07.04.1960
Efri deild: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3069 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

26. mál, útsvör

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af því, sem fram kom hér hjá hv. 4. þm. Vesturl. (JÁ), segja nokkur orð.

Það mun vera rétt, að þetta mál eða önnur því skyld hafi áður komið fram á Alþ. En þó hefur mér verið tjáð, að það hafi ekki verið í því formi, sem málið er núna, áður fyrr hafi verið gerðar kröfur um meiri breytingar á útsvarslögunum en farið er fram á í þessu frv.

Ég held, að það sé ekki mikil hætta á því, eins og hv. þm. var að tala um, að það sé erfitt að gera upp á milli, hverjar séu tekjur atvinnurekandans af síldarsöltun á atvinnustað og svo tekjur hans af öðrum atvinnurekstri annars staðar eða í heimasveit, því að í fjöldamörgum tilfellum er það svo, að síldarsaltendur eða fyrirtæki, sem reka síldarsöltun, reka alls ekki aðra atvinnu, en eingöngu síldarsöltun. Þó munu auðvitað vera dæmi um hið gagnstæða.

Hv. þm. var að tala um, að það væri eðlilegt að leysa þetta með því, að atvinnusveitinni væri eingöngu heimilað að leggja á veltuútsvar. Nú mun það vera svo í reynd, að þar, sem hefur verið lagt á slík fyrirtæki, hefur yfirleitt eingöngu verið lagt á veltuútsvar, enda má segja, að það sé að mörgu leyti eðlilegast. Þannig eru ekki neinar líkur til þess, að það yrði breyting á því, þó að þetta frv. yrði samþ., því að það hefur í reyndinni verið svo, að á þessi fyrirtæki, sem þó flest hafa sloppið við útsvarsskyldu, hefur ekki verið lagt annað en veltuútsvar.