saman 20. nóv., var sýnt, að ekki mundi unnt að afgreiða fjárlög fyrir áramót og ekki fyrr en efnahagsráðstafanir væru tilbúnar og hefðu verið afgreiddar af Alþingi. Það var einnig ljóst, að þó að fjárlagafrv. fyrir árið 1960 lægi þá fyrir fullbúið, þá yrði vegna hinna nýju efnahagsaðgerða að semja nýtt frv. Það var því flutt frv., sem var afgreitt, um að heimila ríkisstj., eins og venja er, þegar svo stendur á, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á árinu 1960 til febrúarloka þessa árs. Hið nýja fjárlagafrv. var svo lagt fram, þegar eftir að þingið kom saman að nýju eftir þingfrestunina, og hefur hv. fjvn. haft það til meðferðar síðan. Hún hefur unnið mjög vel að frv., en því er ekki lokið enn, og má gera ráð fyrir, að það taki alltaf a.m.k. um vikutíma fyrir n. — eða kannske aðeins meira — að skila frv. frá sér til 2. umr. Það verður því að framlengja þessa heimild um bráðabirgðafjárgreiðslur. Var frv. þetta flutt af fjhn. Ed. eftir minni beiðni, og er í því fólgið, að slíkar bráðabirgðafjárgreiðslur verði heimilaðar til marzloka 1960. Þar sem hin fyrri heimild nær aðeins til febrúarloka, vil ég mælast til þess við hv. þd. og hæstv. forseta, að greitt sé fyrir því, að þetta frv. nái fullnaðarafgreiðslu hér í dag.